20.06.1985
Neðri deild: 108. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7074 í B-deild Alþingistíðinda. (6484)

503. mál, getraunir Öryrkjabandalags Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. meiri hl. í þessu máli með fyrirvara og mér þykir rétt að gera grein fyrir því hvers vegna ég gerði það.

Á fundum nefndarinnar kom í ljós að skv. þeim upplýsingum sem við höfðum frá öðrum löndum er það undantekningarlítil regla að ekki sé starfrækt nema eitt lottó og af rekstrarfræðilegum ástæðum mælir allt með því að það sé ekki starfrækt nema eitt lottó. Ég leit svo á að með því að samþykkja þetta frv. hefði dómsmrn. fengið heimild til að veita Öryrkjabandalagi Íslands leyfi til að starfrækja getraunir, en hann gæti — og þann kost vona ég að hann velji — staðið þannig að máli að hann kalli bæði íþróttahreyfinguna og Öryrkjabandalagið fyrir sig, leggi það til að þau standi saman að rekstri á einu lottói. Jafnframt vænti ég þess að ef slíkt samstarf tækist yrði þingheimur sammála um að leyfa ekki fleiri aðilum að fara inn á þennan markað. Því að það sem ég óttast mest með því að velja þá aðferð að fjölga lottóunum er að það komi enn aðrir aðilar og segi: Við viljum fara inn á þennan markað. Þar má nefna Háskóla Íslands, skátana og e. t. v. fleiri.

Eftir að það var upplýst af fulltrúum frá Öryrkjabandalagi Íslands að þeir vildu gjarnan samvinnu leit ég svo á að þessi jarðvegur væri til staðar. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég tel að íþróttahreyfingin hafi í sínu samstarfi við Öryrkjabandalagið með því að styrkja íþróttastarfsemi fatlaðra rétt fram hendi til samstarfs við þessa aðila. Ég er sannfærður um að þessi leið er fær og ég vænti þess að bæði íþróttahreyfingin og Öryrkjabandalagið sameinist um þetta vitandi það að með því að gera þetta er hægt að loka þeirri leið að fleiri aðilar komi inn á þennan markað. Rekstrarfræðilega séð mundi þetta skila mun meiri fjármunum í hagnað því að minna færi í kostnað við að reka starfsemina.

Mér þótti rétt að gera grein fyrir þessari afstöðu minni. Þar sem ég tók ekki til máls við 2. umr. málsins geri ég það nú og kem þessu hér með á framfæri.