13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

71. mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á algjöru áhugaleysi stjórnarflokkanna um að ljúka því verki sem fyrrv. formaður stjórnarskrárnefndar og hæstv. forsrh., Gunnar heitinn Thoroddsen, hóf og starfaði að samfellt með góðri verkstjórn og þó nokkurri fylgni. Frv. liggur fyrir, en upplýst er af hv. fyrirspyrjanda að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi hvorugur haft fyrir því svo mikið sem að svara erindum nefndarinnar. Það er næsta fáheyrt að heilir þingflokkar, sem hafa átt fulltrúa í nefndinni, séu ekki einu sinni bærir til þess vikum, mánuðum og misserum saman að svara einföldu bréfi hvað þá annað. Þrátt fyrir fögur ummæli hæstv. forsrh. í þessu efni ber frekar að líta á verkin en orðin. Í verki hafa þeir sýnt algjört áhugaleysi sitt á þessu máli.