21.06.1985
Efri deild: 109. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7095 í B-deild Alþingistíðinda. (6524)

210. mál, selveiðar við Ísland

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hefði á nákvæmlega sama hátt og hv. þm. Egill Jónsson getað borið fram óskir um að fá að skoða með sama hætti ýmis þau frumvörp sem hafa verið afgreidd að undanförnu — við skulum segja frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins sem naumur tími gafst til að skoða. Það skal viðurkennt að það er stuttur tími til að skoða þetta mál, en þegar hv. þm. Egill Jónsson kvartar yfir því að fá ekki að skoða þetta mál eins rækilega og honum þykir ástæða til vil ég benda á að við stjórnarandstæðingar höfum af mikilli hlífisemi við þessa stjórn, (Gripið fram í: Vorkunnsemi.) vorkunnsemi líka, gefið eftir og látið mál ná fram að ganga. Mér kemur þessi afstaða hans ákaflega undarlega fyrir sjónir og ég sé ekki, virðulegi forseti, að við ættum að eyða miklum mun lengri tíma í þetta mál. Ég legg þess vegna til að um það verði greidd atkv. hið fyrsta.