13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

91. mál, launakjör kvenna og karla

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á Alþingi 27. mars s.l. var svofelld fsp. lögð fyrir hæstv. forsrh.:

„Er forsrh. tilbúinn til að beita sér fyrir því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að samanburðarkannanir verði gerðar á launakjörum kvenna og karla í öllum starfsstéttum, jafnt á launatöxtum sem öðrum kjaraþáttum, og að niðurstöður liggi fyrir í lok samningstímabils á vinnumarkaðnum?“

Í svari hæstv. forsrh. við þessari fsp. kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Í raun og veru gæti ég látið nægja sem svar við þessari fsp. eitt já. Ég er tilbúinn að beita mér fyrir því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að samanburðarkannanir eins og hér er spurt um verði gerðar.“

Enn fremur sagði hæstv. forsrh.:

„Ég er tilbúinn að beita mér fyrir athugun af þessu tagi og er tilbúinn að láta fara fram athugun á því hvað hún mundi kosta. Þá er ég tilbúinn að beita mér fyrir því að fjárveiting verði veitt í þessu skyni.“

Nú er mér kunnugt um að strax í apríl beitti forsrn. sér fyrir athugun á því hvernig best mætti standa að slíkri könnun. Var m.a. í því skyni leitað til framkvæmdanefndar um launamál kvenna um að nefndin léti í té tillögur sínar um það, hve nánar tilgreind og skýrð ættu að vera markmiðin með samanburðarkönnun af þessu tagi. Í maí s.l. sendi framkvæmdanefnd um launamál kvenna forsrn. bréf með ítarlegum tillögum sínum um hvernig best yrði staðið að könnuninni, hvaða markmiðum þyrfti að ná fram og að hverju upplýsingaöflunin ætti að miða.

Nú, hálfu ári síðar, er ekki vitað á hvaða stigi þessi könnun er eða hvort hún hefur í raun hafist. En vænta verður þess miðað við þann góða vilja og jákvæðu viðbrögð sem fram komu hjá forsrh. á Alþingi s.l. vetur.

Því er nú spurt: „Hefur sú samanburðarkönnun hafist á launakjörum kvenna og karla í öllum starfsstéttum, jafnt á launatöxtum sem öðrum kjaraþáttum, sem forsrh. tilkynnti á Alþingi 27. mars s.l. að hann væri tilbúinn að beita sér fyrir í samráði við aðila vinnumarkaðarins?