13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

71. mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 72 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til forsrh. um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Fsp. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hyggst ríkisstj. leggja fyrir Alþingi, það sem nú situr, frv. til stjórnarskipunarlaga um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar? Ef svo er, hvenær er þess að vænta að slíkt frv. verði lagt fram?“

Það er kannske ekki að ófyrirsynju, herra forseti, að þessu máli er hreyft hér í fsp.-formi að þessu sinni vegna þess að lengi hefur stjórnarskrá lýðveldisins Íslands verið í endurskoðun. Það eru nú þegar liðnir meira en fjórir áratugir síðan menn fóru fyrst að fást við það verk, en eins og kunnugt er er stjórnarskráin að stofni til frá árinu 1874.

Á þeim árum sem stofnun lýðveldisins var í undirbúningi þótti einsýnt að endurskoða skyldi stjórnarskrána frá 1874 í heild en ekki gera einungis þær breytingar sem leiddu af því að lýðveldi var upp tekið í stað konungsríkis. Það verk reyndist hins vegar svo viðamikið að ekki tókst að ljúka því 1944, en til þess stóðu þó efni á þeim tíma.

Tvær nefndir störfuðu um þessar mundir að endurskoðun stjórnarskrárinnar, önnur undir formennsku Gísla Sveinssonar, hin var ráðgjafarnefnd undir forustu Sigurðar Eggerz. Nokkrum árum síðar, 1974, tók við stjórnarskrárnefnd sem Bjarni Benediktsson var formaður fyrir og vann einnig mikið og gott verk að áframhaldandi endurskoðun. Þar kom að árið 1972 var enn ný stjórnarskrárnefnd skipuð og var Hannibal Valdimarsson formaður hennar. Miðaði verkinu þó nokkuð áfram meðan sú nefnd sat. Síðast gerist það að í des. 1978 var skipuð stjórnarskrárnefnd, sem síðan hefur starfað, og var formaður hennar Gunnar heitinn Thoroddsen, en núverandi formaður er Matthías Bjarnason heilbrmrh. Sú stjórnarskrárnefnd hefur starfað, eins og ég segi, síðan 1978.

Í ágústmánuði 1980 sendi sú nefnd frá sér tvær skýrslur. Önnur þeirra geymdi yfirlit um ýmis atriði sem komu til athugunar við endurskoðun stjórnarskrárinnar, í hinni voru hugmyndir um breytingar á kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulagi.

2. des. 1982 gaf nefndin út skýrslu um kjördæmamálið og skömmu seinna, fyrir rúmu einu og hálfu ári, í janúar 1983, gaf hún út skýrslu um endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild. Það má heita að sú skýrsla hafi verið að vissu leyti lokaskýrsla frekar en áfangaskýrsla nefndarinnar um þetta mál. Í formála þeirrar skýrslu, sem þm. hafa ugglaust flestir undir höndum, segir að ýmsum greinum stjórnarskrárinnar hafi verið breytt allverulega frá því sem nú er, en aðrar greinar séu óbreyttar. Samstaða hafi náðst í nefndinni um að senda þingflokkunum þessa skýrslu sem grundvöll að umræðum innan þeirra um textann. Nm. höfðu gert fyrirvara um afstöðu flokka sinna og sína þegar málið kæmi fyrir Alþingi, eins og segir í formála þessarar síðustu heildarskýrslu.

Þetta var í ársbyrjun 1983, fyrir rúmu einu og hálfu ári. Síðan hefur ekki mikið gerst í þessum málum. Það munu aðeins tveir þingflokkanna af þeim fjórum sem upphaflega fengu skýrsluna í hendur hafa sent inn álit sitt á þeim tillögum stjórnarskrárnefndar sem þarna komu fram í heildstæðu formi. (Gripið fram í: Hverjir eru það, hv. ræðumaður?) Mér skilst að það séu Alþfl. — ánægjulegt að geta upplýst fyrirspyrjanda um það — og Alþb. ef ég man rétt.

Þó svo ekki næðist samstaða innan nefndarinnar eru í þessum tillögum stjórnarskrárnefndar mjög merk nýmæli. Það er kannske of langt að telja þau öll hér upp, en þar er m.a. ákvæði um að þingrofsrétturinn, sem verið hefur deiluefni á Alþingi nýlega. Hann er hér mjög þrengdur. (Forseti hringir.) Sömuleiðis heimild til útgáfu brbl., ýmis merk nýmæli í mannréttindamálum, ákvæði um auðlindir og umhverfisvernd.

Á vorþinginu 1983 bar þáverandi formaður stjórnarskrárnefndar og þáverandi forsrh., dr. Gunnar Thoroddsen, fram frv. til stjórnarskipunarlaga sem byggðist á þessum tillögum nefndarinnar. Þetta yfirgripsmikla frv. náði þá ekki fram að ganga, enda seint fram borið, og það var ekki endurflutt á síðasta þingi, en hins vegar gerðar breytingar á kosningakafla stjórnarskrárinnar eingöngu eins og mönnum er kunnugt. Það er því ekki ástæðulaust að spurt er hér hvaða áform ríkisstj. hafi uppi um flutning frv. á þessu þingi um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem svo lengi hefur verið í undirbúningi. Mikil vinna hafði verið lögð í það af hálfu allra flokka að undirbúa tillögur sem frv. dr. Gunnars Thoroddsens byggðist á. Því má segja að ekki ætti að vera neitt að vanbúnaði í þessu efni. Miklu fremur mætti halda fram að dregist hafi úr hömlu að koma málinu í hella höfn, svo langan tíma sem meðferð þess öll hefur tekið.

Að lokum þetta: Það er skoðun mín að tímabært sé að setja lýðveldinu nýja og vandaða stjórnarskrá sem taki mið af viðhorfum nýs tíma og tryggi grundvallarreglur þingræðis, lýðræðis og jafnréttis á Íslandi. Ég hef beint þessari fsp. til forsrh. því að það er hann, af eðlilegum ástæðum, sem hefur forgöngu alla í þessu máli.