20.06.1985
Efri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7003 í B-deild Alþingistíðinda. (6382)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég fór að hugleiða það undir löngum ræðum hér í gærkvöldi hvort það mundi nokkuð skaða að þeim yrði svolítið fjölgað og þeir sem ekki tóku þátt í I . og 2. umr. tækju kannske að einhverju leyti þátt í umr. við 3. umr. Ein af þeim réttlætingum, sem ég heyrði í sambandi við langar ræður hér á kvöldfundi, var sú að menn hefðu ekki tekið þátt í 1. umr. þessa máls og þess vegna væri eðlilegt að spjallað væri svolítið um málið við 3. umr.

En það sem fyrst og fremst kom mér þó til þess að kveðja mér hljóðs nú við 3. umr. var það að í NT í dag birtist grein eftir bændahöfðingjann Guðmund P. Valgeirsson, Bæ, Árneshreppi á Ströndum, þar sem hann fer nokkrum orðum um það frv. sem hér á að fara að ganga frá og gera að lögum. Ég held að það væri vel þess vert að meginhluti þessarar greinar yrði fluttur hér í þingsölum og fengi að koma í þingtíðindum til áminningar, ekki síst fyrir framsóknarmenn og þá menn sem byggðu upp markaðskerfi landbúnaðarins á fyrri tugum þessarar aldar og sjá nú að mörgu leyti það kerfi hrynja í höndunum á sínum eigin mönnum. Ég vil leyfa mér, með leyfi virðulegs forseta, að lesa hér meginhluta þessarar greinar. Hún er svohljóðandi:

„Frumvarp til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem nú liggur fyrir Alþingi, var sent mér og öðrum bændum fyrir skömmu. Undanfarna daga hef ég verið að stafa mig fram úr því. Heldur gengur lesturinn seint og mér illa að skilja þá lesningu. Svipaða sögu er að segja af öðrum sem ég hef spurnir af og hafa verið að reyna það sama og ég. Við það létti mér nokkuð því að ég hélt einungis að um væri að kenna sljóum skilningi mínum hvernig til gekk.

Við þennan lestur minn hef ég helst komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem setið hafa við að semja þessa lagasmíði hafi af ráðnum hug gert þau svo úr garði að enginn vissi upp né niður um hvað væri að gerast með þessum lagabálki og þeir sem ættu að vinna eftir honum gætu gert það á ýmsa vegu eftir því sem sýndist og þeir hefðu vilja til.

Þó eru nokkur atriði sem verða manni skiljanleg. Augljóst er að bændur og aðrir framleiðendur eiga ekki að fara með málefni sín á sama hátt og verið hefur. Það félagskerfi, sem þeir hafa byggt upp um málefni sín og framleiðslu með félagslegum hætti, er rifið til grunna. Þar stendur ekki steinn yfir steini. Í fljótu bragði er ekki annað séð en að heimaslátrun verði tekin upp að nýju og hver fari með sinn skrokk á neytendamarkað og bjóði hann falan fyrir það verð sem um semst í það og það skiptið líkt og sumir kartöflubændur hafa farið að með sína framleiðslu og þykir til fyrirmyndar og í frjálsræðisátt. Og í raun og veru virðist verslun og viðskipti með landbúnaðarvörur færð í vargakjafta markaðshyggjunnar.

Verði þetta frv. að lögum, sem fyllilega má gera ráð fyrir þar sem það er byggt á samningum stjórnarflokkanna, má segja að allt vald, sem verið hefur í höndum kjörinna fulltrúa bændasamtakanna, sé tekið úr þeirra höndum og fært undir landbrh. Varla er að finna þá lagagrein eða lagakafla að þar blasi ekki við aftur og aftur: „Ráðherra er heimilt“ og „ráðherra skal“, þannig að allt frumkvæði og vald skal vera hjá ráðh. í smáu og stóru. Aðrir eru og verða eins og peð sem hann getur skákað fram og aftur og hvatt til þessa og hins ef honum sýnist svo.“

Hér mun ég fella smávegis úr grein Guðmundar þar sem hann beinir orðum sínum til ákveðinna aðila sem ég tel ástæðulaust að fella inn í þennan upplestur. En áfram svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar manni verður hugsað til sumra þeirra manna, sem að þessari lagagerð standa, þá koma fram í hugann þessi orð: „Og þú? barnið mitt Brútus“ — En því allar þessar umbúðir utan um þennan tilgang? Því ekki að stytta þetta margorða frv. til stórra muna og láta það hljóða svo í einni stuttri mgr.: Landbrh. er falið alræðisvald um öll mál er íslenskan landbúnað varða. Hann skal skipa fyrir um dreifingu og sölu landbúnaðarvara að svo miklu leyti sem þau eru ekki í höndum kaupsýslu- og markaðshyggjumanna.

Með þeirri einföldun ynnist margt. Bændur væru þá ekki til trafala með þvarg sitt. Það kæmi líka í veg fyrir óþarfa nefndir og ráð. Það kæmi í veg fyrir að kalla þyrfti saman hópa málfræðinga, lögfræðinga og annarra sérfræðinga til að skera úr um hvernig bæri að skilja þessa og hina máls- og lagagreinina sem annars kynni að vefjast fyrir mörgum þó að lærðir væru. Og ólíkt hefði verið fyrir fulltrúa Stéttarsambands bænda að átta sig á frv. í því formi á þeirri dagsstund, sem þeim var gefin til að setja sig inn í það og áttu að skila að kvöldi rökstuddri álitsgerð um það sem fyrir þá var lagt því ekki nutu allir þeirra forréttinda að hafa fengið að kynna sér það fyrir Landsfund Sjálfstfl. og komu því sumir eins og af fjöllum. Sá aðstöðumunur skýrir vel þær fréttir sem borist hafa af fundum sem haldnir hafa verið úti um land um þetta lagafrv. Þær fregnir herma að margir sjálfstæðismenn, sem framarlega standa í flokki sínum, hafi setið hljóðir undir þeim umr. og leitt hjá sér að greiða atkvæði um þær tillögur sem þar voru bornar fram, enda ástæðulaust fyrir þá suma hverja að greiða aftur atkvæði um málið. Þó gæti hugsast að einhverjir fleiri úr þeim flokki kynnu að hafa ruglast eitthvað í ríminu og fatast um hugsjón sjálfstæðisstefnunnar í þessu máli og ástæða væri fyrir fréttamann sjónvarpsins að veita föðurlegar áminningar og leiðréttingu skoðana sinna til að koma í veg fyrir misstigin spor

Mér sýnist að með þessu frv., eins og það er, þá sé ekki einungis verið að staðfesta þann dóm Jónasar Kristjánssonar að bændur séu annars flokks fólk og skuli meðhöndlast skv. því mati, heldur engu að síður hitt: Að bændur séu dauðadæmd hjörð á „blóðvelli þjóðfélagsins“ og þeim hafi verið kveðinn upp sá dómur að leggja snöruna að eigin hálsi.

Það eina, sem kann að réttlæta samþykkt þessa frv. nú, er óttinn við næstu ríkisstj., samstjórn íhalds og krata. Þá er eins víst og að nótt fylgir degi að í enn ríkara mæli verður níðst á kjörum bænda og félagsstarfsemi þeirra en þó er gert með þessu frv. Undir þeim þrýstingi mun það líka hafa verið samið.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta var höfuðatriðið úr grein Guðmundar P. Valgeirssonar, eins af þeim bændahöfðingjum sem byggt hefur upp og staðið í forustu fyrir félagsstarfsemi í einu afskekktasta byggðarlagi landsins og með samvinnu og sameiginlegu átaki byggðarinnar gert þar kraftaverk, haft forustu um það að bændur þar kæmu upp votheysverkun til þess að sigrast á náttúruerfiðleikunum og hafa verið leiðandi aðilar á þeim vettvangi. Þeir hafa einnig skipulagt ræktun fjárstofnsins í þeirri byggð og er nú svo komið að þar munu vera bestar afurðir á öllu landinu af sauðfé. Þessi höfðingi sendir nú flokksbræðrum sínum þessa kveðju á þeim degi þegar á að fara að ganga frá samþykkt á hinum nýju framleiðsluráðslögum. Mér fannst vel þess vert að sjá til þess að þessi varnaðarorð kæmust hér inn á hv. Alþingi.

En ég tel einnig nauðsynlegt að nú við lok þessarar umr. komi fram að á fund okkar þm. Vesturl. komu nú fyrir nokkrum dögum forustumenn búnaðarsamtaka á Vesturlandi. Það voru formenn Búnaðar- og ræktunarsambands Borgarfjarðar og sambandsins í Dalasýslu og snæfellsnessýslu. Einn þessara manna skipaði framboðslista Framsfl. á Vesturlandi í síðustu kosningum. Þeir komu með 10 punkta sem þeir báðu okkur þm. Vesturl. að vinna að í sambandi við breytingar á framleiðsluráðsfrv. en aðallega óskuðu þeir þó eftir því að þessu máli yrði frestað og það ekki afgreitt á þessu þingi.

Mér sýnist við fljótan yfirlestur frv., eins og það liggur nú hér til afgreiðslu, að aðeins einn af þessum 10 punktum hafi verið tekinn til greina næstum því að fullu, aðrir ekki. Sumir að litlum hluta. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi virðulegs forseta, að lesa þessar óskir þessara forustumanna búnaðarsamtakanna á Vesturlandi. Þeir komu á fund okkar þm. eftir að þeir höfðu rætt við Landbn. Nd. Alþingis og áhersluatriði í viðræðu við nefndina voru þessi:

„1. Lögð er áhersla á að teknar verði til greina brtt. Stéttarsambands bænda skv. bréfi til nefndarinnar.

2. Mótmælt er færslu og ákvörðunarvaldi í málefnum bænda frá Stéttarsambandi bænda og Framleiðsluráði til landbrn. og nefndar sem ekki eiga að vinna í samráði við samtök bænda.

3. Gerð er krafa til að landinu verði skipt í mjólkursölusvæði af Framleiðsluráði og að heimilt sé að verðmiðla sjálfstætt innan samsölusvæða.

4. Gerð er krafa til að Framleiðsluráð veiti sláturleyfi og leyfi til heildverslunar með kjöt, svo sem verið hefur, og ákveði það hvaða sláturleyfishafar verki kjöt til útflutnings.“

Og þá kemur sá punkturinn sem frekast hefur verið tekinn til greina:

„5. Rýmkaðar verði heimildir til verðtilfærslu og verðmiðlunar á mjólk og mjólkurvörum.

6. Tryggt verði í lögum fjármagn til að greiða bændum andvirði innlagðra vara jafnóðum og þær koma til innleggs.

7. Allir landsmenn búi við sama verðlag á mjólk og mjólkurvörum og smásöluálagning verði ákveðin sú sama á þessum vörum hvar sem er á landinu og alls ekki felld niður.

8. Stjórn búvöruframleiðslunnar nái til allra kjöttegunda og samningsréttur ráðh. skv. 30. gr. verði afdráttarlaus og skylt að semja sé þess kostur og hann nái til flestra búvörutegunda.

9. Útflutningsbótarétturinn tengist nauðsynlegum útflutningi sé hans þörf. Rétturinn verði ekki þrengdur með takmarkandi reiknireglum. Upptalning afurða verði gerð eins ljós og unnt er.

10. Stuðningur við nýjar búgreinar verði aukinn og uppbyggingu þeirra flýtt svo að þær gefi tekjur áður en samdráttur í kindakjöti og mjólkurframleiðslu verði meiri en orðinn er nú þegar.“

Þetta voru óskir forustumanna búnaðarsamtakanna og forustumanna bænda á Vesturlandi. Eins og ég segi hefur aðeins einn þátturinn verið tekinn til greina. En samt á að samþykkja þetta frv. og það liggur beint fyrir að það verði samþykkt hér eftir stutta stund. Ég held að hér sé verið að rasa um ráð fram. Það hefði átt að bíða með þetta mál, kanna það í sumar, ræða það við bændur og bændasamtök og leggja það svo fram til skoðunar og afgreiðslu á haustþingi. Það hefði ekki aðeins átt að ræða það við bændur og bændasamtök heldur hefði átt að leita eftir allsherjar pólitískri samstöðu. Þessu máli hefði verið vísað til þingflokkanna og félagssamtaka bænda í sumar og síðan lagt fyrir þing að hausti.