20.06.1985
Neðri deild: 108. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7055 í B-deild Alþingistíðinda. (6482)

503. mál, getraunir Öryrkjabandalags Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Í fyrrinótt þegar klukkan var 40 mínútur gengin í tvö var þetta mál tekið á dagskrá og ætlast til þess að ég tæki þá til máls. Eftir að ég hafði látið í ljós mótmæli og krafist þess að umr. yrði frestað vegna fjarvista hæstv. ráðh. féllst hæstv. forseti á að fresta umr. þá um nóttina. Aftur í gærkveldi langt gengin í eitt var þetta mál enn tekið á dagskrá og mér gefið orðið. Þá var hæstv. ráðh. enn fjarverandi og mér hlaust sú ánægja að fá að tala hér yfir auðum stólum í hálfan annan klukkutíma um frv. til l. um getraunir Öryrkjabandalags Íslands. Í þriðja skiptið hefst umr. um þetta frv. síðla kvölds og ætlast til þess væntanlega að það fái hér endanlega afgreiðslu í deildinni einhvern tíma upp úr miðnætti ef að líkum lætur þó að ég lofi engu um það.

Ég verð nú að segja það eins og er að mér finnst lítið leggjast fyrir kappana þegar þessu máli er þröngvað í gegn með þeim hætti sem ég hef lýst, þegar helst er ætlast til þess að umr. fari fram að næturlagi þegar hæstv. ráðh., sem flytur þetta mál, hefur ekki fyrir því að vera viðstaddur umr. og á þeim tíma þegar þm. eru lítt við af eðlilegum ástæðum og hafa þess vegna ekki tækifæri til þess að hlýða á rök með og móti þessu máli. Minn málflutningur, herra forseti, þolir dagsbirtu og ég hefði ekki talið óeðlilegt að þetta mál hefði verið tekið til umr. að degi til á venjulegum þingfundartíma og á þeim tíma þegar aðrir þm. hefðu haft tækifæri til að hlýða á mál mitt og taka þátt í þessari umr.

Hér fór fram atkvæðagreiðsla áðan við lok 2. umr. Þar greiddu þm. atkvæði og ég leyfi mér að fullyrða að þau atkvæði voru greidd að lítt athuguðu máli, kannske frekar af tilfinningaástæðum en vegna þess að þeir hafi kynnt sér allar hliðar þessa máls. Vegna þess að ég er enn þeirrar skoðunar að þm. vaði í villu um innihald þessa máls og geri sér enga grein fyrir því um hvað það snýst mun ég enn freista þess að fjalla nokkuð um þetta frv. og endurtaka ýmislegt af því sem ég sagði hér í gærnótt ef vera kynni að einhver gæfi sér tíma til að hlýða á mál mitt.

Það er frekar hvimleitt til lengdar að tala yfir auðum stólum. Mér skilst að einn annar maður hafi verið í salnum þó að ég hafi lítið séð til hans. Hæstv. forseti hér að baki mér sat þar þolinmóður, blessaður, en öðrum þm., sem hér voru staddir í húsinu, þótti tíma sínum betur varið í öðrum húsakynnum og lái ég þeim það ekki þótt menn þreytist þegar sólarhringurinn verður langur, jafnvel þó að stórmál séu á dagskrá. (Gripið fram í.) Nei, ég biðst afsökunar á því, það var einn hv. þm. sem sat löngum stundum hér í salnum og hlýddi á mál mitt af athygli, enda fór það svo að hann greiddi atkvæði á móti þessu frv.

Í dag hafa verið harla einkennilegar umr. og harla sérkennileg fundarstjórn svo að ekki sé meira sagt. Í Sþ. hér fyrst í dag voru mál keyrð í gegn af ofurkappi af hæstv. forseta sem stýrði þeim fundi með harðri hendi og endaði eiginlega fundinn með því að taka fyrir allmörg mál og gefa orðið laust með því skilyrði að enginn tæki til máls. Hann tók það jafnan fram þegar mál voru tekin á dagskrá að hann leyfði því aðeins að þau væru tekin til umr. að enginn fjallaði um þau. Mér finnst það vera sérkennileg breyting og nýbreytni á framkvæmd þingræðis og lýðræðis þegar svo er komið að hér eru helst mál á dagskrá sem enginn má tala um. Það þótti mikil goðgá þegar einhver leyfði sér að kveðja sér hljóðs. Hæstv. forseti fyrtist við. — Ég vil taka fram að ég er ekki að tala um forseta Nd., ég er að tala um forseta Sþ. sem er traustur maður og virðulegur forseti eins og allir vita. En auðvitað gengur svona fundarstjórn út í hreinar öfgar og annað er eftir.

Nú eru hér haldnir fundir síðla kvölds til þess að reka mál hér í gegn og ekkert tóm gefst til þess að skoða mál eða ræða þau, allt undir því yfirskini að búið sé að gera eitthvert samkomulag milli þingflokka um þinglausnir á morgun. Bræðralag samtryggingarinnar er hér alveg á fulli skriði þar sem hver stingur upp í annan og menn gera samkomulag út og suður með sínum vanalegu pólitísku hrossakaupum um það hvaða mál eigi að fara í gegn og hvaða mál eigi ekki að fara í gegn. Það er alveg greinilegt að þetta mál, sem hér er á dagskrá, er í náðinni. Það er greinilegt að það hefur verið samið um það einhvers staðar hér í bakherbergjum í þinghúsinu að þetta mál eigi að fá afgreiðslu því að slíkt ofurkapp á umr. og afgreiðslu þessa máls er með ólíkindum.

Ég hef margspurst fyrir um það hjá ráðamönnum þingflokkanna hvaða ákvarðanir hafi verið teknar um meðferð þessa máls. Þær spurningar hafa ekki komið á óvart því að þessum mönnum er fullljóst að mér stendur ekki á sama um afgreiðslu þessa máls. Ég tel það varða hagsmuni stórrar fjöldahreyfingar í landinu. Ég upplýsti þá um það að ég vildi tjá mig um málið og reyndi að telja þeim trú um að þetta mál þyrfti miklu betri skoðunar við og væri eðlilegt að fresta því fram til haustsins a. m. k. En það er alveg sama hvað ég hef oft spurt. Ég hef alltaf fengið þokukennd svör um það hvaða meðferð þetta mál ætti að fá. Ýmist hafa menn sagt: Það er meiningin að taka það til umr., það er meiningin að hreyfa því máli, það er verið að sjá til hvernig það gengur.

Það er alveg útilokað að þetta mál nái endanlegri afgreiðslu í báðum deildum. En samt er alltaf gert ráð fyrir því að ég taki til máls þegar klukkan er orðin eitt, tvö og þrjú að nóttunni og ekki linnt látunum fyrr en þetta mál er afgreitt frá einni umr. til annarrar. Þrátt fyrir það að menn hafi verið að gefa það í skyn undanfarna daga að ekkert samkomulag hafi verið gert um það milli þingflokka hver örlög þessa frv. yrðu þá er auðvitað ljóst hvert stefnir. Það er ljóst að hér á að bola þessu máli í gegn þrátt fyrir mjög eindregin mótmæli og ákveðnar athugasemdir, ekki bara hér í þinginu heldur frá hagsmunaaðilum sem þetta mál varðar miklu.

Það hefur ekki farið dult hér undanfarna daga að forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins hafa gengið á milli þm. hér í húsinu, sjálfsagt til þess að fylgja eftir sínu máli. Það er ekki verið að lasta það að menn „lobbýeri“ hér eins og annars staðar. Fulltrúar íþróttahreyfingarinnar hafa rætt málin, verið kallaðir á fund hjá allshn. og hafa rætt málin að mér skilst við einstaka þm. En það er eins og að tala við vegginn, það hefur ekki nokkur áhrif. Ég get ekki betur séð en það sé svo komið fyrir hv. þingflokkum og ástsælum stjórnmálaflokkum að þeim sé bara alveg nákvæmlega sama um hvaða sjónarmið og hvaða skoðanir, hvaða þarfir séu uppi í þeirri fjöldahreyfingu sem íþróttasamtökin eru. Það hryggir mig satt að segja að stórir flokkar, sem vilja afla sér vinsælda og trausts meðal fólksins og þykjast vera að vinna fyrir fólkið, skuli ekki hafa minnsta áhuga á því að hlusta á það sem fulltrúar stórra samtaka hafa að segja um þetta mál.

Ég hef hér í þessari umr. vakið athygli á því að lög um getraunir Öryrkjabandalags Íslands snerta ekki bara Öryrkjabandalagið. Það snertir hagsmuni og rétt íþróttahreyfingarinnar. Ég hef minnt á það að í gildi eru lög frá 1972 þar sem Íslenskum getraunum er veittur réttur til að reka getraunir sem um ræðir í þessu frv. Það er augljóst mál að þegar öðrum er veittur sambærilegur réttur, nákvæmlega sams konar getraunir, þá rekast hagsmunir á. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að íþróttahreyfingin hefur af því áhyggjur. Af þeim ástæðum hef ég flutt þau sjónarmið hér inn í þessa umr. inn á hið háa Alþingi og reynt að upplýsa menn um það að það frv., sem hér er til umr., er ekki upplagt eða einfalt, það hafi á sér aðrar og fleiri hliðar, það sé aðför að íþróttahreyfingunni. En allt hefur komið fyrir ekki.

Auk þess sem þetta frv. er vissulega atlaga að tekjustofnum íþróttahreyfingarinnar þá hef ég líka bent á að það geti áreiðanlega orðið mikill bjarnargreiði fyrir Öryrkjabandalagið að þessi lög verði samþykkt. Öryrkjabandalagið á allt gott skilið. Innan þess eru fjölmörg samtök þeirra sem búa við margvíslega örorku, elli, vanþroska og ýmiss konar alvarlega sjúkdóma. Vitaskuld þarf bandalag, sem hefur slík félög innan sinna vébanda, að fá dyggan stuðning frá hinu opinbera til að standa undir sínu hlutverki. En ég held að það sé vanvirða og í hæsta máta óeðlilegt að öryrkjar þurfi að búa við þann kost í sínum fjáröflunarmálum að standa í getraunastarfsemi og treysta á lotterí til að starfsemi þeirra gangi með eðlilegum hætti. Mér finnst það nánast móðgun gagnvart Öryrkjabandalaginu að rétta þeim happdrætti, vonarpeninga og segja: Þetta hafið þið, á þessu megið þið lifa. Ég hef þvert á móti haldið því fram að það væri skylda samfélagsins, fyrsta skyldan kannske, að standa við bakið á öryrkjum. Það er það fólk sem þarf helst á hjálp að halda í þessu þjóðfélagi. Ef við þykjumst vera að standa að og standa vörð um velferðarríki á það að vera hornsteinninn í því velferðarríki að ríkið, ríkisvaldið, taki Öryrkjabandalagið upp á sína arma.

Borgarar þessa lands greiða skatta, hafa skyldur gagnvart ríkisvaldinu, og greiða þá yfirleitt með glöðu geði og í þeirri trú að því fjármagni sé varið til samhjálpar og til nauðsynlegrar óhjákvæmilegrar þjónustu í landinu, til að standa undir skólakerfinu, standa straum af kostnaði við sjúkrahúsin og til að styrkja og vernda öryrkjana. Ef ríkisvaldið vanrækir þetta hlutverk sitt og lætur Öryrkjabandalagið t. d. vera hornreku í þjóðfélaginu. hornreku sem þarf að treysta á happdrætti til að lifa, þá er það aumt ríkisvald, þá standa menn ekki í stykkinu og gegna ekki skyldum sínum. Ég óttast það mjög að ef þetta frv. verður samþykki og Öryrkjabandalagið fái getraunir í sinn hlut verði það enn þá skálkaskjól fyrir ríkisvaldið. fyrir komandi ríkisstjórnir, að segja við Öryrkjabandalagið: Ja, þarna hafið þið peninga. þarna hafið þið tekjustofn. þið þurfið ekki meira fjármagn á fjárlögum, og áfram verði haldið þeirri stefnu, sem því miður hefur verið í gangi allt of mörg ár, að skerða og skera niður þau fjárframlög sem eiga að ganga til Öryrkjabandalagsins í gengum Erfðafjársjóðinn og Framkvæmdasjóðinn.

Ég rakti það hér í gærnótt að þetta frv. vekti upp fjölmargar spurningar sem ástæða væri til að fá svör við í þessari umr. með hliðsjón af þeim afleiðingum sem þetta frv. kann að hafa. Ég geri fastlega ráð fyrir því að flm. þessa frv. hafi hugleitt það mál og gert sér grein fyrir því hvað frv. hefði í för með sér.

Það var ekki von að ég fengi svör við þessum spurningum, sem ég varpaði fram hér og nú, þar sem enginn væri til viðtals, þar sem flm. þessa frv. var víðs fjarri góðu gamni og staðgengill hans var horfinn á braut. Í fyrrinótt féllst hæstv. forseti deildarinnar á það að fresta umr. vegna þeirrar ábendingar minnar að hæstv. ráðh. væri ekki viðstaddur. Í gærkvöldi reyndi ég að sýna tillitssemi og tók til máls þrátt fyrir fjarveru hæstv. ráðh. Jóns Helgasonar, lagði fram ýmsar spurningar í ræðu minni og átti satt að segja von á því að þegar þetta mál kæmi á dagskrá aftur á skikkanlegum tíma mætti búast við því að hæstv. ráðh. væri viðstaddur og upplýsti mig og þingheim um ýmislegt sem ég spurði að. En mínum málflutningi er sýnd sú virðing að greinilega þykir ekki taka því að virða þær spurningar viðlits. En þó er þetta mál svo mikilvægt að það er ætlunin að keyra það hér í gegn með offorsi og láta það hafa algeran forgang jafnvel þótt það taki fram á miðjar nætur dag eftir dag eða sólarhring eftir sólarhring.

Mér finnst þetta ekki fara beint saman. Mér finnst það vera lítil samkvæmni í því að bera þetta mál svo mjög fyrir brjósti að það skuli hafa forgang hér til afgreiðslu en láta svo ekki svo lítið að vera viðstaddur umr. og svara spurningum sem fram eru bornar. Þetta er hreinn dónaskapur.

Ég vil nú enn freista þess að varpa fram þessum spurningum í þeirri von að é fái einhver svör við þeim áður en þessari umr. lýkur. Ég hef spurt um það hvaða áætlanir liggi fyrir um tekjumöguleika Öryrkjabandalagsins ef þetta frv. verður samþykkt. Hvað gera menn ráð fyrir því að mikið fé aflist með þessum hætti? Einhverjar hugmyndir hljóta menn að hafa um það. Varla væri þetta svo stórt og mikið mál og brennandi hagsmunamál fyrir Öryrkjabandalagið nema þeir gerðu sér miklar vonir um það að af þessu hefðust miklir peningar. Hverjar eru þær áætlanir? Þær hljóta að hafa verið lagðar fyrir ráðh. og fyrir ríkisstj. þegar hann og ríkisstj. ákveður að flytja þetta mál og keyra það hér í gegn.

Ég hef spurst fyrir um það hvernig Öryrkjabandalagið hefur hugsað sér að ráðstafa þessu fé. Ég geri mér fullljósa grein fyrir því að þar eru ærin verkefni og það vantar áreiðanlega fjármagn til margvíslegrar starfsemi, til húsakaupa og annars aðbúnaðar fyrir Öryrkjabandalagið. Sjálfsagt er því af nógu að taka. En sú spurning er engu að síður áleitin: Hvaða áætlanir eru uppi hjá Öryrkjabandalaginu um ráðstöfun á þessu fé eða skiptingu á þessu fé milli einstakra félaga innan bandalagsins?

Í Öryrkjabandalaginu eru fjölmörg félagasamtök sem nú þegar reka getraunastarfsemi og happdrættisstarfsemi — ég held að það sé aðallega happdrættisstarfsemi — og njóta enn fremur margvíslegrar opinberrar aðstoðar og hafa fasta tekjustofna. Ég hefði haldið að það væri áhugamál Alþingis og stjórnvalda að gera sér grein fyrir því hvernig ætlunin er að ráðstafa þessu fé, hvar á að bera niður, hvaða hóp á að hjálpa fyrst o. s. frv. Um þetta hljóta að liggja fyrir einhverjar upplýsingar.

Ef ríkisvaldið hefur tekið þá stefnumótandi ákvörðun að heimila líknar- og mannúðarsamtökum af þessu tagi að fara af stað með getraunastarfsemi þá hlýtur það að vera gert með það í huga að breyta öðrum þeim tekjustofnum, öðrum fjárveitingum sem hingað til hafa gengið til þessa bandalags og til þessarar starfsemi. Ég spyr því: Á þá að endurskoða eða breyta t. d. almannatryggingakerfinu að því er varðar bætur til öryrkja? Á að skera niður fjárveitingar til þessa fólks og þessara samtaka? Á að breyta lögum sem lúta að opinberri aðstoð við öryrkja? Það eru fjölmörg lög sem eru í gildi um samskipti ríkis og Öryrkjabandalagsins og mun ég upplýsa þingheim hér um það á eftir með því að lesa þessi lög til frekari fyllingar mínu máli. En ég hlýt að álykta sem svo að gert sé ráð fyrir því að breyta ýmsu vegna þess að hér er um að ræða stefnumótandi ákvörðun. Hér er um stefnumótandi frv. að ræða sem felur það í sér að hæstv. ríkisstj. ætlast til þess að Öryrkjabandalagið njóti framvegis tekna sinna af almennri happdrættis- og getraunastarfsemi.

Ég held líka að það hljóti að vera ákvörðun ríkisstj. með þessu frv. að breyta að einhverju leyti afstöðu sinni til ýmissa frjálsra samtaka. Ég hef vakið athygli á því að með samþykkt þessa frv. verða hagsmunaárekstrar við önnur frjáls félagasamtök. Er þá kannske ætlunin hjá ríkisstj. að veita íþróttahreyfingunni, fjölmennustu fjöldasamtökunum í landinu, einhverja annars konar aðstoð til þess að bæta þeim upp þann skaða sem hlýst af því að fleirum en íþróttahreyfingunni er heimilað að reka getraunastarfsemi? Ber að líta á þetta frv. sem fordæmi um að aðrir geti komið á eftir? Verður það svo í framtíðinni að öllum verði heimilt að reka happdrætti og getraunastarfsemi? Það er sjónarmið út af fyrir sig.

Einn hv. þm. ræddi það hér við mig í fullri alvöru að það væri í sjálfu sér óeðlilegt og bryti jafnvel gegn hinni alkunnu frjálshyggju að verið væri að setja lög þar sem tilteknum samtökum væri heimilað með einhverjum einkarétti að reka starfsemi af þessu tagi. Það er, eins og ég segi, sjónarmið út af fyrir sig. Kannske á ekki að vera að veita neinum sérstökum slíkan rétt, það eigi bara hver sem er að geta farið af stað með happdrætti þegar honum sýnist og svo eigi bara samkeppni og markaðurinn að ráða því hver beri hvað úr býtum. Þetta er kannske fyrsta skrefið til að opna þetta, ég veit það ekki.

Það er ljóst að það eru fleiri sem sækja inn á þennan markað og vilja gjarnan nýta sér þann möguleika að geta sett af stað talnahappdrætti og getraunir af þessu tagi. Upplýst er að Háskóli Íslands hefur mikinn áhuga á því og sömuleiðis skátahreyfingin. Það eru fjölmörg líknar- og mannúðarsamtök í landinu sem berjast í bökkum fjárhagslega og mundu svo sannarlega vilja fara þessa leið. Úr því að menn vilja veita Öryrkjabandalaginu aðstoð með þessum hætti, með því að láta það lifa af happdrætti og vonarpeningum, af hverju þá ekki að fallast á það að önnur sambærileg samtök fái sama rétt? Hvað er það sem segir að Öryrkjabandalagið og íþróttahreyfingin eigi ein að fá að sitja að þessu?

Það væri út af fyrir sig fróðlegt líka að fá upplýst frá hæstv. dómsmrh. hvaða athuganir hafa verið gerðar á happdrættismarkaðinum hér. Nú getur enginn farið af stað með happdrætti nema fá leyfi hjá hæstv. ráðh. og einhver stýring hlýtur að vera á því, einhverjar upplýsingar hljóta að liggja fyrir um það hvernig þessi happdrætti ganga. Væntanlega gera menn ráð fyrir því að hér séu álitlegar upphæðir í seilingu úr því að svona mikil áhersla er lögð á það að Öryrkjabandalagið fái réttinn til rekstrar getraunastarfsemi.

Mér er hins vegar sagt að happdrætti almennt talað sé að dragast saman, það verði sífellt erfiðara að láta þau dæmi ganga upp. Jafnvel stóru happdrættin kvarta undan versnandi afkomu og minni sölu. Fjölmörg smærri samtök, sem efla til minni háttar happdrætta, þykjast jafnvel góð með að sleppa á sléttu. Ég held að það hefði verið fyllilega ástæða til þess þegar mál sem þetta er borið fram af hæstv. ríkisstj. að dómsmrn. hefði látið kanna þennan markað til að gera sér grein fyrir því hvað hann þolir.

Í bréfi, sem Öryrkjabandalagið sendi dómsmrh. og ég hef hér einhvers staðar undir höndum, er gerð grein fyrir þeirri ósk Öryrkjabandalagsins að það fái heimild til reksturs getraunastarfsemi. Þetta bréf er upp á tvær síður, skrifað 8. maí s. l. Ef þetta bréf er það eina sem liggur að baki þeirri ákvörðun hæstv. ríkisstj. að fara af stað með þetta frv. þá finnst mér það með eindæmum illa undirbúið. Slík bréf, sem Öryrkjabandalagið hefur sent frá sér til hæstv. ráðh., hefur Öryrkjabandalagið áreiðanlega sent tugum og hundruðum saman áður til fjvn. Alþingis um aðstoð fyrir sig og sína. Þar er gerð grein fyrir því hvaða félög séu innan Öryrkjabandalagsins. Það er upplýst hvernig ástandið var 1964 í húsnæðismálum öryrkja og vitnað til könnunar sem gerð var á þeim tíma, þ. e. fyrir 21 ári síðan. Þar er stiklað á mjög stóru um það hvaða áform Öryrkjabandalagið hafi um byggingu íbúðarhúsnæðis og upplýst hvaða starfsemi er nú á vegum þess. En það er ekki eitt einasta orð í þessu bréfi um það hvað Öryrkjabandalagið hafi gert til undirbúnings þessa máls. En ég efa það ekki að áður en hæstv. ráðh. lagði þetta mál fram hefur hann kynnt sér það. Hann hefur sjálfsagt kynnt sér hvaða vélabúnað, tækjakost og aðstöðu Öryrkjabandalagið hefði til þess að fara af stað með svona starfsemi, hvernig hugmyndir þess eru um sölu, dreifingu og um rekstur þessa fyrirtækis sem óhjákvæmilega hlýtur að verða stofnað í kringum þessa getraunastarfsemi.

Ég get ekki ímyndað mér annað en hæstv. ráðh. hafi einnig kynnt sér það getraunastarf sem í gangi hefur verið hér í landinu í 13 ár til þess að átta sig á því hvernig að þeim málum er staðið, hvaða vinnu það kostar og hvaða hagnaður er af því. Skv. lögum frá 1972 var Íslenskum getraunum veittur réttur, eins og ég hef sagt áður, til að reka getraunastarfsemi, þ. e. knattspyrnugetraunir annars vegar og talnahappdrætti hins vegar, svokallað lottó. Því fyrrnefnda var hleypt af stokkunum strax á árinu 1972 en íþróttahreyfingin ákvað að doka við með að hefja rekstur á svokölluðu lottói meðan knattspyrnugetraunin væri að festast í sessi vegna þess að þar töldu menn að til árekstrar gæti komið og það væri nauðsynlegt að byggja upp fyrst knattspyrnugetraunirnar áður en haldið yrði af stað með lottó í beinni samkeppni við hina fyrrnefndu.

Knattspyrnugetraunirnar eru í stórum dráttum reknar þannig að það eru íþróttafélögin sem standa fyrir nánast allri sölu og dreifingu á miðum. Það starf er unnið af hundruðum og þúsundum manna í sjálfboðavinnu um allt land. Um hverja helgi 8 eða 9 mánuði ársins koma tugir manna í hverju félagi fyrir sig saman, taka við miðum, selja þá, dreifa þeim og safna þeim saman á nýja leik, stokka þeim upp, raða þeim upp o. s. frv.

Það er alveg með ólíkindum hvað menn leggja mikið á sig í slíku sjálfboðaliðastarfi í þágu sinna félaga. Hver söluaðili fær 25% í söluþóknun af hverjum miða og safnast þegar saman kemur. Það má kannske segja að menn geti haft misjafnlega mikið upp úr krafsinu eftir því hvað þeir selja mikið, en sum félögin, sem þannig kalla til starfa sjálfboðaliða helgi eftir helgi, hafa kannske 10–15 þús. kr. upp úr krafsinu eftir vikuna. En samt leggja menn þetta á sig af því að þeir eru að vinna í þágu æskunnar og íþróttastarfsins.

Þetta er ósérhlífið starf sem hefur skilað sér í því að betur er búið að æskunni. Íþróttafélögin eru betur í stakk búin til að sinna henni og gegna því þar með mjög mikilvægu uppeldishlutverki í þjóðfélaginu, uppeldisstarfi sem engan veginn er metið að verðleikum. Það er gegn þessu mikla og merkilega starfi sem nú er verið að ráðast til atlögu með því að hleypa öðrum inn á þennan markað. Auðvitað verða íþróttamenn að sætta sig við samkeppni og þeir eru vanir því að keppa. Annars er auðvitað ekkert við því að segja, en ég hef áhyggjur af afleiðingunum. Ég held að í þessu dæmi muni hver kroppa augun úr öðrum. Ég held að það sé ekki skynsamlegt gagnvart Öryrkjabandalaginu og öryrkjunum að ætlast til þess að þeir standi í slíkri samkeppni og þeir hafi mikla peninga út úr því. Ef þeir hafa ekki mikla peninga út úr því er þetta mál ekki þess virði að verið sé að fara af stað með það sem einhvern óskaplegan vonarpening sem eigi að bjarga öllu hjá Öryrkjabandalaginu.

Nú fyrir skömmu ákvað stjórn Íslenskra getrauna að knattspyrnugetraunirnar væru búnar að festa sig það vel í sessi að ástæða væri til að hefja starfrækslu á hinu svokallaða lottói, þ. e. talnahappdrætti, sams konar starfsemi og þetta frv. gerir ráð fyrir að falli í skaut Öryrkjabandalagsins. Í því skyni að undirbúa það mál sem allra best hefur verið unnið mikið undirbúningsstarf. Menn á vegum Íslenskra getrauna hafa farið til annarra landa til að kynna sér hliðstæðan rekstur. Það er búið að leggja í allverulegan kostnað, tækjakaup, ráða starfsmenn, koma sér upp húsnæði og leggja sem sagt mikla vinnu í það að hefja lottó. Þetta starf hefur allt verið unnið í þeirri góðu trú að íþróttahreyfingin hefði réttinn á því að reka slíka getraunastarfsemi, slíkt talnahappdrætti, og að hún fengi að vera í friði með hana, a. m. k. fyrst um sinn.

Ég hef hér undir höndum skýrslu sem samin er af Jóhanni Gunnarssyni sem er núverandi formaður Siglingasambands Íslands. Jóhann samdi þessa skýrslu eftir ferðalag sem hann tókst á hendur fyrir Íslenskar getraunir til Finnlands, Svíþjóðar og sennilega Noregs líka. Það segir í þessari skýrslu að getraunastarfsemi hafi hafist í Finnlandi 1940. Stofnað var um hana félag sem þróast hefur smátt og smátt yfir í Veikhaus eins og það er nefnt. Það segir að 21 íþróttasamband hafi staðið að fyrsta félaginu sem fór svo að styrkja aðra starfsemi en íþróttir. Jafnframt jók það tekjur sínar með því að taka upp fjölbreyttari happdrættisstarfsemi. Hann telur að lottó hafi hafist í Finnlandi árið 1971 á vegum þessa fyrirtækis, Veikhaus, og lottó er nú 61% af veltu þess fyrirtækis. En hann segir hér í sinni skýrslu, með leyfi forseta: „Með tilkomu þess“ — þ. e. lottósins — „dró nokkuð úr tekjum getrauna.“

Hann rekur síðan í þessari skýrslu fyrirkomulag þessara mála, hvernig miðar eru útbúnir og útfylltir og hvernig þeim sé dreift og hvernig dráttur fer fram. Ég held að það sé forvitnilegt áður en lengra er haldið að ég lesi hér smákafla upp úr skýrslunni þannig að þingheimur sé upplýstur um það hvað lottó er. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Svo sem kunnugt er gengur lottó út á það að giska á nokkrar fölur úr tiltekinni röð. T. d. er merkt við sjö tölur á bilinu 1–37 á finnska seðlinum en sex tölur af 49 á þeim franska. Þetta er sem sagt breytilegt eftir stærð markaðarins og því hvernig óskað er að vinningar falli. Á hverjum seðli eru oftast fleiri en einn reitur eða röð, t. d. er sá finnski með 10 röðum auk þess sem hægt er að velja kerfi og eins að láta seðilinn gilda í fleiri en eitt skipti. Talnafjölda og vinningshlutfall þarf að reikna út miðað við áætlaða þátttöku á hverjum stað svo að leikurinn verði hæfilega eftirsóttur.

Vinnugangur lottóvikunnar er eiginlega hinn sami og í Getraunum og þarf því ekki að eyða að honum mörgum orðum. Hvort tveggja er rekið samhliða hjá Veikhaus og sömu vélar notaðar við úrvinnslu. Skiladagur er fimmtudagur hjá eigin söluskrifstofum en miðvikudagur hjá umboðum. Hefst þá uppgjör við umboð og ljósmyndun seðla. Er þessu lokið síðdegis á föstudag og myndir af seðlum þá afhentar eftirlitsmönnum hins opinbera sem hafa til umráða rammgerðar öryggisgeymslur í byggingunni. Vinnsla er ekki nema að nokkru leyti vélvædd enn þá en víðtæk endurskipulagning er í undirbúningi. Starfslið er að miklum hluta konur í hlutastarfi. Dráttur fer fram á laugardögum og er sýndur í sjónvarpinu. Er það talið hafa mikið auglýsingagildi enda mikið horft á þennan stutta dagskrárlið. Ég held að hann taki ekki nema 1–2 mínútur.“ Síðan segir Jóhann frá því að hann hafi fylgst með drætti í sjónvarpinu og fjallar síðan um það nánar í þessari greinargerð sem ég hirði ekki um að tíunda.

„Á mánudögum hefst síðan leit að vinningsseðlum. Er þá öllum seðlum rennt öðru sinni í gegnum sömu vélar og notaðar voru til að ljósmynda þá frá vikunni áður. Koma seðlar með 6–7 réttum tölum í einn vasa og 4–5 réttum í annan o. s. frv. Alltaf eru einhverjir seðlar ólæsilegir í vélum og eru þeir þá skoðaðir í höndunum. Miklu máli skiptir að finna fljótt hvort einhver hafi réttar tölur því að ef svo er ekki verður stærri pottur í næstu viku. Seðlar með 6 og 7 réttum eru því skoðaðir í höndum strax á mánudagsmorgun. Eru til þessara nota búin til sérstök form til að leggja yfir seðlana. Virðist þetta ganga fljótt og vera furðu öruggt. Þótt mistök verði er það ekki alvarlegt því að í fyrsta lagi eru vinningsseðlar skoðaðir aftur a. m. k. tvisvar auk yfirferðar fulltrúa yfirvalda og í öðru lagi getur vinningshafi sent inn mótmæli og krafist réttar síns.

Þegar allir vinningsseðlar eru fundnir, venjulega á þriðjudagskvöldi, eru þeir afhentir eftirlitsmönnum sem bera saman seðla og filmur. Seðlar með háum vinningum eru skoðaðir nákvæmlega hver og einn en lægri vinningur með úrtaki. Veikhaus hefur þann hátt á að senda vinningsupphæðir heim með póstgíró. Er þetta nokkuð dýrt, eða um 2.5 mörk á sendingu, enda er nú verið að athuga möguleika á að greiða lægri vinninga í gegnum umboðið. Hæstu vinningar eru ekki greiddir út fyrr en að 7 vikna kærufresti liðnum enda gæti kæra leitt til breytinga á vinningsupphæðum í þeim flokki. Ekki er skylda að setja nafn og heimilisfang á seðlana svo að erfitt getur reynst að koma öllum vinningum til skila. Allt er samt gert sem unnt er til þess að svo verði. Er það liður í þeirri viðleitni að viðhalda með almenningi trausti á fyrirtækinu, en það er að sjálfsögðu mikilvægt söluatriði.“

Þetta er ég nú að rekja, herra forseti, til að upplýsa hv. alþm. um að þetta mál er ekkert mjög einfalt. Þetta er flókið í sniðum og margbrotið og krefst mikils starfskrafts og verulegs fjármagns til að hleypa af stokkunum. Það þarf mikinn mannafla til að standa fyrir dreifingu. Sannleikurinn er sá að að því er varðar þá getraunastarfsemi sem verið hefur í landinu hér undanfarin 10–12 ár, þá hefði verið útilokað fyrir íþróttahreyfinguna að hafa einn einasta eyri upp úr þessari starfsemi nema vegna þess að hún byggist á sjálfboðaliðastarfi, nema vegna þess að hundruð og þúsundir manna um allt land leggja sig fram um að vinna fyrir sín samtök í þágu æskunnar til þess að bera úr býtum nokkur hundruð, nokkur þúsund, 10–20–30 þús. kr. eftir atvikum.

Ég er ansi hræddur um það að ef aðrir ætla að fara af stað með sambærilega getraunastarfsemi, hvort sem það eru knattspyrnugetraunir eða lottó, þá verði það borin von að tekjur hafist upp úr því vegna þess að slíkir seðlar þurfa að komast í hendur viðskiptavinanna og seljast og reynslan sýnir að það þarf að bera þessa seðla til fólksins, það þarf að halda þessum miðum að fólki til þess að það fáist til að kaupa þá. Öðruvísi gengur þetta ekki. Það er jafnvel reynslan þrátt fyrir að Getraunir hf. hafi eflst mjög og þar séu verulegar vinningsupphæðir í húfi og fólk geti hagnast mjög myndarlega á því að hreppa fyrsta vinning. Vinningar hafa farið yfir hálfa millj. á einni viku. En samt eru tekjurnar ekki meiri en þær að lítið yrði eftir ef sjálfboðaliðastarfið væri ekki undirstaða að allri þessari starfsemi. (HBl: Svo eru sérstakir peningar sem hjálpa manni að krossa við.) Það er þegar viðskiptamaðurinn og sá sem spilaði í happdrættinu er búinn að fá seðilinn í hendurnar. Þá geta menn auðvitað haft ýmsar aðferðir til þess að finna réttu tölurnar og hreppa hnossið. Menn hafa notað teninga og ýmsar aðrar aðferðir til að komast að þeirri tölu sem veitir þeim stóra vinninginn. (HBl: Eru ekki áttstrendingar notaðir?) Það má nota átthyrninga og það má nota ferhyrninga og það má nota teninga og það eru fjölbreyttar aðferðir, eins og ég segi, sem menn brúka í þeim efnum. En það notar enginn átthyrning eða teninga eða neinar slíkar kúnstir ef þeir fá ekki seðlana í hendurnar, ef ekki er komið með happdrættisseðlana, lottóseðlana, inn fyrir dyr hjá hverjum og einum.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar og ítreka það enn einu sinni að hér er verið að gera Öryrkjabandalaginu mikinn bjarnargreiða með því að veita því þennan rétt sem flm. og aðstandendur þessa frv. halda greinilega að sé einhver fjársjóður. (HBl: Aðalatriðið er sem sagt að koma seðlunum heim til þeirra.) Það skiptir náttúrlega miklu máli, hv. þm., að maður fái happdrættismiðann í hendurnar ef maður ætlar sér að hljóta vinning. Ég held að við hljótum að vera sammála um það þó við séum kannske ekki eins miklir lukkunnar pamfílar þegar við spilum. (Gripið fram í.) Ég kann miklu betur við það að menn standi hér og spjalli við mig. Það er miklu líflegra fyrir mig að halda ræðu ef þessum samræðum heldur áfram og ég þakka kærlega fyrir þær og hef ekkert á móti þeim. (Forseti: Forseti er nú ekki á sama máli og hv. ræðumaður.) Nei, mér datt það nú í hug, þess vegna vildi ég vekja athygli á því og vekja hann kannske. (Forseti: Og það var komið að því að forseti gripi inn í. Hér með er hv. skrifari deildarinnar áminntur um að vera ekki með frammíköll um of.) (HBl: Má biðja um betri skýringar á því sem um var verið að fjalla?) Ég er alveg sammála hv. 2. þm. Norðurl. e. um það að það veitir ekki af að skýra þetta mál og ég er fús til þess að skýra hvert eitt smáatriði í þessum málum þegar um það er spurt og er tilbúinn til þess að svara þeim fsp. hér í alla nótt ef því er að skipta.

Að öllu gamni slepptu þá er mér enginn hlátur í hug þegar ég er að fjalla um það frv. sem er á dagskrá. Ég hef rakið hér lauslega hvernig slík starfsemi er rekin erlendis og hvaða tækjabúnað og aðstöðu þarf að hafa til að skapa skilyrði til þess að menn geti farið af stað með getraunastarfsemi. Þetta hef ég gert vegna þess að ég hef margsinnis innt eftir því hjá hæstv. ríkisstj., hjá hæstv. ráðh., hvort ekki sé alveg öruggt að Öryrkjabandalagið hafi lagt fram upplýsingar um sinn undirbúning að þessu máli og hvernig að starfseminni skuli staðið vegna þess að ég tel það vera forsendu fyrir því hvernig þetta frv. komst á koppinn. Mér finnst útilokað að slík frumvörp séu flutt og borin fram nema slíkar upplýsingar liggi fyrir.

Hér gengur nú staðgengill hæstv. dómsmrh. í salinn. (Forsrh.: Hann er búinn að vera í salnum svo að segja í allt kvöld.) Jú, ég hef tekið eftir því, jafn myndarlegur maður og hann er. Þá er kannske tækifæri mitt til að beina orðum mínum til hans og spyrjast fyrir um það hvort hann hafi svar við því sem ég er að fjalla hér um í kvöld. (Forsrh.: Ég verð að komast í ræðustólinn til þess að svara.) Já, en spurningin er þá sú áður en lengra er haldið hvort herra forseti mundi gera hlé á ræðu minni meðan ráðh. svarar ýmsu því sem ég hef verið að varpa hér fram. Ég er margsinnis búinn að varpa þessari spurningu fram, ég er búinn að gera það við 2. umr., ég er búinn að gera það við 3. umr. og menn hafa ekki virt mig svars og varla verið við. Nú held ég að það sé kominn tími til að ég fái svör við spurningunum áður en ég held áfram þessari ræðu því að það má vel vera að ýmislegt, sem ég hef hugsað mér að segja á næstu stundarfjórðungum, þurfi ekki að koma fram í mínu máli ef svörin eru fullnægjandi. Það gæti þá kannske sparað tíma að ég geri hlé á máli mínu meðan ráðh. talar, enda mundi það þá vera á þeirri forsendu að það væri ein og sama ræðan þegar ég tæki aftur til máls. Ég væri þá ekki búinn að nýta seinni ræðutíma minn í það að fylgja eftir þeim upplýsingum sem hæstv. ráðh. mundi þá láta mér í té. (Forseti: Út af þessum ummælum hv. ræðumanns úrskurðar forseti ekki að hann skuli hætta ræðu sinni. Það verður hv. þm. að ákveða sjálfur. Forseti ákvarðar heldur ekki hvort hæstv. dómsmrh. tekur til máls eða ekki, það verður hann að ákveða sjálfur hvort hann gerir eða ekki.) Ég tek þetta sem svo að hæstv. forseti fallist ekki á það að ég geri hlé á ræðu minni svo að ég mun þá halda áfram og láta skeika að sköpuðu um það hvort ég fjalli hér um ýmis málefni sem ella væri óþarfi.

Hv. allshn. sendi þetta frv. ekki til skriflegra umsagna hjá einum eða neinum. En hún kallaði á sinn fund fulltrúa Öryrkjabandalagsins sem eðlilegt er, svo og fulltrúa Íþróttasambands Íslands og getrauna íþróttahreyfingarinnar og þar að auki fulltrúa Háskóla Íslands. Það er athyglisvert að allir þeir fulltrúar, sem nefndin kallaði til sín, mæltu eindregið gegn samþykkt þessa frv. Nú hefði maður haldið að hv. allshn. hefði kallað á sinn fund menn sem hún teldi málsmetandi og hún hefur varla farið að kalla í fulltrúa þessara samtaka og stofnana nema af því að hún vildi hlýða á mál þeirra og taka mið af þeim sjónarmiðum sem þar kæmu fram. Annars hefði alls ekki tekið því að vera að kalla þessa menn á fund nú. En hún gerir mönnunum boð og býður þeim að koma til fundar við nefndina. Þeir ganga á fund nefndarinnar í þeirri trú að það skipti einhverju máli hvað þeir segja og undirbúa sína komu eins og kostur er miðað við stuttan fyrirvara og lýsa því út frá sjónarhóli sinna samtaka og sinna stofnana að það sé mjög vafasamt allra hluta vegna að þetta frv. fái samþykki. Engu að síður ákveður meiri hl. n. að leggja til að frv. verði samþykkt. M. ö. o. féllst meiri hl. n. ekki á þær röksemdir og þau sjónarmið sem fram komu gegn þessu máli.

Til upplýsinga fyrir þá þm. sem hlýða á mál mitt vildi ég leyfa mér, með leyfi forseta, enn og aftur að lesa þær skriflegu umsagnir sem síðar hafa komið, annars vegar frá íþróttahreyfingunni og hins vegar Happdrætti Háskóla Ístands. Í umsögn Íþróttasambands Íslands segir, með leyfi forseta:

„Í tilefni frv. til laga sem nú liggur fyrir Alþingi um getraunastarfsemi á vegum Öryrkjabandalags Íslands óska stjórnir Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Íþróttanefnd ríkisins að vekja athygli yðar á eftirfarandi:

Skv. lögum nr. 59/1972 hafa Íslenskar getraunir einkaleyfi til starfrækslu getrauna, bæði íþróttagetrauna og talnagetrauna. Enda þótt hið nýja lagafrv. geri ráð fyrir notkun bókstafa í stað talna má öllum vera ljóst að með samþykkt þess væri spillt svo þeirri hugsun og grundvelli sem liggur að baki starfsemi Íslenskra getrauna að jaðrar við afnám þess réttar sem íþróttahreyfingunni var veittur með lögunum frá 1972.

Fram að þessu hafa Íslenskar getraunir afmarkað starfsemi sína við íþróttagetraunir, þ. e. úrslit kappleikja, en undanfarin ár hefur verið í undirbúningi að koma jafnframt á fót talnagetraunum eins og lög heimila. Hefur í þeim tilgangi verið aflað víðtækrar vitneskju um reynslu íþróttahreyfinga annarra landa á þessu sviði. Undirbúningurinn er nú á því stigi að síðla sumars er áformað að talnagetraunir hefji starfsemi sína. Framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn og unnið er að því að undirbúa starfsaðstöðu og daglegan rekstur.

Öllum er ljós erfið fjárhagsstaða íþróttahreyfingarinnar og á það jafnt við um einstök félög sem heildarsamtök. En með lögunum um Íslenskar getraunir var skapaður ákveðinn réttur til að afla fjár til stuðnings íþróttastarfseminni í landinu. Tilkoma annarrar getraunastarfsemi þótt bókstafakerfi væri notað verður því nánast að skoða sem aðför að þeirri starfsemi sem fyrir er og verið er að undirbúa. Við viljum því eindregið vara við samþykkt þessa nýja frv. og förum þess eindregið á leit við hv. alþm. að ekki verði rasað um ráð fram í þessu máli.

Allir viðurkenna vandamál öryrkja og þarfir þeirra fyrir bætta aðstöðu. Eitt vandamál er þó ekki farsælt að leysa með því að spilla svo fyrir öðru að ekki sjái fyrir afleiðingar þess. Það eru því ákveðin og samhljóða tilmæli okkar að margnefnt frv. verði lagt til hliðar í núverandi mynd og lausnir fundnar á vandamáli öryrkja án þess að valda þeirri röskun og ófyrirsjáanlegu tjóni sem hér hefur verið gert að umtalsefni.“

Undir þetta skrifa Sveinn Björnsson fyrir hönd Íþróttasambands Íslands, Pálmi Gíslason fyrir hönd Ungmennafélags Íslands, Valdimar Örnólfsson fyrir hönd Íþróttanefndar ríkisins og Jón Ármann Héðinsson fyrir hönd Íslenskra getrauna.

Þarna kemur fram það sjónarmið, sem ég hef nú hér fyrr í ræðu minni gert að umtalsefni og skiptir kannske meginmáli, að íþróttaforustan óttast að til árekstra komi milli Öryrkjabandalagsins annars vegar og íþróttahreyfingarinnar hins vegar ef báðir aðilar eru að starfrækja sambærilega happdrættisstarfsemi. Þeir segja og taka fram að þeir viðurkenni vandamál öryrkja og þarfir þeirra fyrir bætta aðstöðu en bæta því hins vegar við að eitt vandamál eigi ekki að leysa með því að spilla svo fyrir öðru að ekki sjái fyrir afleiðingar þess.

Ég held að allir taki undir það að Öryrkjabandalagið á allt gott skilið og þar eru miklar knýjandi þarfir og þar þarf vissulega að bæta úr. Ég held að allir góðviljaðir og sanngjarnir menn séu tilbúnir til þess að hlaupa undir bagga og gera átak til að tryggja fjárhagsstöðu Öryrkjabandalagsins þannig að það geti a. m. k. sinnt þeim lágmarkskröfum sem til þess eru gerðar og ráðist í þær byggingar sem gerð er grein fyrir í bréfi bandalagsins frá 8. maí s. l. til hæstv. dómsmrh.

Þessi málflutningur minn beinist ekki að því að eyðileggja fyrir Öryrkjabandalaginu. Hann beinist ekki að því að draga fjöður úr þess hatti eða spilla fyrir framgangi góðra málefna. Ég er fyrst og fremst að rekja fleiri hliðar þessa máls og vara við því að etja þessum ágætu samtökum saman vegna þess að ég held að það spilli fyrir báðum. Ef menn af ímyndaðri góðvild vilja hleypa frv. um getraunir Öryrkjabandalagsins í gegn þá er það bjarnargreiði gagnvart Öryrkjabandalaginu og leiðir til tjóns fyrir íþróttahreyfinguna. Þetta veldur mönnum áhyggjum vegna þess að þeir hafa engan áhuga á því að standa í samkeppni við jafn ágæt samtök og Öryrkjabandalagið.

Íþróttahreyfingin vill gjarnan standa sem mest á eigin fótum með sjálfstæðan fjárhag og hefur alla burði til þess að virkja sína fjölmörgu félagsmenn til margvíslegra átaka, ekki aðeins inni á íþróttaleikvöngunum heldur líka í félagsstarfi m. a. með fjáröflun. Ég hef rakið það hvernig sá kraftur félagsmanna hefur verið virkjaður í getraunastarfseminni til góðs fyrir íþróttafélagið. En íþróttahreyfingin hefur áhyggjur af því, ekki aðeins að spónn verði tekinn úr aski hennar þegar fleiri komast inn á þennan sama markað, heldur líka að það þurfi að etja kappi við Öryrkjabandalagið og kannske sitja undir ásökunum um að spilla fyrir Öryrkjabandalaginu, draga úr tekjumöguleikum þess af væntanlegri getraunastarfsemi, og hefur þess vegna bent á að farsælla væri að veita Öryrkjabandalaginu aðstoð með öðrum og myndarlegri hætti en vonarpeningi sem þessum.

Í greinargerð, sem Happdrætti Háskóla Íslands hefur sent frá sér dags. 23. maí, segir með leyfi forseta: „Vegna frv. til laga um getraunir Öryrkjabandalags

Íslands, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, vill stjórn Happdrættis Háskóla Íslands gera svofelldar athugasemdir:

1. Happdrætti Háskóla Íslands hefur nú einkarétt á rekstri peningahappdrættis hér á landi skv. lögum nr. 13/1973. Hefur svo verið í 51 ár. Einkarétturinn hefur verið mjög þýðingarmikill í rekstri happdrættisins og væri það mikill hnekkir ef hann yrði skertur.

2. Byggingar Háskóla Íslands og tækjakaup hafa í öllu verulegu verið greiddar af happdrættisfé. Hins vegar hrekkur það hvergi nærri til nauðsynlegra framkvæmda í fyrirsjáanlegri framtíð. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands hefur í undirbúningi till. um aukna starfsemi happdrættisins og hefur þegar verið gerð grein fyrir sumum þeirra. Nánari tillagna er að vænta áður en langt um líður.

3. Skv. lögum nr. 59/1972 hafa Íslenskar getraunir heimild til að reka talnagetraunir, lottó, og mun þeim verða hleypt af stokkunum á næstunni. Kemur þar til sögunnar nýr samkeppnisaðili á happdrættismarkaðnum.

4. Markaðurinn fyrir happdrætti er auðvitað ekki ótakmarkaður. Í athugunum sínum á nýjungum í rekstri hefur Happdrætti Háskóla Íslands gert ráð fyrir að nýjungar yrðu að hluta á kostnað núverandi reksturs og yrðu að réttlætast af því að með þeim næðist einnig til viðskiptavina sem ekki eru þar nú þannig að heildartekjur ykjust.

5. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands telur sem fyrr segir — og styðst þar við reynslu erlendis — að stofnun nýs happdrættis af þeirri stærð sem ætlunin virðist vera muni leiða til samdráttar og þar með tekjutaps þeirra sem fyrir eru. Eigi ekki að skerða fé til uppbyggingar Háskóla Íslands og rannsóknastofnana atvinnuveganna yrði að bæta tekjutapið með einhverjum hætti og þá væntanlega með auknu framlagi ríkissjóðs. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands hefur fullan skilning á starfsemi Öryrkjabandalags Íslands og tekjuþörf þess. Stjórnin telur hins vegar að upphaflegar forsendur fyrir veitingu einkaleyfis til Háskóla Íslands til reksturs peningahappdrættis séu óbreyttar og eigi ekki að skerða rétt þennan.“

Í þessari umsögn kemur aftur fram velvilji gagnvart Öryrkjabandalaginu en lýst er áhyggjum af nýjum samkeppnisaðila og tekið fram að markaðurinn fyrir happdrætti af þessu tagi sé að sjálfsögðu ekki ótakmarkaður.

Ég geri ráð fyrir því að sömu sögu hefðu fleiri stjórnir happdrætta að segja ef spurst hefði verið fyrir um það, ef hv. allshn. hefði haft eða gefið sér tíma til að skoða þetta mál betur og gefið fleiri aðilum kost á því að tjá sig um þetta frv. Mér dettur í hug SÍBS sem rekur mjög umfangsmikið happdrætti, DAS sem rekur mjög umfangsmikið happdrætti, jafnvel Sjálfsbjörg sem er þó innan Öryrkjabandalagsins. Ég er viss um að umsagnir flestra forsvarsmanna þessara happdrætta mundu vera á sömu lund og frá Happdrætti Háskóla Íslands, það yrði varað við því að hleypa enn einum aðilanum inn á þennan markað vegna þess að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að selja marga happdrættismiða í landinu. Áður en varir er kannske sú staða komin upp að menn geri ekki meira en að standa undir kostnaði. Það eru jafnvel dæmi um það að myndarlegustu happdrætti með stórum vinningum hafi mátt þakka fyrir að sleppa án taps. Fjölmörg félagasamtök lifa jafnvel í þeirri von þegar þau fara af stað með happdrættið að vinningurinn gangi ekki út, að helsta vonin til þess að hægt sé að hafa eitthvað upp úr krafsinu sé að vinningurinn gangi alls ekki út því að það sé kannske það sem happdrættið skili af sér.

Ég hef verið hér að vitna til umsagna sem komið hafa frá þeim tveimur aðilum sem fengu tækifæri til að tjá sig um þetta mál, aðilum sem hafa skv. lögum rétt til að reka happdrættis- og getraunastarfsemi. Ég hef verið að gera því skóna að fleiri, sem reka happdrætti skv. lögum, væru sama sinnis. Löggjöfin hefur ávallt litið svo á að happdrætti væri starfsemi sem þyrfti að vernda með lögum og löggjafinn hefur ávallt gætt þess að enginn geti farið af stað með slík happdrætti nema með fullu samþykki yfirvalda og helst beinlínis skv. lögum. Af hverju skyldi það vera gert? Það er vegna þess að löggjafinn er sammála því sjónarmiði, sem kemur fram í grg. Happdrættis Háskóla Íslands, að markaðurinn sé ekki ótæmandi og það sé ekki hægt allra aðila vegna að hafa þetta frjálst og óheft.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að kynna fyrir hv. alþm. þau lög sem um þetta gilda til þess að rekja í stuttu máli sögu þessa máls, sögu happdrætta á Íslandi, hina lagalegu sögu, svo að mönnum sé ljóst að það sem ég er að segja hér er sannleikanum samkvæmt. Ég veit, herra forseti, að það er ekki skemmtilegur lestur ef menn taka upp á því eða neyðast til þess að lesa hellu lagabálkana og lagaákvæði sem þeir hafa að geyma.

En ég tel mér það óhjákvæmilegt með hliðsjón af þeirri stöðu sem upp er komin í þessu máli vegna þess að mér finnst að hv. deild sé á villigötum í þessu máli eins og atkvæðagreiðsla hér fyrr í kvöld leiddi í ljós. Ég held að það sé ekki vanþörf á því að þingheimur sé upplýstur um forsögu málsins og allavega að ég sinni þeirri skyldu minni svo ekki verði borið á mig síðar að ég hafi ekki gert mitt til að reyna að telja mönnum hughvarf með því að rekja þessa sögu og skírskota til þeirra laga sem í gildi eru.

Vegna þess að lögin eru besta sönnunin, tala skýrustu máli um þá staðhæfingu mína að hér skuli ganga hægt, ekki um gleðinnar dyr heldur vonarinnar dyr og gera sér ekki grillur eða ímynda sér að hér séu faldir fjársjóðir. Löggjafinn hefur verið íhaldssamur og tregur til að hleypa samtökum og félögum inn á þennan markað vegna þess að alþm. fyrri tíma hafa gert sér grein fyrir því að hér þyrfti að hafa gát á. Ef um væri að ræða að veita einhverjum rétt til slíkrar starfsemi þá ætti að vernda þann rétt.

Það er athyglisvert í sambandi við þessa löggjöf alla að þar hefur löggjafinn einskorðað sig við fjöldasamtök og góð líknarmál, heilbrigðismál, og hefur með því lyst þeim vilja sínum að tekjurnar af happdrættismarkaði rynnu til góðra málefna. Þessi löggjöf bannar hvers konar starfsemi án lagaheimildar vegna þess að löggjafinn hefur viljað vernda þá og standa við bakið á þeim sem réttinn hafa fengið. Nú á að vísu að víkja frá þessari meginreglu, þessari áragömlu stefnu sem ríkt hefur hér á Alþingi og hjá ríkisstjórnum fyrri ára. Það var af þeim ástæðum sem ég vil kynna fyrir þm. einstök ákvæði þessara laga.

Þá er þar fyrst til að taka að 1926 voru sett lög um happdrætti, svokölluð lotterí og hlutaveltur eða tombólur. Þetta eru lög nr. 6 frá 15. júní 1926. Þau eru ekki löng þessi lög, en þar segir, með leyfi forseta, í 1. gr.:

„Happdrætti hverrar tegundar sem er má ekki hafa nema með leyfi dómsmrn. og ekki hlutaveltu nema með leyfi lögreglustjóra. Peningahappdrætti eða önnur þvílík happaspil má ekki setja á stofn án lagaheimildar.“

Í 2. gr.: „Það er bannað mönnum á Íslandi að versla þar með eða selja hluti fyrir erlend happdrætti eða önnur þvílík happaspil eða að hafa þar á hendi nokkur störf er að þessu lúta.“

Í 3. gr. segir: „Brot gegn lögum þessum varða sektum og skal fara með mál af þeim að hætti opinberra mála.“ Þarna er sem sagt sett sú meginregla að happdrætti hverrar tegundar sem er megi ekki hafa nema með leyfi dómsmrn. og að peningahappdrætti eru skilyrðislaust bönnuð án lagaheimildar. Þetta er sú meginregla sem Alþingi Íslendinga hefur fylgt allar götur síðan 1926 en ætlar núna að breyta út af að því leyti til að nú er gert ráð fyrir því að fleiri en einn og fleiri en tveir og fleiri en þrír fái að reka slíka starfsemi sem hefur verið mjög takmörkuð hingað til.

Hv. frsm. allshn. fjallaði nokkuð um það í ágætri ræðu sem hann flutti fyrir hönd n. þegar hann gerði grein fyrir nál. að hingað til lands hefðu borist og verið í sölu miðar að mig minnir af sænsku lottói. Hann nefndi þetta til rökstuðnings fyrir því að nú þyrfti Öryrkjabandalagið að fá heimild til þess að fara af stað með getraunastarfsemi að erlendir happdrættis- eða lottómiðar væru farnir að berast inn í landið, það ætti að stemma stigu við því og það væri best gert með því að hleypa Öryrkjabandalaginu af stað með svipaða starfsemi.

Hv. frsm. allshn. er prófessor í lögum og lögfróður maður og ég hefði ekki þurft að minna hann á það að í þessum lögum frá 1926 er það skýrt tekið fram að það er bannað mönnum á Íslandi að versla þar með eða selja hluti fyrir erlend happdrætti eða önnur þvílík happaspil eða hafa þar á hendi nokkur störf er að þessu lúta. Nú er ég ekki að tíunda þetta eða rifja upp þessi ummæli hv. frsm. allshn. til þess að gera lítið úr þeim eða efast um að það hafi verið í góðri meiningu gert að minnast á þetta sænska lottó. En það voru engu að síður vafasöm rök fyrir máti meiri hl. nefndarinnar að geta um þessa sænsku lottómiða af þeirri einföldu ástæðu að slík starfsemi mundi aldrei verða liðin hér og mundi aldrei ná neinni útbreiðslu þar sem hún er bönnuð með öllu. Það er auðvitað aldrei hægt að útiloka að einhverjir einstaklingar kaupi slíka miða, fái þá senda í prívat pósti. En að af því stafi einhver hætta eða ógn gagnvart öðrum samtökum sem kunna að reka happdrætti eða hlutaveltur eða getraunir er algerlega út í hött.

Hins vegar sjáið þið af þessu dæmi að það er full ástæða til að varast ásókn erlendis frá inn á okkar íslenska markað. Að því leyti var sjónarmið hv. frsm. allshn. rétt að hann varar við samkeppni, hann varar við því að of margir séu á markaðnum. Það er einmitt nákvæmlega sú röksemd sem ég hef fram að færa gegn þessu frv., að ég held að það sé ekki markaður, það sé ekki rúm fyrir svo marga á þessum vettvangi eins og nú er stefnt að.

Í samræmi við þá meginstefnu, sem mörkuð er 1926 með lögum um lotterí og tombólur, hefur Alþingi samþykkt nokkur lög þar sem ýmsum stofnunum og samtökum er veitt lagaheimild, lagaréttur, lögverndaður réttur til að hleypa af stokkunum happdrættum. Lög um Happdrætti Háskóla Íslands eru nú nr. 13/1973 en eiga sér eldri sögu. Lög um Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna eru nú nr. 16/1973 en eiga sér einnig eldri sögu. Lög um vöruhappdrætti fyrir Samband ísl. berklasjúklinga eru nr. 18/1959 og lög um heimild fyrir dómsmrh. til að veita leyfi til veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar og kappróður eru nr. 23/1945. Síðan eru til lög um heimild til að leyfa héraðssamböndum íþrótta- og ungmennafélaga að stofna til sérstakra tegunda happdrættis, en þau lög eru nr. 15/1952. Síðast en ekki síst eru til lög um getraunir nr. 59/1972.

Á þessum lögum öllum er allnokkur munur. Ég held þess vegna að það sé rétt að ég lesi þessi lög svo að menn átti sig á þeim mismun sem á þeim er. Það geri ég til þess að hafa aðdraganda að því að lýsa fyrir mönnum lögunum um getraunir sem ég nefndi síðast í minni upptalningu áðan er hafa að geyma hinn lögverndaða rétt til handa íþróttahreyfingunni til að reka getraunastarfsemi og lottó.

Í lögum um Happdrætti Háskóla Íslands er í 1. gr.: „Dómsmrh. er heimilt að veita Háskóla Íslands einkaleyfi til rekstrar happdrættis með þeim skilyrðum er nú skal greina:

a. Hlutatalan má ekki fara fram úr 60 þús. en skiptist í tólf flokka á ári hverju og skal dráttur fara fram fyrir einn flokk í mánuði hverjum, dráttur 1. flokks í janúarmánuði og 12. flokks í desembermánuði. Heimilt er að gefa út fjögurra flokka hlutamiða sem greinist með bókstöfunum e, f, g og h, en auk þess er heimilt að gefa út sérstakan flokk, b-flokk, sem hafa skal fimmfalt gildi á við hvern hinna flokkanna, bæði að því er varðar endurnýjunariðgjald og fjárhæð vinninga.

b. Iðgjald fyrir hvern hlut ákveður dómsmrh. að fengnum tillögum happdrættisráðs og happdrættisstjórnar háskólans.

c. Vinningar skulu eigi vera færri en svo að a. m. k. fjórði hver miði hljóti vinning árlega að meðaltali og skal vinningsfjárhæð nema a. m. k. 70% af iðgjöldum samantöldum í öllum 12 flokkum.

d. Dráttur skal fara fram í Reykjavík undir eftirliti nefndar sem dómsmrh. skipar til þess. Nefndin leggur fullnaðarúrskurð á allan ágreining um lögmæti eða gildi dráttar bæði meðan dráttur fer fram og eftir að honum er lokið. Kostnað af þessu ber happdrættið.

e. Einkaleyfi til að reka happdrættið má veita til 1. jan. 1989. Ágóðanum skal varið til að reisa byggingar á vegum Háskóla Íslands. Enn fremur er heimilt að verja honum til greiðslu kostnaðar af viðhaldi háskólabygginganna, til fegrunar á háskólalóðinni, til þess að koma á fót og efla rannsóknastofur við hinar ýmsu deildir háskólans og til að greiða andvirði rannsóknar- og kennslutækja sem háskólinn telur sér nauðsynlegt að eignast. Leyfishafi greiði í ríkissjóð 20% af nettóársarði í einkaleyfisgjald.“

Í 2. gr. segir: „Á meðan happdrættið starfar er bannað að setja á stofn nokkurt annað peningahappdrætti hér á landi svo og að versla með eða hafa á boðstólum miða erlendra happdrætta, auglýsa þá í innlendum blöðum eða hvetja menn til að kaupa þá. Þó getur ráðh. veitt undanþágu að því er kemur til happdrættis sem stofnað er til í góðgerðarskyni einungis og þó með skýrum takmörkum, t. d. fyrir eitt sveitarfélag og aldrei nema um ákveðinn tíma, lengst eitt ár.“

Í 3. gr. segir: „Enginn má selja hlutamiða happdrættisins nema löggiltir útsölumenn þess er fá miðana frá aðalskrifstofu happdrættisins og öll önnur verslun með miðana er bönnuð. Ráðh. er heimilt að leyfa happdrættinu að taka í sínar hendur útsölu hlutamiða.“

Í 4. gr. segir: „Vinningar í happdrættinu eru undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti á því ári sem þeir falla.“

5. og síðasta gr.: „Dómsmrh. setur með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi happdrættisins.“

Eins og heyra má af upptalningu og lestri ákvæða þessara laga er þetta happdrætti stofnað til stuðnings háskólanum og rekstri háskólans. Gert er ráð fyrir því að ágóðanum sé varið til að reisa byggingar á vegum háskólans, verja honum til greiðslu kostnaðar af viðhaldi háskólabygginga, til að koma á fót og efla rannsóknarstofur og greiða andvirði rannsóknar- og kennslutækja sem háskólinn telur sér nauðsynlegt að eignast. Það fer reyndar ekki milli mála að þeir sem staðið hafa að þessari löggjöf hafa gert það með það efst í huga að hér væri gott málefni á ferðinni. Í þeim efnum og í því skyni var skýrt tekið fram í þessum lögum að ekki mætti á meðan happdrættið starfaði setja á stofn nokkurt annað peningahappdrætti hér á landi. Þannig var réttur háskólans á þessu happdrætti mjög kyrfilega verndaður og það er engin tilviljun. Sú hugsun á sér stoð í þeim meginlögum sem sett voru 1926 og hún á sér rætur í þeim vilja löggjafans að takmarka sem mest happdrættisspil af þessu tagi og gefa háskólanum raunverulegan möguleika á því að afla tekna með því að sitja eitt að markaðinum.

Lög um vöruhappdrætti Sambands ísl. berklasjúklinga er, eins og nafnið bendir til, ekki peningahappdrætti og að því leyti ekki í beinni samkeppni við Happdrætti háskólans þó að vitaskuld sé það samkeppni engu að síður. En vinningarnir eru annars eðlis og annarrar tegundar. Í 1. gr. þeirra laga segir: „Heimilt skal sambandi ísl. berklasjúklinga að reka vöruhappdrætti með eftirfarandi skilyrðum:

a. Hlutatalan má ekki fara fram úr 75 þús. Draga skal í tólf flokkum á ári hverju og skal dráttur fara fram fyrir 1. flokk 10. jan. ár hvert og síðan fimmta dag hvers mánaðar.

b. Hlutina má selja í heilu og hálfu lagi. Iðgjöld fyrir hvern hlut ákveður dómsmrh. að fengnum tillögum frá stjórn Sambands ísl. berklasjúklinga. Vinningar skulu vera að verðmæti samtals a. m. k. 50% af iðgjöldunum samantöldum í öllum tólf flokkum.

c. Dráttur skal fara fram í Reykjavík undir eftirliti nefndar sem dómsmrh. skipar til þess. Nefndin leggur fullnaðarúrskurð á allan ágreining um lögmæti eða gildi dráttar bæði meðan dráttur fer fram og eftir að honum er lokið. Kostnað af þessu ber happdrættið.“

Í 2. gr. segir: „Vinningar í vöruhappdrætti fyrir Samband ísl. berklasjúklinga skulu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti á því ári sem þeir falla til útborgunar.“

Í 3. gr. segir: „Heimild þessi gildir til ársloka árið 1989. Ágóða af happdrættinu skal varið til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir vinnuheimilisins að Reykjalundi, til byggingar og reksturs vinnustofu fyrir öryrkja og til annarrar félagsmálastarfsemi Sambands ísl. berklasjúklinga sem viðurkennd er af ríkisstj.

„Ráðh. setur með reglugerð,“ segir í 4. gr., „nánari ákvæði um starfsemi happdrættisins að fengnum till. frá stjórn Sambands ísl. berklasjúklinga.“

Við lestur þessara laga er athyglisvert að gert er ráð fyrir því að ágóði af Happdrætti SÍBS renni til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir vinnuheimilisins að Reykjalundi og til byggingar og rekstrar vinnustofu fyrir öryrkja og til annarrar félagsmálastarfsemi Sambands ísl. berklasjúklinga. Nú er það þannig að SÍBS er eitt af félagasamtökum Öryrkjabandalagsins. Nú má enginn skilja orð mín svo að ég sé hér að hallmæla eða gera lítið úr merkri starfsemi SÍBS og Öryrkjabandalagsins. Ég er ekki að gera lítið úr mikilli þörf þessara sambanda til þess að fá fé til sinnar starfsemi. En það er einkennilegt og visst ósamræmi í því að samtök innan Öryrkjabandalagsins hafa hér einkarétt á ákveðinni tegund happdrættis, happdrættis sem hefur verið rekið í mörg ár af miklum dugnaði og vonandi með allgóðum tekjum. Síðan er núna gert ráð fyrir því að bandalag, sem þessi samtök eiga aðild að, fái líka rétt til að reka getraunastarfsemi og happdrættisstarfsemi við hliðina á því happdrætti sem SÍBS hefur.

Þannig gæti ég haldið áfram að rekja þessi lög, herra forseti, góða stund enn. Ég er u. þ. b. hálfnaður með þá ræðu sem ég hef hugsað mér að flytja hér í kvöld. Ég hef tekið eftir því að hæstv. forsrh., staðgengill hæstv. dómsmrh., hefur kvatt sér hljóðs, gerði það í framhaldi af þeim fsp. sem ég var að vekja máls á og hafði óskað eftir að fá einhver svör við. Ég geri mér því nokkrar vonir um að ef þessi umr. heldur áfram upplýsi hæstv. ráðh. mig um ýmis atriði sem ég hef verið að spyrjast fyrir um. Það kynni að leiða til þess að ég gæti stytt mál mitt og sparað mér að fara út í ítarlegar útleggingar á ýmsum þáttum þessa máls. Þess vegna mun ég nú senn ljúka máli mínu í bili og sjá þá til hvert framhaldið verður.

En ég vil áður en ég lýk þessum kafla ræðu minnar enn einu sinni ítreka að allur minn málflutningur er borinn fram af fullum velvilja til þeirra samtaka og hreyfinga sem hér eiga hlut að máli. Ég vil ekki láta neinn skilja það svo að ég sé að leggja stein í götu Öryrkjabandalags Íslands, síður en svo. Ég vil gjarnan á næstu vikum og mánuðum ef eftir því er leitað taka þátt í umr. og athugun á því hvernig betur megi standa að málefnum Öryrkjabandalagsins. Mér finnst vel koma til greina og sjálfsagt mál reyndar ef menn eru einhuga um að frv. af þessu tagi eigi rétt á sér og þetta sé skynsamlegt í þágu Öryrkjabandalagsins að þetta frv. verði lagt hér aftur fram í haust og fái þá góða umfjöllun og góðan stuðning. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hér í þingsal ríkir velvilji í garð Öryrkjabandalagsins og auðvitað get ég einn ekki stöðvað eitt eða neitt frv. En ég hef viljað nota tímann til þess að útskýra fyrir þingheimi þann ágreining sem uppi er, þá árekstra sem kunna að leiða af samþykkt þessa frv., af fullri einlægni og með fullri vinsemd gagnvart Öryrkjabandalaginu.

Íþróttahreyfingin hefur haft áhyggjur af þessu máli og talið að hér væri verið að taka spón úr sínum aski og að gera aðför að sínum hagsmunum. Þess vegna þarf enginn að vera hissa á því þó að ég gerist talsmaður þeirra sjónarmiða hér á þingi þar sem ég er starfandi í íþróttahreyfingunni. Það er kannske aðallega vegna þess að íþróttahreyfingin, eins og ég hef sagt hér fyrr í máli mínu, hefur áhyggjur af því að þurfa að standa í samkeppni við jafn ágæt samtök og Öryrkjabandalagið er. Það vill íþróttafólk fyrir alla muni forðast. Það vill helst geta starfað hönd í hönd með öryrkjum vegna þess að kannske fara hugsjónir þessara samtaka saman þegar allt kemur til alls, að efla heilbrigði og heilsu manna og hjálpa þeim sem standa höllum fæti á hverjum tíma að heilsufari og heilbrigði.

Eins og ég segi, herra forseti, mun ég nú láta lokið máli mínu að þessu sinni og sjá til um það hvert framhaldið verður. Ég þakka þingheimi þolinmæðina fram að þessu og forseta.