13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

108. mál, skipti eða sala aflakvóta

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég þakka sjútvrh. fyrir svör hans svo langt sem þau náðu. Ég er sammála hæstv. ráðh. um það að kvótakerfið væri óframkvæmanlegt ef ekki væru heimildir fyrir viðskiptum milli útgerðar og skipa. Ástæðan fyrir því er sú, og það er kannske megingalli þessa kvótakerfis, að það bindur menn við einhver meðaltöl um árangur úr fortíðinni og er þess vegna stórhættulegt, þegar til framtíðar er litið, að því leyti að það er hætt við því að það setji skorður við nýjungum, breytingum. Eina undankomuleiðin í þessu kerfi frá því er að sjálfsögðu heimildin um undanþágu, um frávik frá þessu kerfi. Af þessu tilefni væri kannske ástæða til að fara þess sérstaklega á leit við hæstv. ráðh. að reynslan af þessu kerfi það sem af er verði tekin til sérstakrar rannsóknar og skýrsla um það gefin á Alþingi Íslendinga.

Einn helsti tilgangurinn með kvótakerfi var sá að draga úr útgerðarkostnaði vegna takmörkunar á veiðanlegum afla. Þá er spurningin: Hefur þetta kvótakerfi skilað tilætluðum árangri? Hefur raunverulega tekist að draga úr tilkostnaði eða virkar það kannske að sumu leyti öfugt? Virkar það þannig að með því að úthluta bundnum kvóta á skip er skipinu haldið til veiða með öllum þeim útgerðar- og olíukostnaði sem því fylgir, en það sem upp úr krafsinu hefst, sá takmarkaði afli sem leyfður er með kvótum, er kannske í mörgum tilvikum ekki nægjanlegur til þess að réttlæta útgerðarkostnaðinn.

Ég endurtek: Það væri ástæða til og gefst kannske tækifæri til þess síðar að fara þess á leit við hæstv. ráðh. að um þetta verði gerð sérstök skýrsla og lögð fyrir Alþingi. Eins og menn minnast, þá er kvótakerfið tilraun. Því var yfir lýst á sínum tíma að árangur þess yrði síðan metinn. Nú stöndum við frammi fyrir því á þessu hausti að þurfa að taka ákvarðanir um það, hvort framlengja á þetta kerfi eða gera á því breytingar eða jafnvel víkja algerlega frá því. Það verður ekki gert nema fyrir liggi gaumgæfileg úttekt á árangrinum, kostum og göllum.

Hæstv. ráðh. sagði það ekki í verkahring síns rn. að upplýsa okkur um það hvert væri markaðsverð á þorski í slíkum viðskiptum. Um það ganga miklar tröllasögur í verstöðvum landsins. Menn kannast við að ástandið í útgerð og fiskvinnslu er ekki gott. Það er talað um að hæstv. ríkisstj. muni einhvern næstu daga taka ákvörðun um gengislækkun. Það er upplýst að hæstv. forsrh. getur ekki flutt stefnuræðu sína af einfaldri ástæðu. Stefnan er ekki fundin enn þá. Ef mikil brögð eru að því að útgerðir treysti sér til að greiða viðbótarverð umfram umsamið fiskverð, þá kann það að benda til þess að afkoman sé ekki svo slæm. Kannske staðfestir þetta það, sem við raunar vitum, að hún er mjög misjöfn. Sumar útgerðir eru vel reknar, bera sig betur en aðrar og hafa kannske efni á því að greiða hærra verð fyrir aðgang sinn að þessari auðlind. Og það væri mjög fróðlegt, hvort heldur rn. telur það í sínum verkahring eða ekki, að fá slíkar upplýsingar fram í dagsljósið.

Hæstv. ráðh. sagði, að því er varðaði hlut áhafna, að allur fiskur, sem á land berst, væri veiddur af sjómannshöndum og þeir sem veiða þennan fisk fengju sinn aflahlut. Það var ekki mín spurning. Að sjálfsögðu fær viðtökuútgerðin, viðtökuskipið, sinn hlut af veiddum afla skv. hlutaskiptareglum. En hver er hlutur sjómanna á þeim skipum sem gerð eru út af útgerðum, sem selja sinn kvóta, afsala sér heimildum til veiðanna? Þessar útgerðir fá greiðslu fyrir þann kvóta sem þær afsala sér. Ég spyr og spyr enn og vænti svara frá hæstv. ráðh.: Fá þeir sjómenn, sem þarna eiga hlut að máli, ekkert í sinn hlut af því verði, þeim viðskiptum sem þarna hafa átt sér stað?