20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6999 í B-deild Alþingistíðinda. (6381)

531. mál, landvistarleyfi erlendra ríkisborgara

Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hvaða reglur gilda um veitingu landvistarleyfa hér á landi?

2. Í hve mörgum tilfellum á s. l. árum hafa umsækjendur fengið synjun um landvistarleyfi? Hvaða ástæður hafa legið að baki hverri og einni synjun og frá hvaða löndum hafa þeir umsækjendur um landvistarleyfi verið sem hafa fengið synjun?

3. Er tekið tillit til þess ef umsækjandi um landvistarleyfi á foreldra, systkini eða aðra nána ættingja hér á landi? Ef svo er, á hvaða hátt er það gert?

Svör við 1. lið:

Reglur um þetta efni er að finna í lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, og reglugerð um sama efni, nr. 148/1965, svo og í lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26/1982, og reglugerð um sama efni nr. 272/1983. Enn fremur skipta máli ákvæði Norðurlandasamnings frá 12. júlí 1957, um afnám vegabréfsskoðunar við landamæri milli Norðurlanda, sem Ísland er aðili að.

Meginreglan er sú að útlendingur, sem hingað kemur og dvelst, þarf að hafa gilt vegabréf og áritun í vegabréf þegar þess er krafist, svo og dvalarleyfi og atvinnuleyfi ef því er að skipta. Norðurlandabúar eru þó í meginatriðum undanþegnir reglum þessum.

Segja má að ekki séu annmarkar á því að úflendingar komi hingað til lands sem ferðamenn og að þeim sé veitt heimild til komu og dvalar, enda sé um eðlilegan tíma að ræða í því skyni.

Um heimild fyrir útlendinga almennt til dvalar hér á landi gildir að öðru leyti sem meginsjónarmið að ákvæði 10.–12. gr. laga um eftirlit með útlendingum eigi ekki við um hagi útlendingsins.

Um atvinnuleyfi, sem félagsmálaráðuneytið veitir, gildir það sem meginregla að atvinnuleyfis sé leitað áður en komið er til landsins og að þau eru að jafnaði ekki veitt útlendingum nema skortur sé á innlendu vinnuafli.

10.–12. gr. laga um eftirlit með útlendingum hljóða svo:

„(10. gr.)

Meina ber útlendingi landgöngu:

1. Ef hann fullnægir ekki þeim reglum, sem settar eru samkv. 1. gr. um ferðaskilríki og vegabréfsáritun, svo og samsvarandi reglum í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, ef hann ætlar að ferðast til þeirra landa.

2. Ef ætla má, að hann hafi eigi nægileg fjárráð sér til framfærslu hér á landi eða í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, ef hann ætlar að fara til þeirra landa, svo og til heimferðar.

3. Ef ætla má, að hann hafi í hyggju að ráða sig í vinnu hér á landi eða í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, án þess að hafa aflað sér leyfis til þess fyrirfram.

4. Ef ætla má, að hann muni vinna fyrir sér hér á landi, í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð á ólögmætan eða óheiðarlegan hátt.

5. Ef hann hefir verið dæmdur hér á landi eða erlendis í refsivist eða ætla má af öðrum ástæðum, að hann muni fremja refsiverðan verknað hér á landi eða í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.

6. Ef ætla má af fyrri hegðun hans eða af öðrum ástæðum, að tilgangur hans með komu hingað til lands eða til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar sé að fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða ólöglega upplýsingastarfsemi.

7. Ef honum hefir verið vísað héðan úr landi eða úr Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, og hann reynir að koma aftur án leyfis.

Heimilt er enn fremur að meina útlendingi landgöngu, ef nauðsynlegt er talið af öðrum ástæðum en þeim, er í 1. málsgr. segir.

Lögreglustjóri kveður upp úrskurð um synjun landgönguleyfis eins fljótt og unnt er eftir komu útlendings til landsins.

Nú ber útlendingur, að hann hafi orðið að leita sér hælis sem pólitískur flóttamaður, enda teljist framburður hans sennilegur, og má lögreglan þá eigi meina honum landgöngu. Leggja ber málið án tafar fyrir dómsmálaráðherra til úrskurðar.

Samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra má meina útlendingi landgöngu, ef ætla má af öðrum ástæðum en um ræðir í 1. málsgr., að hann sé kominn hingað til starfa eða athafna, sem eru ólöglegar, ósæmilegar eða hættulegar hagsmunum ríkis eða almennings, eða högum útlendingsins er að öðru leyti svo háttað, að vist hans hér á landi megi teljast hættuleg eða bagaleg hagsmunum ríkis eða almennings. Nú telur lögreglustjóri, að meina beri útlendingi landgöngu af ástæðum, sem raktar eru í þessari málsgr., og ber þá að leggja málið undir úrskurð ráðherra svo fljótt sem því verður við komið.

Dómsmálaráðherra getur sett sérstakar reglur um synjun landgönguleyfis fyrir laumufarþega.

(11. gr.)

Dómsmálaráðherra er heimilt að vísa útlendingi úr landi:

1. Ef meina hefði mátt útlendingnum landgöngu af ástæðum, sem raktar eru í 1. málsgr. 10. gr., og þær ástæður eru enn fyrir hendi.

2. Ef hann, af ásettu ráði eða þrátt fyrir aðvörun lögreglunnar, vanrækir ítrekað tilkynningarskyldu samkvæmt lögum þessum.

3. Ef hann brýtur gegn reglum um vegabréfsáritun, dvalarleyfi eða atvinnuleyfi eða skilyrðum, sem þau eru bundin. Sama gildir, ef hann hefir aflað sér leyfis með vísvitandi röngum upplýsingum eða með því að leyna í blekkingarskyni atvikum, er máli skipta.

4. Ef áframhaldandi dvöl hans hér á landi telst hættuleg hagsmunum ríkisins eða almennings, eða vist hans er óæskileg af öðrum ástæðum.

Nú er heimilt að vísa útlendingi úr landi, og getur dómsmálaráðherra þá, ef ástæður mæla með því, lagt fyrir hann að verða brott úr landi innan ákveðins frests, sem ráðherra tiltekur, enda sjái lögreglan um, að þeim fyrirmælum verði hlýtt.

(12. gr.)

Lögreglustjóra er heimilt að vísa útlendingi úr landi:

1. Ef hann hefir komizt inn í landið án þess að gefa sig fram við íslenzka, danska, finnska, norska eða sænska vegabréfaeftirlitið.

2. Ef honum hefir áður verið vísað héðan úr landi og hann er kominn til landsins aftur án tilskilins leyfis. Lögreglustjóri getur enn fremur vísað úr landi útlendingi, sem ekki er danskur, finnskur, norskur eða sænskur ríkisborgari, ef honum hefir áður verið vísað úr landi í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð og bannað að koma þangað aftur, en kemur til Íslands án þess að hafa fengið leyfi til komu þangað eða til þess eða þeirra landa, er að framan greinir.

Ef um er að ræða tilvik, er falla undir 4. málsgr. 10. gr., getur lögreglustjóri þó eigi vísað manni úr landi, en leggja ber þá málið undir úrskurð dómsmálaráðherra svo fljótt sem unnt er.“

Svar við 2. lið:

Eftirfarandi upplýsingar eru frá útlendingaeftirlitinu og ná yfir árin 1982–1985 (til 16. júní):

Synjað um landgöngu 1985.

Sextán sinnum var synjað um landgöngu 1985.

Orsök:

a. Tíu farþegar algjörlega peningalausir. Þjóðerni: einn Bandaríkjamaður, þrír Bretar, einn Ítali, einn Ástralíubúi, einn Nýsjálendingur, tveir Frakkar og einn Íri.

b. Þrír án áritunar. Þjóðerni: tveir Alsírbúar og einn Pólverji.

c. Þrír grunaðir um að ætla að brjóta fuglafriðunarlögin. Þjóðerni: tveir Þjóðverjar og einn Austurríkismaður.

Synjað um dvalarleyfi 1985.

Fjórum sinnum synjað um dvalarleyfi. Þjóðerni: einn frá Filippseyjum, einn frá Malasíu, einn Þjóðverji og einn Pólverji.

Brottvísun 1985.

Einum vísað brott og var hann ítalskur ríkisborgari.

Synjað um landgöngu 1984.

Sextán sinnum var synjað um landgöngu 1984, oftast vegna peningaleysis, þrír voru án áritunar, tveimur hafði verið vísað brott frá öðru norrænu ríki. Þjóðerni: tveir Júgóslavar, einn Suður-Kóreumaður, tveir Ísraelsmenn, tveir Írar, einn Bandaríkjamaður, tveir Bretar, einn Túnisbúi, tveir Alsírbúar, einn Tyrki, einn Indverji og einn Vestur-Þjóðverji.

Synjað um dvalarleyfi 1984.

Sextán sinnum var synjað um dvalarleyfi 1984. Þjóðerni: fimm Bretar, einn Bandaríkjamaður, tveir Filippseyingar, tveir Chilebúar, einn Alsírbúi, einn Pólverji, einn Spánverji, einn Þjóðverji, einn Jamaicabúi og einn Ítali.

Brottvísanir 1984.

Fimm var vísað brott 1984. Þjóðerni: einn Pakistani, einn Túnisbúi, einn Þjóðverji, einn Júgóslavi og einn Svíi.

Synjað um landgöngu 1983.

Tíu sinnum var synjað um landgöngu 1983 vegna peningaleysis, einn var án áritunar og einn án vegabréfs og einum synjað um landgöngu vegna tengsla við mann sem hafði verið vísað úr landi vegna fálkaþjófnaðar. Þjóðerni: tveir frá Marokkó, einn Júgóslavi, tveir Bretar, tveir Vestur-Þjóðverjar, tveir Hollendingar og einn Ítali.

Synjað um dvalarleyfi 1983.

Níu sinnum var synjað um dvalarleyfi 1983. Þjóðerni: fjórir Hollendingar, einn Ástralíubúi einn Egypti, einn Írani, einn Nýsjálendingur og einn Breti.

Brottvísun 1983.

Tveimur var vísað brott 1983. Þjóðerni: einn Bandaríkjamaður og einn Breti.

Synjað um landgöngu 1982.

Tíu sinnum var synjað um landgöngu 1982, fjórir voru án peninga, tveir án áritana, tveimur hafði verið vísað brott frá öðru norrænu ríki, einn með útrunnið vegabréf, hjá einum gilti vegabréfið ekki til Íslands.

Synjað um dvalarleyfi 1982.

Fjörutíu var synjað um dvalarleyfi 1982, af 19 þjóðernum, flestir þó frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Ísrael og Alsír.

Brottvísun 1982.

Fjórum var vísað brott 1982. Þjóðerni: tveir Belgar, einn Vestur-Þjóðverji og einn Ísraelsmaður.

Á árunum 1980–1981 var vísað brott ellefu útlendingum.

Svar við 3. lið:

Þegar útlendingur, sem á foreldra, systkini eða aðra nána ættingja hér á landi, sækir um vegabréfsáritun eða dvalarleyfi er ætíð leitast við að taka eins mikið tillit til slíkra tengsla og unnt er. Í langflestum tilfellum eru slík leyfi veitt, eins og hundruð dæma sanna.

Í nokkrum undantekningartilfellum hefur fólki, sem á hér ættingja eða venslafólk, verið synjað um leyfi til að koma til landsins eða verið synjað um áframhaldandi dvöl hér á landi eftir að það hefur verið komið hingað. Hafa þá verið gefnar upp rangar eða villandi upplýsingar um það sem fyrir þeim vakir sem um slík leyfi sækja eða að vísvitandi hefur verið reynt að nýta sér slík tengsl á óeðlilegan hátt.

Þá má geta þess að gerður er nokkur munur á meðhöndlun umsókna eftir því hvort um er að ræða umsókn um leyfi til að koma hingað í stutta heimsókn til ættingja eða hvort sótt er um leyfi hér á landi til langtímadvalar.

Í öllum tilfellum á útlendingur, sem á hér á landi fjölskyldu, auðveldara með að fá hér dvalarleyfi en aðrir. Samt sem áður verður að gera þá kröfu að farið sé að lögum þegar sótt er um leyfi fyrir það fólk sem hefur hér á landi slík tengsl.