20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7026 í B-deild Alþingistíðinda. (6414)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Ég held nú að í sambandi við lokaorð hæstv. ráðh. sé það sannleikurinn að hvorki forseti né ráðherrar beri neina ábyrgð á því hvernig þm. bera fram sín frv. eða um hvaða efni það verður. Þm. hafa sinn rétt sem slíkir til að bera fram sín frumvörp og þurfa reyndar hvorki að spyrja ráðh. né forseta að því. Og ég held að það sé meginkjarninn í þessu að það hefur verið gert. En ýmsir hv. þm. hafa tekið sig fram um að bera fram frumvörp sem þeir bera fyrir brjósti og ég finn ekki að það sé neitt við það að athuga, hvað svo sem líður efni þessara frumvarpa eða hvað hver og einn kann að álíta um efni og persónulega afstöðu sína til þeirra frumvarpa sem fram koma.

En hér eru enn allmargir á mælendaskrá um þingsköp og nú er komið fram yfir þann tíma sem til stóð að fundur stæði. Ég leyfi mér nú að fara fram á að hv. þdm., sem koma til með að hafa orðið, tali mjög stutt og knappt og haldi sig sem mest að því að ræða um þingsköpin.