13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

109. mál, lífeyrismál sjómanna

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þessi mál hafa verið til meðferðar um nokkurt árabil. Það sem gerðist í tíð fráfarandi ríkisstjórnar var þetta:

Í fyrsta lagi var lögum um almannatryggingar breytt til þess að tryggja sjómönnum þessi réttindi við 60 ára aldur. Í öðru lagi var lögum um Lífeyrissjóð sjómanna breytt til þess að tryggja sjómönnum þessi réttindi við 60 ára aldur. Og í þriðja lagi var skipuð nefnd 6. des. 1982 sem fékk þessi mál til meðferðar. Sú nefnd skilaði áliti eftir að núverandi ríkisstjórn tók við.

Ásakanir í þessum efnum um loforð frá fyrri tíð, sem hafi verið svikin, eru auðvitað ekki innlegg í þessar umræður að mínu mati. Ég tel að það hafi aldrei legið fyrir að hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar að ríkissjóður ætti skilyrðislaust að taka þennan kostnaðarauka á sig. Ég tók það a.m.k. fram fyrir mitt leyti aftur og aftur við samtök sjómanna að um það væri ekki að ræða að slíkt loforð lægi fyrir af hálfu þáverandi ríkisstjórnar. Ég hygg að hæstv. sjútvrh. geti staðfest það vegna þess að við vorum saman í þessum viðræðum við Farmanna- og fiskimannasambandið og Sjómannasambandið á sínum tíma. Það er heldur ekki aðalatriðið í þessu máli hvort ævinlega þarf að stökkva hér upp í ræðustóla til þess að nudda mönnum upp úr svikum eða ekki svikum, heldur er hitt aðalatriðið að menn geri sér grein fyrir því og viðurkenni í fyrsta lagi að hér er um að ræða stóran vanda og í öðru lagi að menn séu sammála um hvernig á að taka á þeim vanda, þannig að allir sjómenn eigi rétt á lífeyri við 60 ára aldur með þessum hætti. Sú afstaða hefur raun og veru ekki legið fyrir. En ég tel að hún liggi nú fyrir með þeirri yfirlýsingu sem fram er komin hjá sjútvrh. og fjmrh. Skæting hv. 3. þm. Vestf. læt ég mér að öðru leyti í léttu rúmi liggja.