13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

141. mál, útgjaldaauki ríkissjóðs vegna kjarasamninga

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að beina fsp. til hæstv. fjmrh. um útgjaldaauka ríkissjóðs vegna kjarasamninga opinberra starfsmanna:

„1. Hversu hárri fjárhæð hefðu launagreiðslur til ríkisstarfsmanna, sem féllu niður á meðan á verkfallinu stóð, numið?

2. Hver er áætlaður útgjaldaauki ríkissjóðs vegna kauphækkana ríkisstarfsmanna.

a. á mánuði,

b. á einu ári?

3. Hversu stór hluti útgjalda ríkissjóðs má ætla að skili sér aftur í ríkissjóð í formi beinna og óbeinna skatta ef tekið er tillit til margfeldisáhrifa aukinnar neyslu?“

Herra forseti. Þetta eru einfaldar og skýrar spurningar. Þær eru um tölulegar upplýsingar. Þeim þarf ekki að fylgja úr hlaði að öðru leyti en því að vekja athygli á einu.

Menn minnast þess að hv. 1. þm. Suðurl., Þorsteinn Pálsson, sagði í sjónvarpi, frægu sjónvarpsviðtali áður en kom til kjarasamninga við opinbera starfsmenn og meðan sáttatillagan um 10% kauphækkun á einu ári, sex plús fjögur, var enn til umræðu, að af samþykkt slíkrar tillögu hlyti að leiða atvinnuleysi og óðaverðbólgu. Svo himinhátt fannst hv. þm. að sáttatillagan færi umfram hinn nú löngu gleymda kjararamma ríkisstj. sem átti að vera upp á 5% og átti að vera þær skorður sem allt varð að miðast við ef ekki ætti allt að fara á hvolf í þjóðfélaginu.

Síðan hófu þeir sitt stríð og eftir að þeir voru búnir að lama þjóðfélagið í einn mánuð gengu þeir að samningaborði, kapparnir allir, með öll loforðin gjörsamlega gleymd og fyrir bí og skrifuðu undir mánuði of seint, eftir að hafa verið gersigraðir af samtakamætti fólksins í landinu, 20, 22, 23%, og spurðu: Hvort viljið þið Kópavogssamninga eða Seltjarnarness?

Nú er spurningin: Er það rétt, sem þessir menn segja, að það sé óhjákvæmileg afleiðing þessara kjarasamninga að hér eigi að hljótast af óðaverðbólga, upplausn? Ég þekki eitt bæjarfélag í næsta nágrenni þar sem tölurnar voru þannig: Þegar athugað var hvað umræddur kaupstaður hafði sparað sér í ógreiddum launum verkfallsdagana til sinna starfsmanna annars vegar og það borið saman við útgjaldaaukann sem leiddi af þessum samningum, þá var niðurstaðan skýr. Niðurstaðan var sú að sparnaðurinn vegna þeirra útgjalda sem féllu niður einn mánuð varð ívið meiri en útgjaldaaukinn.

Ég geri að vísu ráð fyrir því að þetta verði ekki sama niðurstaða í ríkisdæminu af sérstökum ástæðum. En ef það verður eitthvað svipað, þá spyr ég: Ef þessar niðurstöður væru yfirfærðar út á landið, hvar er þá allur sá köstur verðbólgubáls sem hæstv. ráðh. eru að tala um? Hvert er tilefni óðaverðbólgu ef raunverulegur nettókostnaðarauki er ekki meiri en þetta? Hann er auðvitað enginn, fyrir nú utan það að það er á valdi hæstv. ríkisstj. að fara nú að taka til í sínu eigin húsi, moka sinn eigin flór, gera þær ráðstafanir sem allir vita að ráðh. hafa slegið á frest að gera, gera upp skuldaþrotabú sjávarútvegsins úr sjávarútvegsráðherratíð hæstv. núv. forsrh., framkvæma þar fjárhagslega endurskipulagningu, finna síðan rekstrargrundvöll sjávarútvegsins og færa síðan fjármagnið til frá þeim nýríku svindlurum sem hafa skarað eld að sinni köku, makað krókinn, ekki bara í tíð núv. ríkisstj., heldur líka hinnar fyrrv. og á öllum vitlausa áratugnum — færa til fjármagnið frá þeim sem engar fórnir hafa fært til hinna og leysa um leið vandamálin. Til þess eru ríkisstjórnir.