20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6991 í B-deild Alþingistíðinda. (6369)

156. mál, nýting ríkissjóðs á hluta af Seðlabankabyggingu

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Upphafleg till., 156. mál, flm. sá sem hér stendur og Jóhanna Sigurðardóttir, var um yfirtöku ríkissjóðs á Seðlabankabyggingunni undir Stjórnarráð Íslands þar sem Alþingi ályktaði að skora á ríkisstj. að láta ljúka þessari byggingu og yfirtaka bygginguna síðar undir Stjórnarráð Íslands.

Rökstuðning fyrir þessari ályktun er að finna í grg. m. a. með vísan til þess að stjórnarráðið býr við verulegan þröngan húsakost og ver á annað hundrað milljónum kr. í leigu víðs vegar um borgina undir sína starfsemi ásamt með öðrum rökum um það að þetta hús henti vel til starfsemi stjórnarráðsins og staðsetning þess sé líka mjög vel til þess fallin.

Ég lít svo á að þessi málamiðlunartillaga megi kannske skoðast sem spor í rétta átt þó hún lýsi ákveðinni og ótrúlegri lítilþægni Alþingis Íslendinga í viðskiptum við mandarína Seðlabankans. Og ég tek það fram að ég hef ákaflega litla trú á skörungsskap hæstv. viðskrh. til þess að halda á hlut ríkisins í samningum við mandarínana.

Hins vegar skil ég það mætavel af hverju skætingur hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, þegar hann gerði grein fyrir atkv. sínu hér áðan, stafar. Í upphaflegri till. var nefnilega gert ráð fyrir því að ef þessi ríkisstj. hefði einhvern tíma staðið við yfirlýsta stefnu sína í stjórnarsáttmála nr. 2 um að leggja niður Framkvæmdastofnun ríkisins, þar sem hv. þm. trónir sem stjórnarformaður, þá er ráð fyrir því gert að Seðlabankanum verði gefinn kostur á því að fá þar inni svo sem eins og á efstu hæð þess húsnæðis þegar skiptingin hefur farið fram. Sárindi hv. þm. eru skiljanleg. En afstaða mín til þessarar till. er að í ljósi þess að þetta sé kannske einhver svolítil viðleitni, þó að ég óttist að þetta sé kattarþvottur, þá segi ég að vísu já.