15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í dag frá launadeild, fjmrn., þá hefur kennsluskylda breyst frá árinu 1975 þannig: Í forskóla og 1– 6. bekkjar grunnskóla (áður barnaskóla) úr 36 kennslustundum (45 mínútna) á viku í 30 kennslustundir (40 mínútna) á viku. Í 7.–9. bekkjar grunnskóla (áður gagnfræðaskóla) úr 30 (45 mínútna) kennslustundum í 29 (40 mínútna) kennslustundir. Í framhaldsskólum er þetta misjafnt, í sumum úr 30 (45 mínútna) kennslustundum í 26 (40 mínútna) kennslustundir. Í öðrum, t.d menntaskólum og hliðstæðum skólum, úr 27 kennslustundum (45 mínútna) í 26 (40 mínútna) kennslustundir. Þetta eru þær tölur sem ég hef nýjastar og svara fyrir mína hönd því sem hér er til umr. hvað þetta atriði snertir. Aftur á móti hef ég fengið bréf, dags. í fyrradag, fékk það nú í morgun, þar sem Bandalag kennarafélaga segir og vitna ég þá með leyfi forseta í bréfið: „Á starfstíma skóla skila kennarar 46–48 klst. vinnu á viku í dagvinnu.“ Það er atriði sem þarf að kanna. Það þarf að kanna hvort ekki er þörf á að breyta þannig til að til meiri hagkvæmni komi fyrir þjóðfélagið.

Ég vík að því sem fram kom í ræðu hv. 2. landsk. þm., þar sem hann hafði upp eftir mér svör mín við frammíköllum sem urðu til þess að ég hætti í minni ræðu að ræða það mál sem ég hef hvað mest verið ákærður fyrir að hafa fjallað um á þann hátt sem ég gerði. Ég hugsa að ef menn setjast niður og, eins og kom fram í svari við frammíkalli, setjast niður og reikna frá dagafjöldanum í árinu þá frídaga sem allar stéttir hafa, þá er það stóralvarlegt mál hvað þeir eru margir hérlendis. Þeir eru ekki svo margir þar sem ég hef búið erlendis. Þar eru miklu fleiri vinnudagar í árinu. Ég harma það því að fjölmiðlar, Ríkisútvarpið á ég við í þessu tilfelli, sem nú gengur manna á meðal sem útvarp BSRB, skuli taka upp á þann hátt sem það gerði fréttaflutning frá umr. um þetta mál þar sem, í fyrsta sinn að því er mér er sagt, meiri áhersla var lögð á frammíköll en á ummæli eða ræðu viðkomandi þm. Það skilst mér að sé einsdæmi og ber að harma.

Ég komst ekki áfram í minni ræðu vegna þess að frammíköllin stóðu að mér úr öllum áttum og satt að segja áttaði ég mig ekki á því hve margir kennarar sitja á þingi eða þeir sem hafa verið kennarar. En það í minni ræðu sem ekki var afbakað en er tilefni til þess að móðga kennara eða aðra, og þá vegna þess að ég komst ekki áfram í minni ræðu, á því sem varð til þess að móðga þetta fólk vil ég biðja afsökunar. Og ég geri það hér með úr þessum stól vegna þess að það var aldrei ætlun mín að móðga neinn. Og þeir sem hafa staðið í vinnudeilu við mig sem borgarfulltrúa, í tvö kjörtímabil formaður, sem sagt leiðandi í kjaradeilum fyrir hönd Reykjavíkurborgar, hafa ekki hingað til haft neina ástæðu til þess að kvarta undan samskiptum við mig frekar en aðrir þeir sem hafa átt einhver samskipti við mig.

Sem sagt, það sem hefur gefið tilefni til þess að móðga heila stétt manna og kannske fleiri vil ég leyfa mér hér með að taka aftur og ég bið það fólk afsökunar. En ég bið það sama fólk að átta sig á því að í þjóðfélaginu er afbrigðilegt ástand og þetta afbrigðilega ástand er notað á allra handa máta til þess að ófrægja mig persónulega og gera störf mín sem fjmrh. í þessari deilu sem erfiðust. Ég bið því sama fólk og ég tala til nú að greina í sundur árásir, áróður og ósanngirni frá því sem er rétt og satt.

Í ræðu minni byrjaði ég á því, má segja, og hóf mál mitt á því að taka fram að kennarastéttin væri illa launuð. Ég tók fram að það þyrfti að skoða hennar kjör sérstaklega. En ég tók líka fram að þeir sem gera kröfur, í þessu tilfelli kennarastéttin, yrðu þá líka að þola það að auknar kröfur yrðu gerðar til þeirra. Ég talaði um vinnuskyldu kennarastéttarinnar og hafði hugsað mér að bera saman frídaga hennar og frídaga allra vinnustétta en fékk ekki ráðrúm til þess, þannig að eftir stóð það sem hér var kallað fram í og slitrótt svör til hægri og vinstri sem ég var að gefa. Verð ég að furða mig á að slík frammíköll og upplausn skuli hafa verið leyfð á fundinum.

Ég vil segja það að það er umhugsunarefni þegar maður les í ábyrgum blöðum eða gögnum, sem koma fram fyrir alþjóð, að á síðustu 10 árum hafi kennurum fjölgað, eins og það var orðað, um 93% á sama tíma sem nemendum hefur fjölgað um 6%. Er þetta rétt eða er þetta ekki rétt? Það veit ég ekki, en þetta hefur komið fyrir alþjóð. Þetta þarf að kanna. Og hvernig stendur á þessu? Það þarf að koma í ljós. Mér er sagt að það útskrifist yfir 100 kennarar frá Kennaraháskóla Íslands á ári. Ég veit ekki hvað margir kennarar ljúka störfum á hverju ári. En ég efast um að það nái þessari tölu. Það skal enginn skilja orð mín þannig að hver og einn sem útskrifast úr kennaraskóla fái stöðu og fari á launaskrá hjá ríkinu. Það er ég ekki að segja, langt frá því. En eins margir og mögulegt er að koma fyrir hljóta að sækjast eftir störfum hjá ríkinu sem er má segja næstum því eini aðilinn sem ræður kennara í föst störf. Ef ekki, þá er mér spurn: Hvers vegna velur þá einstaklingurinn þessa starfsgrein til frambúðar með námi, ef hann ætlast ekki til þess að þjóðfélagið sjái honum fyrir störfum sem uppalanda? Það er eðlilegt að þeir ætlist til þess að fá atvinnu að námi loknu. En það þarf að kanna hve stór hluti af launakjaravanda eða vanda kennara í launamálum stafar af þessum mikla fjölda af kennurum sem útskrifast á hverju ári. Getur verið að tímum hafi verið fækkað vegna þess að það þurfi að koma kennurum í vinnu? Getur það verið? Tæplega. Það þarf að kanna. Þjóðfélagið hefur ekki efni á að ráða allt það sérmenntaða fólk til starfa í sérgrein þess sem útskrifast úr hinum ýmsu skólum. Þetta er dýrt fyrir lítið þjóðfélag. Þetta eru staðreyndir.

Þegar ég sem fjmrh. er að gera áætlanir, taka við áætlunum frá menntakerfinu eða öðrum stofnunum og horfi á þann mikla vanda sem blasir við á öllum sviðum er mér spurn: Er þá nokkuð óeðlilegt að í sumum greinum Háskólans er takmörkuð innganga, takmarkaður nemendafjöldi á ýmsum sviðum? Er þá ekki rétt að athuga aðra skóla líka sem sérmennta fólk? Og þetta á ekkert síður við kennara en margar aðrar hefðbundnar stéttir, þótt fólk vanti í ýmsar nýjar greinar. Þá hef ég t.d í huga þá þróun, sem við höfum öll horft upp á, í tölvumálum þar sem kvartað er undan því að ríkið fullnumi tölvumenn sem síðan fari í síauknum mæli út á hinn almenna markað.

Ég sem fjmrh. hlýt að vara við þessari þróun. Og fyrir það verð ég að líða ef fólk vill ekki hlusta á sannleikann eða vill ekki hlusta á varnaðarorð þeirra sem eru í trúnaðarstörfum. En ég tala þau sem frjáls maður og sem maður í ábyrgðarstöðu fyrir Alþingi. Ég tel mér það skylt hvað sem það kann að kosta í áróðri andstæðinga á viðkvæmum augnablikum og hvað sem það kann að kosta mig persónulega í pólitísku fylgi. Það getur ekki verið nema í einum tilgangi gert að haga sér í áróðri eins og andstæðingar mínir og Sjálfstfl. hafa gert undanfarið.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst oft sem menntakerfið gefi unga fólkinu meiri fyrirheit en tækifæri eru að loknu námi. Við skulum átta okkur á því, og ég efast um að nokkur mótmæli, að þjóðfélagið hefur takmarkað þensluþol og ég sem fjmrh. verð þá að taka afleiðingum af því að ég vara við þeirri þróun sem hefur verið á mörgum sviðum. En mér er það alveg ljóst að hagsmunahópar hljóta að taka slíkum aðvörunum misjafnlega.

En hitt vil ég segja, að fyrirheitin í upphafi náms og tækifærin sem bíða að námi loknu verða að standast á, ef hver og einn á að geta treyst því að hafa mannsæmandi laun þegar mest á ríður, t.d þegar ungt fólk kemur fullnuma úr námi.

Ég vil endurtaka í lokin að ykkur, kennarastétt, sem ég þekki vel og þar á ég marga vini, margir þar þekkja mig persónulega, og til þeirra nær ekki slíkur áróður sem hefur verið rekinn undanfarna daga, ykkur bið ég afsökunar eins og hv. 2. landsk. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór fram á við mig. Ég bið afsökunar ef ég hef móðgað ykkur og þykist ekki vera minni maður eftir, og geri það frá sama stól, virðulegasta stól landsins, og ég lét þau orð falla sem hafa valdið þessu fjaðrafoki og ekki að ástæðulausu.