20.06.1985
Efri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7007 í B-deild Alþingistíðinda. (6392)

537. mál, áfengismál

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Á Alþingi í gær eða líklega — ef maður ætlar að vera hárnákvæmur — í dag — því að það mun hafa gerst eftir miðnætti — var fellt frv. til l. um að heimila skuli framleiðslu og sölu áfengs öls. Einnig var felld till. um að slíku máli yrði skotið til þjóðaratkvæðis og þar með, eins og einhver góður maður komst að orði, er bjórmálið úr sögunni.

Eftir þá afgreiðslu sem bjórmálið fékk — ég vil leyfa mér að kalla það það hér í minni framsögu — tel ég nauðsynlegt að fram komi enn skýrar en nú er stefna og afstaða Alþingis í áfengismálum. Til þess að þessa stefnu og þessa afstöðu megi skýra til fullnustu hef ég leyft mér, herra forseti, að flytja á þskj. 1380 frv. til l. um áfengismál. 1. gr. þessa frv. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Óheimilt er þrátt fyrir ákvæði annarra laga að blanda saman óáfengu öli og áfengum drykkjum til sölu á veitingastöðum. Einnig er óheimilt þrátt fyrir ákvæði annarra laga að flytja með sér áfengt öl inn í landið.“

2. gr. frv. hljóðar svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Í stuttri grg. sem þessu frv. fylgir segir flm.: „Eðlilegt hlýtur að teljast að bjórlíki verði ekki á boðstólum á veitingastöðum frekar en áfengt öl. Einnig hlýtur það að vera sjálfsögð afstaða löggjafans að mönnum verði ekki mismunað með þeim hætti að sumum leyfist að kaupa áfengt öl og flytja með sér inn í landið til neyslu en öðrum ekki þar eð landsmenn geta ekki allir jafnt notað eða hafnað þeirri heimild. Hlýtur þetta frv. því, ef samræmi er í afstöðu þingsins, að hljóta skjóta afgreiðslu og samþykki því að ekki mun þingið vilja stuðla að tvískinnungi í þessum málum frekar en öðrum.“

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi framsögu minnar tel ég eftir þá afgreiðslu sem bjórmálið fékk að Íslendingar búi enn sem fyrr við afar óljósa stefnu stjórnvalda í áfengismálum, að ég tali nú ekki um augljósa stefnu stjórnmálaflokka og það sem kannske mestu máli skiptir, að hér ríkir í dag tvískinnungur í áfengismálum sem ég tel vera siðferðilega óverjandi.

Menn hafa um margra ára skeið búið við þá augljósu misjöfnun þegna að þeim, sem annaðhvort starfs síns vegna eða efna sinna vegna eiga þess kost að ferðast milli landa, er heimilt að flytja með sér inn í landið ákveðið magn af áfengi. Það væri e. t. v. ekki tiltökumál ef hér væri eingöngu um það áfengi að ræða sem selt er í áfengisverslunum ríkisins. En núna um nokkurra ára skeið hefur það líka viðgengist að í stað þess að taka þann leyfilega hluta áfengis sem taka má með sér inn í landið, með því að sleppa ákveðnum hluta þess, hefur þeim liðist að taka með sér áfengt öl.

Menn hefur greint á um það hvort hér sé um lagabrot að ræða eða ekki og ráðherrar eða Alþingi hafa ekki viljað taka af tvímæli í þessu máli. Eftir að þessi heimild komst á hafa þær raddir orðið háværari sem krafist hafa að úr því að sumum leyfist að flytja inn hér áfengt öl til landsins hljóti og sé eðlilegt að heimila sölu áfengs öls í verslunum Áfengisverslunar ríkisins og þá náttúrlega um leið framleiðslu. Annaðhvort er öllum óheimilt að kaupa og neyta áfengs öls hér á landi ef það á að vera stefna stjórnvalda eða öllum heimilt.

Nú er Alþingi búið að úrskurða það að mönnum skuli ekki vera heimilt að framleiða eða selja áfengt öl í Áfengisverslun ríkisins eða annars staðar. Ég leyfi mér að skilja þessa afstöðu þingsins þannig að þar með hljóti hún líka að banna ferðamönnum og farmönnum að flytja með sér áfengt öl inn í landið. Það hefur aftur á móti ekki komið skýrt fram. Þingið hefur ekki tekið skýra afstöðu til þessa atriðis og þess vegna þetta frv., að óheimilt sé þrátt fyrir ákvæði annarra laga að flytja með sér áfengt öl inn í landið. Þetta er um seinni mgr. 1. gr. þessara laga.

Fyrri mgr., um að óheimilt sé að blanda saman óáfengu öli og áfengum drykkjum til sölu á veitingastöðum, kann e. t. v. að vera öllu óljósari. Þó held ég að ef maður byrjar aftan á hlutunum í útskýringum á þessari grein hljóti menn að samsinna flm. Ef til sölu væri á veitingastöðum áfengt öl, sterkt öl — og þá á ég við öl sem er með prósentu einhvers staðar um 4–5% eða jafnvel þaðan af sterkara — þá held ég að allir menn geti orðið sammála um að aldrei mundi nokkrum manni detta í hug að fara að hella áfengum drykk eins og whisky út í Egilspilsner eða Sanitas — svo að menn séu ekki hér að auglýsa eina framleiðsluna frekar en aðra. En þetta gera menn hér og þeir gera það mikið til vegna þess að þetta kemur að einhverju leyti í hugum manna í stað þess áfenga öls sem allavega suma, þó ekki alla, langar til að eiga möguleika á að neyta. En ef hægt er að draga þetta samasemmerki milli bjórlíkis, sem þessi drykkur er almennt kallaður þar sem blandað er saman óáfengu öli og öðrum áfengum drykkjum, og áfengs öls og ef Alþingi er búið að taka þá afstöðu að áfengt öl skuli ekki framleiða og ekki selja hér á landi, þá tel ég eðlilegt að banna framleiðslu þessa drykks og sölu á veitingastöðum.

Það kemur einnig til að menn hefur greint á um það ákvæði núgildandi áfengislaga sem ætti að taka af allan vafa í þessu atriði og ráðh. hefur ekki treyst sér til þess að túlka það ákvæði þannig að þessi framreiðsla á drykkjum sé óheimil.

Það má til sanns vegar færa að menn blanda saman sterkum drykkjum og alls kyns öðrum drykkjum, gosdrykkjum, vatni og hvað sem menn geta látið sér detta í hug og þar eð íslenskt öl er ekki áfengt geta menn haldið því fram að það sé ekkert óeðlilegt að blanda því saman við aðra áfenga drykki eins og mörgum öðrum blöndunarvökvum. En það er þó reyndar einn reginmunur á og flestallir, sem nokkurt skyn bera á áfengislöggjöfina eða telja sig bera skyn á hana, halda því fram að stjórnvöld horfi vísvitandi framhjá þessum mun. Hann er sá að þegar menn blanda saman sterkum drykkjum og óáfengum drykkjum þá gerist það annaðhvort fyrir eigin hendi eða af hendi þess sem framleiðir drykkinn beint fyrir framan augu þess sem neyta á drykkjarins. Blöndunin á sér stað um leið og neyslan fer fram.

En þegar framleiddur er þessi görótti drykkur, sem kallast bjórlíki, þá er drykkurinn þegar blandaður löngu áður en hann er framreiddur. Þar af leiðandi hefur viðskiptavinurinn ekki nokkra möguleika á því að fylgjast með því hvernig þessi drykkur verður til, þ. e. hvaða drykkjum hann samanstendur af. En öll önnur framleiðsla áfengra drykkja blandaðra á veitingastöðum gefur viðskiptavinunum kost á því að fylgjast með því hvernig drykkurinn verður til. Ég er þess meðvitaður, þekki það, að viðskiptavinurinn hefur líklega sjaldnast nokkurn áhuga á því hvernig drykkurinn verður til og horfir sjaldnast á það. En hann hefur möguleikana á því. Hann hefur það ekki þegar hann neytir þessa drykkjar.

Menn hafa samt sem áður ekki talið núgildandi áfengislöggjöf nægilega afdráttarlausa til að koma í veg fyrir blöndun og sölu þessa drykkjar. Allir menn þekkja þá að mörgu leyti skrýtnu og nýstárlegu, forvitnilegu þróun sem hefur orðið í veitingahúsamenningu í Reykjavík sérstaklega og núna á s. l. ári líka úti á landi, þar sem hafa risið upp veitingastaðir í líkingu við þá veitingastaði sem maður þekkir í öðrum löndum og við gjarnan köllum bjórkrár.

Þetta frv. varð til í þó nokkurri skyndingu eftir að afgreiðslu Nd. á frv. um bjórinn, eins og kallað er, lauk í gær. Þetta frv. er flutt í fullri alvöru. Ég vil taka það fram hér vegna þess að það hefur komið fram hjá nokkrum viðmælendum mínum að þeim finnst eins og hér sé einhver kerskni eða stráksháttur á ferðinni. En mér er full alvara með flutningi þessa frv. hvað það varðar að fá fram afdráttarlausan vilja löggjafans í áfengismálum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að litlar líkur eru á því að þetta frv. hljóti, eins og segir í grg., skjóta afgreiðslu og samþykki á þessu þingi. Ég mun því flytja þetta frv. aftur á næsta þingi, eða í haust. Ég á von á því að þá verði flutt frv. til l. um framleiðslu og sölu á áfengu öli og ég mun þá leggja þetta frv. fram samtímis. Slíkt frv. kemur fram til þess að Alþingi eigi kosti á því að velja á milli þess að banna algerlega neyslu öls hér á landi eða nokkurs þess drykkjar sem því líkist eða að heimila það, því að varla trúi ég því að Alþingi fari að hafna báðum kostunum.