20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7043 í B-deild Alþingistíðinda. (6452)

423. mál, viðskiptabankar

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að segja hér örfá orð og óskaði eftir því í ræðustól að hv. 8. þm. Reykv. væri í salnum. Hann var hér í ræðustól áðan og fjallaði um bankalagafrv. sem við hér ræðum um, en dvaldi þar stutt við og fór svo út í aðra sálma. Því get ég ekki setið undir án þess að mótmæla. Ég hef setið í bankaráði eins bankans, Útvegsbankans, í tæp þrjú ár. Það var fullyrt af hv. þm. að stjórnmálaflokkarnir kysu í bankaráðin sína flokkshesta, eins og hann orðaði það, til þess t. d. að tryggja það að útgáfustarfsemi hinna pólitísku flokka væri í lagi og framkvæmdu þetta á ýmsan veg. Þetta eru dylgjur, hv. þm., sem ég mótmæli algerlega fyrir hönd bankaráðs Útvegsbankans og ég veit að ég má gera það fyrir hönd annarra bankaráða. Slíkt hefur ekki þekkst þar.

Eins og hv. 5. landsk. þm. gat um áðan hleypur hv. 8. þm. Reykv. upp með mál sem hefur verið í blöðum undanfarið um viðskipti Hafskips og Útvegsbankans. Það ætla ég ekki að ræða úr þessum ræðustól en aðeins að segja honum að hann ætti ekki flíka þeim málum á þann veg sem hann hefur gert því að það er ekki fótur fyrir þeim skrifum.