21.06.1985
Efri deild: 109. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7096 í B-deild Alþingistíðinda. (6526)

210. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Ég sagði það í mínum upphafsorðum að ég gerði mér grein fyrir því að afgreiðsla þessa máls væri komin undir velvilja hv. Ed. og ég gerði mér fulla grein fyrir því að það væri ekki hægt að afgreiða þetta mál nema í góðu samkomulagi. Ég hafði skilið það svo á viðræðum formanna þingflokka að það gætu verið möguleikar á því, án þess að ég ætli á nokkurn hátt að fara að vitna í það. Hér er vissulega um mjög mikilvægt mál að ræða sem er búið að veltast fyrir þinginu í tvö ár. Þar er ekki hv. Ed. um að kenna. Það er fyrst komið hingað í nótt. Ég vil ekki þreyta hv. þingdeild á nokkurn hátt eða gera tilraun til að þvinga mál fram gegn vilja þm. En ég átti sem sagt von á því, vegna þess hve margir töldu sig reiðubúna að afgreiða málið og sjútvn. vildi gera það, að aðrir, sem líkaði málið miður vel, gætu sætt sig við það þótt þær væru ekki afar hrifnir af því. Þannig hefur það oft verið í þinginu. Það er ekkert einsdæmi að mál hafi verið afgreidd á síðustu stundu og þegar um er að ræða mál sem búið er að liggja hér í tvö ár í þinginu og menn þekkja mjög vel ætti það að vera mögulegt. En ég vil algerlega leggja það í vald virðulegs forseta hvað gert er í þessari stöðu.