20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7031 í B-deild Alþingistíðinda. (6439)

493. mál, sparisjóðir

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft þetta mál til athugunar, að vísu í skamman tíma, formlega a. m. k. Menn hafa séð þetta frv. áður og þessi bankafrv. en tími okkar hefur reynst naumur. Þó höfðum við á fundi í morgun með okkur Björn Líndal sem mikið hefur unnið á vegum viðskrn. að samningu þessara frv. N. varð sammála um að mæla með samþykkt frv., sumir að vísu með fyrirvörum.

Ég hygg að þarna sé um mál að ræða sem sé mjög brýnt að gangi fram á þessum kvöldfundi. Það leikur ekki á tveim tungum að sparisjóðir berjast í bökkum í samkeppni við valdastofnanirnar, stóru bankana svokölluðu, þá sem aðgang hafa að ótakmörkuðu erlendu fé sem að vísu er kallað íslenskt þegar því er veitt út til atvinnuveganna. Við fengum upplýsingar um starfshætti viðskiptabankanna líka. Ég ætla ekki að fara út í langa umr. um peningamálin á þessum kvöldfundi, ég hef gert það svo oft áður. En þetta mál er áreiðanlega mjög brýnt að fram gangi. Ég held að allir hv. þdm. hljóti að verða sammála um að stuðla að því að einmitt á þessum kvöldfundi verði þetta mál afgreitt fyrst allra.