20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7044 í B-deild Alþingistíðinda. (6453)

423. mál, viðskiptabankar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna þeirra orða sem hér hafa fallið í tilefni þeirra ummæla sem ég hafði um viðskipti Útvegsbankans og fyrirtækisins Hafskips hf. Ég kannast ekki við það að hafa vitnað í dagblöð hér. Ég vitnaði einfaldlega í reikninga þessa félags sem framlagðir voru á aðalfundi þess fyrir rúmri viku síðan. Þar getur hver maður fengið að lesa hver staða þessa fyrirtækis er. Hann getur líka fengið að lesa það að endurskoðandi þessara reikninga sá ástæðu til að gera sérstaka athugasemd við reikningana og benda hluthöfum á hver þessi hæpna staða fyrirtækisins væri.

Ég tel að það sé óyggjandi hægt að fullyrða það að fyrirtæki eins og Hafskip, sem hugsanlega er allra góðra gjalda vert, fyrirtæki sem stofnað er til af mikilli bjartsýni, fyrirtæki sem ætlað er að veita ákveðna samkeppni og aukna þjónustu hér á landi, fyrirtæki sem trúlega hittir fyrir sér ofjarl sinn í því óskabarni þjóðarinnar sem Eimskipafélagið er og verður trúlega að lúta í lægra haldi í samkeppninni endanlega, hefði aldrei fengið fyrirgreiðslu í Útvegsbankanum ef það hefði ekki notið pólitískrar velvildar. Ég nefni þar til sögunnar einn mann sem því miður er ekki staddur hér núna og ég vil því ekki ræða afskipti hans af þessu máli frekar. Ég á við núv. hæstv. fjmrh. sem verið hefur stjórnarformaður þessa fyrirtækis samtímis því að vera formaður bankaráðs Útvegsbankans og stjórnaði hluthafafundi síðast fyrir rúmri viku síðan. Bara það eitt að þessi maður skuli gegna þessum mörgu störfum gefur manni tilefni til grunsemda. Það eitt nægir. Opinberir starfsmenn, hvort sem þeir eru ráðnir eða kjörnir, eiga og mega aldrei gefa tilefni til grunsemda sem þessara. Meðan þessu verður ekki breytt eru þessar grunsemdir réttlætanlegar og eðlilegar.

Ég hefði, hv. 3. þm. Vesturl., getað viðhaft hér miklu stærri orð í sambandi við viðskipti stjórnmálaflokkanna við bankana og þá aðstöðu sem stjórnmálaflokkarnir tvímælalaust hafa til að greiða fyrir eigin málum innan bankakerfisins því að bankastarfsmenn hafa fullyrt ýmislegt í mín eyru. En eins og ég sagði áðan: þegar um viðskipti sem þessi er að ræða er erfitt að sanna og mjög erfitt að afsanna. En það er eitt sem er afskaplega auðvelt og það er að koma í veg fyrir að slíkan grun og ásakanir megi viðhafa. Það verður ekki gert með því að vitna til þess hvað menn eru góðir eða vondir. Það verður einfaldlega gert með því að breyta hlutunum þannig að ekki geti komið til slíkra grunsemda. Þær breytingar felast einfaldlega í því fyrsta skrefi að alþm. eða fulltrúar stjórnmálaflokka sitji ekki í bankaráðum á meðan ríkisviðskiptabankar eru og í öðru skref í því að afnema eignarhald ríkisins á ríkisviðskiptabönkunum.