13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

109. mál, lífeyrismál sjómanna

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir þau svör sem gefin hafa verið við fsp. minni. Það kom greinilega fram að þeir eru sammála því sjónarmiði að við samræmingu á lífeyrisréttindum sjómanna verði að ganga út frá því að allir sjómenn fái þennan rétt við 60 ára aldur. Þess vegna sé ekki ágreiningur um það heldur hitt, hvernig þessi lífeyrisréttur sjómanna við 60 ára aldur verði fjármagnaður. Mér skildist af svari hæstv. sjútvrh. að hann vonaðist eftir nál. um þessi mál í þessum mánuði og hann gerði ráð fyrir að nýtt kerfi í þessum efnum gæti tekið gildi á næsta ári.

Vandinn í þessu máli hefur auðvitað verið sá, að menn hafa viljað fá réttinn, en það hefur gengið illa að fá menn til að samþykkja að borga fyrir hann. Annars vegar hafa verið uppi hugmyndir um að þetta yrði greitt með framlögum úr ríkissjóði. Hins vegar hafa verið uppi hugmyndir um að iðgjaldastofninn af launum sjómanna verði hækkaður verulega frá því sem verið hefur. Sjómannasamtökin, þ.e. Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, hafa verið tilbúin fyrir sitt leyti að fallast á það, en útgerðin, sem greiðir einnig iðgjöld til lífeyrissjóðanna, hefur ekki fallist á það fyrirkomulag.

Ljóst er að ef þetta heldur áfram með þeim hætti sem verið hefur í mörg ár, þá skapar það verulegan vanda og misrétti. Sem dæmi um þann vanda sem hér er við að glíma má nefna það sem gerst hefur í Lífeyrissjóði Vestmannaeyja. Þar var ákveðið á fundi 21. okt. 1982 að hefja greiðslur ellilífeyris til sjómanna með sama hætti og Lífeyrissjóður sjómanna gerir og greiðslan var skuldfærð á ríkissjóð. Á fulltrúafundi sjóðsins 24. okt. 1982 var samþykkt samhljóða að breyta reglugerð sjóðsins til samræmis við þær breytingar sem gerðar höfðu verið á Lífeyrissjóði sjómanna hvað varðar rétt til töku ellilífeyris við 60 ára aldur.

Þetta er dæmi um þann stóra vanda sem hér er um að ræða. Í Lífeyrissjóði Vestmannaeyja voru snemma á þessu ári 14 sjómenn, sem nutu þessara sérstöku lífeyrisgreiðslna frá 60 ára aldri, þó að ekki hefði verið af aðilum aflað sérstakra tekna til að standa undir þessum útgjöldum.

Það er eðlilegt að stjórn lífeyrissjóðsins reyni að koma til móts við sitt fólk. En hitt er auðvitað stórhættulegt ef það gerist víða án þess að um leið sé tryggt hvernig lífeyrissjóðirnir geta í raun og veru staðið undir þessu án þess að ganga á sinn iðgjaldsstofn umfram það sem er varðandi önnur lífeyrisréttindi.

Mér heyrist á hæstv. ráðh. að þetta mál sé á réttri leið og vona að við fáum fréttir af því eftir áramót að lagt verði fram á Alþingi frv. um málið til að taka af tvímæli um að allir sjómenn eigi jafnan rétt við 60 ára aldur. Ég skil yfirlýsingu ríkisstj. svo að ætlunin sé að leggja fram slíkt stjfrv.