20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7027 í B-deild Alþingistíðinda. (6419)

Um þingsköp

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við hæstv. forseta um úrskurð hans varðandi uppprentun þskj. Ég hef mínar skoðanir á því, en ræði það ekki hér frekar. Forseti hefur kveðið upp sinn úrskurð.

Það hefur verið greint hér frá því um hvað var samið varðandi afgreiðslu mála hér í dag. Ég staðfesti að samið var um það að mál 1, 3 og 4 skyldu hafa forgang og hin málin, sem á dagskránni eru, skyldu verða rædd ef tími yrði til.

Hæstv. félmrh. sagði í sinni ræðu: Að sjálfsögðu hafa orðið hér mistök. Ég tek undir þau orð. Það urðu hér mistök, en ekki endilega þau að byrjað var að ræða 10. málið á dagskránni sem mér skilst að hafi verið rætt. Það voru í sjálfu sér ekki mistök fyrst tími var til. En mistökin eru þau hjá hæstv. starfandi forseta að láta ljúka umr. Það tel ég að hafi verið mistök. Honum var fullkunnugt um að málsvarar Sjálfstfl. í húsnæðismálum voru ekki í þingsalnum og þess vegna var ekki rétt að ljúka þessari umr.

Ég tel að úr því sem komið er verði ekki við annað unað en hér fari fram umr. um húsnæðismál og það getum við gert síðar í kvöld eða í nótt eftir atvikum þegar við höfum lokið afgreiðslu þeirra forgangsmála sem við höfum um samið. Þá skulum við taka til við að ræða húsnæðismál og það getum við gert með því að ræða 9. mál á dagskrá.