13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

117. mál, aðveitustöð hjá Prestsbakka

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Rafmagnsmál sveitanna austan Mýrdalssands hafa nú í langa tíð verið í megnasta ólagi. Íbúar og forráðamenn sveitarfélaganna þar eystra hafa á undanförnum árum ítrekað vakið athygli á þessu stóra vandamáli byggðarlags síns sem stendur allri atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum. Hvergi á landinu eru t.a.m. dísilstöðvar keyrðar eins mikið og á þessu svæði nema í Grímsey, þar er notkun þeirra aðeins meiri.

Árið 1983, 3. júní, gerði hreppsnefnd Kirkjubæjarhrepps eftirfarandi bókun og sendi hæstv. iðnrh. ásamt þm. Suðurl.:

„Hreppsnefnd Kirkjubæjarhrepps, Vestur-Skaftafellssýslu, harmar þá töf sem fyrirsjáanleg er á framkvæmdum við Suðurlínu og beinir þeim tilmælum til þm. Suðurl. að þeir standi allir fast saman um það að Suðurlína verði forgangsverkefni á árinu 1984, eins og hæstv. iðnrh. hafði látið um mælt. Í samþykkt þessari er ítrekað mikilvægi Suðurlínu ásamt tilheyrandi spennustöð við Prestbakka á Síðu fyrir sveitina milli sanda.“

12. mars 1984, þegar ljóst var að Suðurlína yrði tekin í notkun á árinu, skrifar svo atvinnumálanefnd Kirkjubæjarhrepps bréf til stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins og stjórnar Landsvirkjunar.

Atvinnumálanefndin beinir þeim eindregnu tilmælum til þessara stjórna að hvergi sé hvikað frá þeirri áætlun Rafmagnsveitna ríkisins að sett verði upp og tekin í notkun aðveitustöð við Prestbakka á Síðu 1985.

Tildrög þessara bréfa atvinnumálanefndarinnar eru þau að 10. nóv. 1983 var haldinn fundur hjá Rafmagnsveitum ríkisins þar sem mættir voru fulltrúar Rafmagnsveitnanna og fulltrúar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Þeir ræddu um hugsanlega staðsetningu nýrra iðnfyrirtækja á Suðurlandi með tilliti til raforkunotkunar. Þar kom fram að stofnlínukerfi Vestur-Skaftafellssýslu er það veikt að útlokað er að staðsetja þar fyrirtæki og jafnvel ekki einu sinni að stækka þau sem fyrir eru. Þetta kemur fram í bréfi sem sent var út eftir fundinn til Samtaka sveitarfélaga þar sem farið var fram á að þessi staðreynd sé höfð í huga þegar nýir iðnaðarkostir eru skoðaðir.

Í þessu bréfi frá Rafmagnsveitum ríkisins er þess einnig getið að reiknað sé með aðveitustöð við Prestbakka á Síðu innan fárra ára. Það voru þessi orð, „innan fárra ára“, sem urðu kveikjan að því bréfi sem atvinnumálanefndin sendi frá sér og ég gat um áðan.

Herra forseti. Allar stofnlínur í sveitunum sem þarna um ræðir eru einfasa. Álagið á línurnar er komið í algjört hámark. Kerfi þetta hefur takmarkaða flutningsgetu og er stórhættulegt vegna skref- og snertispennu í bilanatilvikum. Bygging aðveitustöðvar við Prestbakka er til verulegra bóta fyrir spennuástandið á þessu svæði. Útilokað er fyrir íbúa þessa byggðarlags að breyta frá olíuhitun yfir í rafhitun. Möguleikar til aukins atvinnureksturs, stofnun nýrra fyrirtækja til að taka við auknu vinnuafli, eru útilokaðir því að í dag er staðan þannig að þeir bændur og aðrir atvinnurekendur sem þarna voru fyrir fá hvergi nærri þá raforku sem þeir þarfnast. Ástandið er sem sé óviðunandi. Fyrsta skrefið í átt til úrbóta var stigið þegar Suðurlina var tekin í notkun. Næsta skref er aðveitustöð við Prestbakka á Síðu.

Við spurningunni hvort staðið verði við framkvæmdaáætlun RARIK og aðveitustöðin byggð á árinu 1985 hafa sveitarstjórnarmönnum Kirkjubæjarhrepps borist svör frá Rafmagnsveitum ríkisins. Í þeim kemur fram að það, hvort staðið verði við gerða áætlun, sé undir stjórn Landsvirkjunar komið, en Landsvirkjun mun koma til með að eiga hluta í aðveitustöðinni og verður því fyrir sitt leyti að samþykkja framkvæmdaáætlunina. Stjórn Landsvirkjunar hefur hins vegar ekki enn svarað og því ber ég fram þessar spurningar til hæstv. iðnrh.:

Verður staðið við gerðar áætlanir um uppsetningu aðveitustöðvar hjá Prestbakka á Síðu árið 1985?

Ef svo verður, hvenær má þá búast við að stöðin verði tekin í notkun og hver mun annast framkvæmdir við verkið?