13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

114. mál, Greiningastöð ríkisins

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. ráðh. að nú á næstu dögum verði lögð fram þáltill. um þetta efni þó að vísu megi segja að það hafi tekið töluvert langan tíma að komast að niðurstöðu og leggja þetta mál hér fyrir Alþingi. Ljóst er að jafnvel þótt Alþingi verði sammála um með hvaða hætti eigi að taka á þessu máli um framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins muni það taka nokkurn tíma. Miðað við það fjármagn t.a.m. sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur til umráða er borin von að það geti orðið á næstu árum nema veruleg breyting verði þar á og framkvæmdasjóðurinn fái aukið fjármagn eða greiningarstöðinni verði með öðrum hætti tryggt fjármagn. Þegar til þess er litið að þetta getur allt tekið nokkurn tíma er auðvitað brýnt að finna bráðabirgðalausn fyrir þá starfsemi sem fram fer í Kjarvalshúsi.

Auk ákvæðis til bráðabirgða þar sem fjallað var um þá nefndarskipan sem hér um ræðir var einnig annað ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að menntmrn. skuli þegar í stað gera ráðstafanir til að leigja eða kaupa hentugt bráðabirgðahúsnæði fyrir starfsemi Athugunar- og greiningardeildarinnar í Kjarvalshúsi.

Í beiðni um fjárframlag til Kjarvalshúss og nýjar stöðuveitingar kemur fram að í samræmi við bráðabirgðaákvæðið í lögunum um málefni fatlaðra voru á árinu 1983 fest kaup á húseigninni að Sæbraut 2 og átti þar með að bæta úr því neyðarástandi sem ríkt hefur. Áætlað er að hefja starfsemi að Sæbraut 2 haustið 1984, en nýjar stöðuheimildir eru forsenda þess að hægt sé að auka þjónustumöguleika greiningarstöðvarinnar í Kjarvalshúsi.

Ljóst er að þarna þarf verulega úr að bæta vegna þess að það er um tveggja ára biðlisti að koma börnum að í þessari athugunar- og greiningardeild og nú eru 65 börn á biðlista. Því er auðvitað brýnt að þessar stöðuheimildir fáist. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvað fyrirhugað sé í því efni. Verður það tryggt á fjárlögum nú að þessar stöðuheimildir fáist til þess að hægt sé að taka þetta bráðabirgðahúsnæði notkun?