13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

109. mál, lífeyrismál sjómanna

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Á vegum sjútvrn. er ekki unnið að endurskoðun á lögum eða reglum er lúta sérstaklega að því að tryggja öllum sjómönnum sömu lífeyrisréttindi við 60 ára aldur. Rétt er að minna á að með lögum nr. 48/1981 var lögum um Lífeyrissjóð sjómanna breytt á þann veg að ellilífeyrisaldur sjómanna var lækkaður í 60 ár að uppfyllum vissum skilyrðum. Lagafrv. var flutt af þáv. fjmrh. Í framhaldi af lagasetningunni mun fjmrh. hafa skipað nefnd þann 6. des. 1982 sem mun hafa fjallað um það með hvaða hætti Lífeyrissjóður sjómanna og aðrir lífeyrissjóðir, er hafa sjómenn innan sinna vébanda, geta staðið undir þeim kostnaðarauka sem af lækkun ellilífeyrisaldurs sjómanna stafar.

Þann 1. júní s.l. skipaði sjútvrh. nefnd sem í eiga sæti fulltrúar sjómanna og útvegsmanna svo og sjútvrn. og fjmrn. Í skipunarbréfi til nefndarmanna segir svo:

„Undanfarið hafa farið fram allmiklar umræður um lífeyrismál sjómanna. Fulltrúar Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hafa farið þess á leit við sjútvrh. að hann beiti sér fyrir lagasetningu í þá veru að stofn fyrir iðgjald til lífeyrissjóða sjómanna verði samræmdur og verði hinn sami fyrir alla sjóðfélaga, sem stunda sjó, þannig að iðgjald verði framvegis greitt af heildarlaunum allra sjómanna. Þessar hugmyndir hafa mætt andstöðu útgerðarmanna, enda um talsverðan kostnaðarauka að ræða fyrir útgerðina ef til þessarar breytingar kæmi. Jafnframt því telja útgerðarmenn að mál þetta sé fyrst og fremst samningamál.

Að þessu afhuguðu og með hliðsjón af stöðu annarra mála, sem þessa aðila varða, hefur rn. ákveðið að láta kanna mál þetta nánar og skipa nefnd til að fjalla um og gera tillögur um málið. Í upphafi var gert ráð fyrir að nefndin skilaði áliti sínu í lok sept., en af því hefur ekki orðið. Mun að því stefnt að nefndin skili áliti í þessum mánuði. Gert er ráð fyrir að tillögur nefndarinnar verði lagðar fyrir Alþingi og við það miðað að þær gætu tekið gildi á næsta ári.“

Um þetta hef ég í sjálfu sér ekki meira að segja. En ég veit hins vegar að hæstv. fjmrh. hefur að sjálfsögðu með höndum upplýsingar um það mál sem hér er sérstaklega spurt um, þ.e. að tryggja öllum sjómönnum sömu lífeyrisréttindi við 60 ára aldur.