13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

71. mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í þær umr. sem hafa orðið í nefndinni um hin ýmsu mál. Hitt get ég upplýst að hv. 5. þm. Vestf. hefur tekið meginpartinn af þeim mínútum sem nefndin hefur starfað í langar ræður, að því er hann segir til að upplýsa okkur hina um grundvallarmál sem við höfum aldrei hugleitt. Og meðan nefndarstarfið fer fram í þeim einræðum hv. þm. er ekki von á því að vel fari. Og ég vil alveg frábiðja mér, þó ég hafi orðað þetta eins og ég gerði, vantrausti á formann nefndarinnar um þetta mál. Hitt er annað mál að hann hefur átt mjög erfitt með að hemja málgleði hv. þm. í nefndinni.