15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

Um þingsköp

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal eingöngu halda mig við þingsköpin í þeim orðum sem ég segi hér. Það sem hér hefur gerst er það að hæstv. forseti hefur í raun slitið umr. um umræðuefni sem var hér í gangi og hafði verið vakið, en hafið umr. um annað, án þess einu sinni að fresta umr. um það umræðuefni sem áður var hér til umfjöllunar. Ég veit ekki hver meining forseta er, hvort hann telur það mögulegt að vera með tvö umræðuefni undir samtímis. Ég hygg að það hafi aldrei verið gert að hafa tvö umræðuefni undir samtímis í umfjöllun hér í þinginu og að það sé með öllu ótækt.

Það hefur að vísu komið fyrir að menn hafi vakið máls á sama umræðuefninu fleiri en einn og þá hafi einhverjum verið hleypt að fyrr en ella í umr. En hér er alls ekki um það að ræða. Hér er um tvö umræðuefni að ræða og tvo málshefjendur utan dagskrár um sitt umræðuefnið hvorn. Ég geri kröfu til þess að þeirri umr. sem var hafin hér áðan verði haldið áfram þar til henni er lokið og síðan verði hið síðara umræðuefni tekið fyrir.