20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7054 í B-deild Alþingistíðinda. (6474)

533. mál, breytt nýting útvarpshúss

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Á sínum tíma hafði ég nokkur afskipti af byggingu útvarpshúss, bæði sem menntmrh. og seinna sem fjmrh. Ég var þeirrar skoðunar að húsið væri býsna vel við vöxt og mætti vafalaust haga þar vissum hlutum með meiri hagkvæmni en gert var. Það varð verulegur reipdráttur milli útvarpsins annars vegar og samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir hins vegar um stærð og gerð þessa húss, en vegna þess að Ríkisútvarpið hefur aflað sér tekna með sjálfstæðum tekjustofnum og vegna þess að fyrirtækið er sjálfstæð stofnun í B-hluta fjárlaga og hefur ekki þurft að leita beinlínis í ríkissjóð vegna þessarar byggingar fór það svo að stjórnendur útvarpsins höfðu sitt fram og byggðu sitt hús í trássi við þau fyrirmæli sem gefin voru á sínum tíma af samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir. Núna tilheyrir þetta sögunni og við stöndum frammi fyrir því að húsið hefur verið byggt, sennilega allverulega við vöxt, og útvarpið og sjónvarpið hyggjast flytja í húsið. Ég tel að eins og mál standa nú sé ekki um annað að ræða en láta Ríkisútvarpið koma sér fyrir í þessu húsi með þeim hætti sem það telur sjálfsagðast og eðlilegast. Ég vil ekki hafa þar bein afskipti af þó að ég geti vel tekið undir það sjónarmið flm. till. að vafalaust væri hægt að nýta útvarpshúsið betur en virðist áformað að nýta það.

En með hliðsjón af því sérstaklega að meiri hl. Alþingis hefur samþykkt ný útvarpslög, sem gera ráð fyrir að upp rísi einkastöðvar sem hafi heimild til útvarps- og sjónvarpsrekstrar, og þar sem ég óska Ríkisútvarpinu svo sannarlega alls hins besta í þeirri samkeppni, þá vil ég, líka af þeirri ástæðu, ekki gera neitt það sem þrengir þeirra hag og læt því byggingaráform Ríkisútvarpsins afskiptalaus. Þess vegna get ég ekki stutt þessa till.