20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6989 í B-deild Alþingistíðinda. (6360)

156. mál, nýting ríkissjóðs á hluta af Seðlabankabyggingu

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil staðfesta það, sem fram kom hér áðan hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni, að það var um það rætt og gert við hann samkomulag á fundi þingflokksformanna í morgun að ákveðnar þáltill. næðu fram að ganga og fengju hér fullnaðarafgreiðslu þar sem samkomulag væri um þær við afgreiðslu úr nefnd. Þetta var sú forsenda sem menn gáfu sér þegar menn völdu úr hvaða tillögur ættu að ganga fram. Það var samkomulag um þessa till. í nefnd og þess vegna á þessari umr. að ljúka og atkvgr. að fara fram um þessa till. Ég tek mjög hressilega undir það, sem kom hér fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni, að ef nú á að fara að brjóta niður þetta samkomulag vegna þess að einn stjórnarþingmaður kemur hér upp og hefur uppi andmæli gegn till., þegar líka vitað er að samkomulag er um að afgreiða mál í kvöld á fundum deildanna, mjög mörg mál, en vissulega andmæli hjá ýmsum við þeim málum, það verða höfð uppi andmæli við mörg þeirra mála. Og ef þau mál eiga þá að takast snarlega út af dagskránni, mál eins og frv. um viðskiptabanka í Ed. eða um Framleiðsluráð landbúnaðarins, þá eru það alveg nýjar fréttir. Ef sú verður niðurstaðan að þessu máli eigi hér að ljúka vegna þess að einhver andmæli koma fram, enda þótt þetta sé samkomulagsmál, þá verðum við væntanlega að ganga út frá því í kvöld að öll önnur mál, sem ágreiningur er um í deildum, verði tekin út.