21.06.1985
Efri deild: 108. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7093 í B-deild Alþingistíðinda. (6516)

398. mál, grunnskólar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál á þessu stigi, en reyndar hefur hv. 5. þm. Norðurl. e. tekið af mér ómakið með því að lýsa því yfir að þetta mál yrði ekki afgreitt hér. Það þykir mér gott að heyra því að það er auðvitað fullljóst að við höfum engin tök á því á þessari stundu, þessari vornótt, að ganga frá máli sem er í senn svo viðkvæmt og viðamikið fyrir hóp sem ég fullyrði að þarf að huga sérstaklega að, viðkvæman hóp nemenda sem vissulega þarf að huga að og af fjöldamörgu öðru sem ég ætla ekki að tíunda hér.

Ég bendi á að þeir sem vilja áfram staðnæmast við 8. bekkinn verða að hugsa um að sá bekkur gefur eins og nú er engin réttindi til áframhaldandi náms. Þar er engum áfanga lokið nema bekknum sjálfum. Menn verða þess vegna að huga að þessu máli öllu í heild áður en þeir afgreiða það.

Ég ætla ekki að fara að taka upp hanskann fyrir hæstv. menntmrh. þó að mér þættu það nokkuð þung orð sem hér féllu áðan í garð hæstv. ráðh. En hér f hv. Ed. er a. m. k. augljóst að ekki hefur verið lagst með neinum ofurþunga á þetta mál, einfaldlega vegna þess að það er fyrst að líta dagsins ljós hjá okkur núna. Dagsbirtan er sem betur fer þannig úti að það er að líta dagsins ljós núna. (BD: Þm. veit vel hvað ég er að tala um.) Nei, mér er það ekki ljóst nema þá að hv. þm. sé að beina enn þyngri skeytum að hæstv. menntmrh. en ég átti von á. Hér í hv. Ed. hefur enginn lagst með ofurþunga á þetta mál einfaldlega vegna þess að það hefur ekki verið hérna til umr. Það er fyrst að koma til okkar núna.

Ég segi aðeins að illa er komið íslenskri kennarastétt ef sú fullyrðing hv. þm. er rétt að enginn maður í skólastarfi mæli því bót að menn nái allir sem einn eðlilegum áfanga út úr grunnskólanum. Þá er illa komið íslenskri kennarastétt.