20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7050 í B-deild Alþingistíðinda. (6470)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Á þskj. 1412 flyt ég brtt. við frv. til l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins, þ. e. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Till. mín er á þá leið að við ákvæði til bráðabirgða sé bætt nýjum lið þar sem kveðið sé á um það að lögin gildi til bráðabirgða í tvö ár en verði tekin til endurskoðunar þegar á næsta þingi. Meðan lögin gildi skuli framkvæmd þeirra við það miðuð að ríkisstj. tryggi þrjú grundvallaratriði. Þessi atriði eru:

1. Að afurðasölufélög fái rekstrarlán sem geri þeim kleift að standa að fullu skil á greiðslum til framleiðenda skv. ákvæðum laganna.

2. Að áburðarverksmiðjan fái rekstrarlán og aðra þá fyrirgreiðslu er geri henni kleift að selja áburð á verði sem ekki sé hærra en gildi að jafnaði í nálægum löndum.

3. Að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum verði ekki lægri en þær voru að meðaltali árin 1978–1983. Afstaða okkar Alþb. til þessa frv. hefur komið berlega fram í þessum umr. Við teljum að þetta frv. þurfi nánari athugunar við. Við erum beinlínis andvígir ýmsu því sem í því stendur. T. d. finnst okkur ankannalegt að frv. miðar aðallega að því að færa vald frá bændum og samtökum þeirra til landbrn. Í öðru lagi er að því stefnt að taka upp alhliða samninga milli bænda og ríkisvalds en samningar þessir eiga þó ekki að snúast um nema einn þátt vandans, þ. e. um framleiðslumagnið. Það virðist ekki eiga að semja um niðurgreiðslur, um tolla eða skatta, ekki um orlofs- eða lífeyrismál, verðlagsmál, áburðarverð eða annað það sem máli skiptir í sambandi við búreksturinn. Þá fyrst væri um alhliða samninga að ræða milli bænda og ríkis þegar samningar fjölluðu um þessa þætti málsins. En auðvitað er það um leið eitt meginatriði frv. að verið er að draga verulega úr útflutningsbótum.

Eins og kunnugt er þá er gert ráð fyrir því að útflutningsbætur lækki í áföngum. Þær hafa verið 12–13% á liðnum árum og hafa stundum farið upp í 15% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar. Þær voru 12% 1977, 13% 1978, rúm 15% 1979, 12% 1980, 12% 1981 og síðan í kringum 10%. En nú á að færa útflutningsbæturnar í áföngum allt niður í 4% og nota það fjármagn, sem þannig sparast, til uppbyggingar aukabúgreina.

Það er mín skoðun að það sé fullkomlega eðlilegt viðfangsefni að reyna að draga úr útflutningsbótaþörfinni og reyna að nota það fjármagn til uppbyggingar á öðrum sviðum landbúnaðarins. En þá hefði bara þurft að standa öðru vísi að málum en gert hefur verið.

Ef litið er á þróun landbúnaðarframleiðslunnar seinustu árin kemur í ljós að um gífurlegan samdrátt er að ræða í sölu kindakjöts. Á árinu 1983 er talið að kindakjötssalan hafi numið 10 700 tonnum. En hún er komin sennilega niður í 8500 tonn á árinu 1985, hefur lækkað um hvorki meira né minna 2200 tonn á aðeins tveimur árum. Það er mesti misskilningur ef menn halda að það sé einhver tilviljun sem ráði þessu eða það séu breyttar neysluvenjur almennings vegna ótta við hjartveiki sem hér ráði mestu. Það er ósköp einföld skýring á þessu. Hún er einfaldlega sú að varan hefur hækkað í verði hlutfallslega miklu meira en allt annað verðlag í landinu. Hver er svo aftur skýringin á því að kindakjötið hefur hækkað svo mjög í verði? Er það vegna þess að bændur fái meira í sinn hlut en áður var? Nei, þvert á móti. Skýringin er einfaldlega sú að niðurgreiðslur hafa stöðugt verið að lækka.

Ef niðurgreiðslur landbúnaðarvara eru reiknaðar á verðlagi sama árs, eins og gert var í svari viðskrh. við fsp. Hjörleifs Guttormssonar fyrr á þessum vetri þegar hann spurði hverjar hefðu verið niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum umreiknað á verðlag 1984, kemur í ljós að á árinu 1982 námu niðurgreiðslur um 1900 millj. kr. á verðtagi ársins 1984. Á næsta ári á eftir, 1983, fara þær niður í 1300. Á árinu 1984 fara þær niður í 700 og á árinu 1985 stefnir í að þær verði um 530 millj. kr. á sama verðlagi, þ. e. verðlagi ársins 1984. Þær munu verða í kringum 680 millj. á verðlagi þessa árs en sé það umreiknað í verðlag seinasta árs eins og allar hinar tölurnar lætur nærri að við séum komnir með upphæðina niður í 530 millj. Þessa upphæð, 680 millj., fæ ég þannig að ég tek þá upphæð sem er í fjárlögum þegar búið er að draga framlag í Lífeyrissjóð bænda frá og bæti svo við þeim niðurgreiðslum sem nýlega voru ákveðnar. Þá fáum við út í kringum 680 millj . á verðlagi þessa árs sem gerir ekki nema 530 millj. á verðlagi ársins í fyrra. Þá hafa niðurgreiðslur lækkað á aðeins þremur árum úr 1900 millj. kr. og niður í 530. Gífurleg breyting á verðlagi landbúnaðarvara hefur fylgt í kjölfar þessa. Þetta er ósköp einfaldlega skýringin á því að orðið hefur svo feykilegur samdráttur í sölu kindakjöts og raunar á öðrum sviðum landbúnaðarframleiðslunnar sem raun ber vitni.

Ef þessar tölur, sem ég nú nefndi, eru settar upp í súlnarit og þær bornar saman sjáum við að súlnaritið yfir niðurgreiðslurnar er ósköp einfaldlega mjög líkt súlnaritinu yfir samdráttinn í kindakjötsneyslunni innanlands. (EJ: Sem hefur aukist ár frá ári.) Nú þykir mér hv. þm. Egill Jónsson segja einkennilegar fréttir. Ég held að ég verði að endurtaka það sem ég sagði áðan og veit að hv. þm. getur ekki hrakið það.

Árið 1983 er talið að kindakjötsneyslan hér innanlands hafi numið 10 700 tonnum skv. upplýsingum frá Framleiðsluráði landbúnaðarins. En það er áætlað að á árinu 1984 hafi þessi neysla dottið niður í kringum 9100 tonn og að hún verði á þessu ári í kringum 8500 tonn. Þetta eru allt tölur frá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Mér þykir það harla merkilegt ef hv. þm. Egill Jónsson hefur upp á vasann einhverjar allt aðrar upplýsingar en þær sem frá Framleiðsluráði eru komnar.

Ég get líka bent hv. þm. á aðrar heimildir sem benda til hins nákvæmlega sama þó að þar séu tölurnar reiknaðar með dálítið öðrum hætti. Það eru hagtölur mánaðarins sem Seðlabankinn gefur út. Þar eru upplýsingar um sölu á kindakjöti og kemur auðvitað nákvæmlega sami samdráttur þar fram þótt hann sé að vísu reiknaður með öðrum hætti vegna þess að þar eru forsendur aðrar og reikningsárið annað. En það ber satt að segja ekki vott um sérlega merkileg vinnubrögð hv. landbn. Ed. sem hv. þm. Egill Jónsson er formaður fyrir ef sjálfur formaðurinn í n. veit ekki um meginstaðreyndir þessa máls sem við erum að tala um og talar hér bara eins og glópur úr sæti sínu. Sú er meginástæðan fyrir því að við höfum fyrir framan okkur þennan mikla samdrátt í kindakjötsneyslunni að niðurgreiðslurnar hafa verið að dragast saman.

En annað það sem verulegu máli skiptir í þessu sambandi er áburðarverðið sem hefur hækkað allrosalega í seinni tíð. Áburðarverðið hækkaði um 40% í vor þó að verðbólga frá vori 1984 til vors 1985 sé ekki talin vera meiri en 28%.

Sú skýring hefur verið gefin á því áð Áburðarverksmiðjan þurfi svo mikla hækkun á áburðarverði í vor sem raun ber vitni að verksmiðjan hafi tekið erlend rekstrarlán í dollurum og dollarinn hafi hækkað meira í verði en aðrar myntir. En ég spyr: Hver bar ábyrgð á þessu? Bera bændur ábyrgð á því? Er þetta gengistap verksmiðjunnar þeim að kenna? Ég tel að stjórnvöld, þ. e. Seðlabanki og ríkisstjórn, beri ábyrgð á því að verksmiðjan fékk ekki innlent rekstrarlán eins og um hafði verið talað eftir reynslu ársins 1983. Ég held að þetta óhapp sem átti sér stað á liðnu ári hefði ekki átt sér stað ef innlent rekstrarlán hefði verið útvegað á árunum 1984 og 1983. Ég tel að miðað við það að tapið hjá Áburðarverksmiðjunni verður fyrst og fremst rakið til þessa óheppilega rekstrarláns sem var í dollurum og dollarinn hækkaði jafnskuggalega og raun ber vitni væri eðlilegast að þetta gengistap Áburðarverksmiðjunnar væri greitt af hagnaði Seðlabankans enda hefur bankinn hagnast stórlega á gengisbreytingum erlendra mynta. Það er auðvitað engin glóra í því að íslenskir bændur, sem hvergi hafa komið nærri, þurfi að taka á sig þetta gengistap.

Ég bendi á það að ef niðurgreiðslur hefðu verið með eðlilegum hætti eins og var á árunum 1978–1983, ef meðaltal þeirra ára hefði gilt á árinu 1984 og 1985, væri ekki þessi framleiðsluvandi í landbúnaði sem við stöndum núna frammi fyrir og þá væri auðvelt fyrir bændur að taka á sig þessa byrði að fá ekki útflutningsbætur eins og verið hefur nema með þeim miklu takmörkunum sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þá hefði það ekki verið neinn vandi vegna þess að það mikið hefur kindakjötsframleiðslan dregist saman og þá hefðu endar náðst nokkurn veginn saman. En vegna þess að ríkisstj. hefur staðið svona að niðurgreiðslumálum, vegna þess að hún hefur hækkað verð á kindakjöti meira en verðlag á nokkrum öðrum hlut hér innanlands, standa bændur í þessum vanda.

Vegna þess að bændur áttu sér ekki betri forsvarsmenn hér á Alþingi, vegna þess að bændur úr Sjálfstfl. og aðrir forsvarsmenn landbúnaðarins hér á þingi létu það yfir sig ganga að niðurgreiðslur væru lækkaðar svo gífurlega sem raun ber vitni, þess vegna eru bændur komnir í þann vanda sem við stöndum núna frammi fyrir. Þess vegna segi ég: Ef þessi þrjú skilyrði væru uppfyllt sem í þessari till. eru fólgin, þ. e. að ríkisstj. sæi örugglega til þess að afurðasölufélögin fengju nægileg rekstrarlán, Áburðarverksmiðjan fengi rekstrarlán sem gerði henni kleift að komast úr sínum vanda og hún þyrfti ekki að hækka áburðarverðið jafn gífurlega og raun ber vitni og bændur gætu notið áburðarverðs sem væri eitthvað hliðstætt því sem gildir í nálægum löndum og ef niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum væri með hliðstæðum hætti og var á árunum 1978–1983, þá væri tiltölulega auðvelt fyrir bændur að taka á sig þá byrði sem þessi nýja löggjöf gerir ráð fyrir. En þegar haft er í huga í hvern vanda ríkisstj. hefur komið bændastéttinni á þann hátt sem ég hef nú lýst og með vaxtastefnu sinni alveg sérstaklega, sem ekki á þarna minnsta sök. þá sér maður ekki annað en að samþykkt þessa frv. verði eitthvert mesta óhappaspor sem nokkurn tíma hefur verið stigið hér á landi gagnvart bændastéttinni og að það hljóti að leiða til gífurlegra þrenginga víða um land meðal bænda með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Virðulegi forseti. Vegna þess að ég er hvatamaður þess að við reynum að ljúka þessum fundi ætla ég ekki að fara öllu fleiri orðum um meginþætti þessa máls þótt ég vissulega hefði löngun til að bæta hér við alllöngu máli. Þetta er viðamikið mál sem þyrfti að ræða miklu ítarlegar. En því miður, við höfum ekki tíma til þess og því verð ég að láta þessi orð nægja. En ég treysti á það að velunnarar landbúnaðarins styðji þessa till. sem ég hef hér flutt.