20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7033 í B-deild Alþingistíðinda. (6445)

423. mál, viðskiptabankar

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. vegna frv. um viðskiptabanka. Það verður að segjast eins og um önnur mál sem hér hafa verið rædd að það fékkst skammur tími hjá þessari n. eins og öðrum til að fjalla um þetta mikilvæga mál. Hér verður því ekki höfð ítarleg framsaga fyrir því á nokkurn hátt. En meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþ. eins og það kom frá Nd. s. l. nótt og einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Endurskoðun á bankamálunum hefur staðið alllengi yfir. Það kemur fram hér í grg. að þetta er búið að vera a. m. k. í 12 ár meira og minna í endurskoðun. Það er ekki óeðlilegt að slíkt sé gert eftir langan starfstíma flestra bankanna. Það er ýmis nýbreytni í þessu sem ég tel að verði til bóta þegar það er komið í framkvæmd. Sjálfsagt má finna að öðrum liðum sem kannske eru ekki eins æskilegir. En þegar á heildina er litið held ég að þetta frv. sé til bóta og hægt verði að hafa markvissari stefnu og stjórnun þessara stofnana en verið hefur gagnvart löggjafanum.

Þegar hv. 3. þm. Norðurl. v. ræddi hér um frv. til l. um sparisjóði áðan sagði hann að vextirnir yrðu gefnir frjálsir í frv. um viðskiptabankana. Það er rétt að vissu marki. Um nokkurt skeið hefur Seðlabankinn ákveðið hluta vaxtanna eins og aðallánavexti og vexti af almennum sparisjóðsbókum. En það hefur hins vegar verið sett í vald bankastjórna og bankaráða hvaða vexti þau ákvæðu af öðrum viðskiptum og í þeim málum hefur ekki verið haft samráð á milli bankanna. Þann skamma reynslutíma sem þetta fyrirkomulag hefur verið tel ég ekki að orðið hafi röskun á milli þessara bankastofnana sem neinu nemur. Þær hafa farið hóflega í sakir andstætt því sem við hefði mátt búast. En þetta mál, eins og önnur, þarf að þróast. Menn geta haft sínar skoðanir á vöxtum og hvernig þeim skuli hagað. Þarna er gefið visst frelsi, það er rétt, og ég tel það vera til bóta heldur en hitt, að það sé verið að fjarstýra því öllu saman úr Seðlabanka sem tekur sér oft og tíðum of mikið miðstýringarvald í þeim efnum.

Fylgifrv. með þessu, sem þyrfti að vera hér með en búið er að boða að muni koma í haust, er frv. um Seðlabanka Íslands. Það er ekki með í þeim bankalagapakka sem hér er á ferðinni. Það er eðlilegt að því leyti að það eru miklu yngri lög sem um hann gilda, það er ný stofnun. Það þarf því fyrst að ganga frá þessum málum og miða aftur Seðlabankann út frá viðskiptabankalöggjöfinni en ekki öfugt. Það er mín skoðun. En um það eru ekki allir sammála.

Hæstv. viðskrh. er nú ekki hér í salnum og ekki í þinghúsinu, en ég vildi að hann athugaði og tæki til greina skv. reglugerð það sem ég hnýt um hér, þ. e. 36. gr. þar sem rætt er um eigið fé bankanna. Ég held að það geti valdið töluverðum misskilningi þegar rætt er um þá hluti að skv. frv. er það ekki talið til eigin fjár bankanna, að mér skilst, það sem þeir eiga t. d. bundið í afurðalánum og geta auðvitað samið um við sparisjóðina. Það er ekki talið sem eigið fé þó að þeir séu aðeins endurlánaaðili um ákveðinn tíma í þessari lánastarfsemi. Sömuleiðis eru þau erlendu lán, sem þeir lána öðrum aðilum og eru vel tryggð, dregin frá, að mér skilst, í þessu frv. Þau teljast ekki til eigin fjár bankanna sem þó er miðað við þegar talað er um þær fasteignir og annað í starfsemi þessara stofnana sem er gert upp eftir. Þetta er atriði sem þarf að skýrast betur. Ég geri ekki ráð fyrir að þetta sé meining löggjafans, heldur er þetta atriði sem getur hæglega verið inni í reglugerð. Ég vil að þetta komi hér fram þannig að það sé á það litið þegar að þeirri smíð kemur.

Ég ætla ekki að svo stöddu að fara hér ofan í einstaka liði í þessu. Ég læt þetta nægja að sinni og ítreka það aðeins, sem ég sagði um nefndina, að þetta er álit meiri hl. fjh.- og viðskn. sem er þó með fyrirvörum ýmissa aðila í nefndinni, a. m. k. tveggja, þeirra Eiðs Guðnasonar og Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur.