13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

71. mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er greinilegt að þeir sem ferðinni ráða hér á hv. Alþingi í þessu efni, sem hér er nú verið um að ræða, virðast ekki hafa jafnmikinn áhuga á að ljúka því starfi og þeir höfðu þegar um var að ræða breytingu á kosningalögum. Þá var lögð nótt við dag af ákveðnum aðilum til að knýja fram breytingar á þeim þætti mála og tókst, en í þessum þættinum liggur allt eftir. Ég tek undir það sem hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði um þá nefnd sem skipuð var og er að störfum, það ég best veit, að hún hraði störfum og ljúki þeim, og ég vildi gjarnan spyrja hæstv. forsrh. hvað störfum þessarar nefndar líður og hvenær þess megi vænta að hún skili af sér þeim störfum og tillögum sem henni var falið að inna af hendi. Það er full ástæða til að ítreka og reka á eftir slíku starfi, ekki síst í ljósi þess að það var eitt af loforðum allra formanna stjórnmálaflokkanna sem hér áttu setu á Alþingi að slíkt skyldi gert. Enn hefur lítið sést af því þó að liðin séu nú hátt í tvö ár síðan lofað var að skipa þessa nefnd og hún skyldi setjast að störfum.

Ég ítreka, ef hæstv. forsrh. gæti upplýst það: Hvað líður störfum þessarar nefndar? Má ekki vænta þess að hún fari að skila af sér tillögum til leiðréttingar á því ófremdarástandi sem er að því er þennan þátt mála varðar meðal þegna í þjóðfélaginu?