13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

71. mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. 5. þm. Vestf. að nefnd sú, sem skipuð var af þingflokkunum til að vinna að því að skoða jöfnuð á milli dreifbýlis og þéttbýlis í tengslum við stjórnarskrána, þarf að ljúka störfum. Eins og margsinnis var rakið hér var þessu lofað af þingflokkunum þegar breyting var gerð á stjórnarskránni vegna breytingar á kosningalögum. Það var ekki mitt verkefni að kalla þá nefnd saman eða halda henni að störfum. Ég tók það hins vegar að mér þegar undan var kvartað og fékk tilnefningar frá öllum þingflokkum og sat einn fund með nefndinni. Mér sýndust þetta allt vera úrvalsmenn og áhugasamir mjög um verkefnið. Ég hef síðan ekki fylgst með störfum þeirrar nefndar, enda er hún ekki á mínum vegum. En ég efast ekki um að þeir áhugasömu menn drífa starf hennar áfram.