13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

96. mál, nám á háskólastigi á Akureyri

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh. um nám á háskólastigi á Akureyri. Það er 96. mál á þskj. 100. Fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hvernig hyggst menntmrh. fylgja eftir niðurstöðum nefndar um nám á háskólastigi á Akureyri?

2. Má ætla að slíkt nám hefjist á Akureyri á næsta ári?“

Nefnd sú, hverrar verk hér er rætt um, var skipuð af fyrrv. menntmrh. 27. maí 1982 og skilaði áliti í maí s.l. Tillögur nefndarinnar eru í fjórum liðum. Þar af er einn um nám á háskólastigi á Akureyri. Nefndin gerir það að tillögu sinni að það nám hefjist á næsta ári, haustið 1985, a.m.k. í einhverjum greinum, sem til eru nefndar, og verði tillögur nefndarinnar helst að fullu komnar til framkvæmda á árinu 1986.

Nefndin gerir um það tillögur í stuttu máli að kennsla á háskólastigi verði tekin upp á Akureyri á vegum Háskóla Íslands og nefnir til nokkrar greinar, svo sem eins og tölvugreinar, fyrrihlutanám í viðskiptafræði, greinar sem nýtast mundu sem áfangi til BA-prófs í bóklegum greinum, námsefni fyrsta árs í verkfræði og raunvísindum og auk þess í nokkrum klínískum greinum, þ. á m. í hjúkrunarfræði, en eins og alkunnugt er er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum í landinu. Auk þess gerir nefndin tillögur um nám á æðri skólastigum í tónmennt, listnámi og fjallar um fræðilega fyrirlestra. Enn fremur um rannsóknir og annað menningarstarf þó það sé ekki beint það sem þessi fsp. fjallar um.

Nefndin gerði einnig í starfi sínu könnun á því hversu umfangsmikið mætti vænta að nám á háskólastigi yrði á Akureyri ef í boði væri. Kannað var viðhorf nemenda í Menntaskólanum á Akureyri til að hefja nám eða jafnvel að ljúka námi á Akureyri stæði það til boða. Könnunin náði til um 200 nemenda. Þar af svöruðu 175. Þetta voru nemendur á öðru og þriðja ári. Talið var eðlilegt að kanna hug þeirra fremur en að taka með nemendur á fyrsta ári og nemendur á síðasta námsári sem þegar eru í mörgum tilfellum búnir að ákveða námsbraut sína. Það kom í ljós að rúm 75% af þeim sem spurðir voru vildu hefja nám á háskólastigi á Akureyri, stæði það til boða, og rúm 52% vildu stunda allt sitt háskólanám á Akureyri ef það stæði til boða.

Af þessari niðurstöðu dregur nefndin síðan þá ályktun að fjöldi nemenda sem stunda mundi nám á háskólastigi yrði á stuttum tíma ekki færri en 200. Auk þess er rétt að minna á í þessu sambandi að stofnaður var formlega og settur í fyrsta sinn á þessu hausti verkmenntaskóli á Akureyri. Væntanlega munu vaxandi umsvif þess skóla hafa áhrif á þessa tölu til verulegrar hækkunar í framtíðinni, en þar munu verða innan tiltölulega fárra ára, að mati forráðamanna þess skóla, um 1000 nemendur við nám.

Ég vil að lokum, herra forseti, geta þess að fyrir þessu máli er mjög mikill áhugi í héraði og reyndar í fjórðungnum öllum. Heimamenn fylgjast grannt með því hver viðbrögð þessi tillaga stjórnskipaðrar nefndar um háskólanám á Akureyri muni hljóta. Því er hæstv. menntmrh. hér spurður um það hvort vænta megi þess að tillögum nefndarinnar verði hrundið í framkvæmd og þá innan þeirra tímamarka sem nefndin sjálf gerir tillögu um.