13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

142. mál, afnám tekjuskatts af almennum launatekjum

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. á þskj. 147 og er fsp. svohljóðandi:

„Hvenær er þess að vænta að fjmrh. leggi fyrir Alþingi tillögur um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum í áföngum, svo sem fyrir var mælt í þál. þeirri sem samþykkt var á Alþingi 22. maí s.l.?“

Með leyfi forseta langar mig að lesa þessa þál. frá 22. maí 1984 svo að ljóst sé hvað í henni felst, þ.e. þál. um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum í áföngum:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að leggja fyrir næsta Alþingi tillögur um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum í áföngum og á hvern hátt megi breyta skattheimtu að öðru leyti og spara og hagræða í ríkisrekstrinum til að ná þessu markmiði án þess að minnka þjónustu.“

Forsaga þessa máls er sú, að fyrir síðustu alþingiskosningar í apríl á síðasta ári markaði Sjálfstfl. mjög skýra og glögga stefnu í skattamálum einstaklinga. Í kosningayfirlýsingu flokksins sagði eftirfarandi um tekjuskattinn, með leyfi forseta:

„Tekjuskattur á almennar launatekjur verði afnuminn jafnframt því sem persónufrádráttur nýtist launafólki að fullu. Tekjum hjóna verði skipt á milli þeirra fyrir álagningu skatta.“

Þetta atriði var undirstrikað með því að tekjuskattslækkunin var efst á blaði af sextán atriðum sem upp voru talin í þeim kafla kosningastefnuskrárinnar sem fjallaði um bætt lífskjör í þessu landi.

Það var til efnda á þessum fyrirheitum að við nokkrir þm. Sjálfstfl. fluttum hér á síðasta vetri þáltill. um þetta efni. Efni þeirrar till. hlaut einróma samþykki í Sþ. eftir að hlutaðeigandi þingnefnd hafði um hana fjallað ásamt annarri till. — það er rétt að taka það fram hér — um þetta sama efni sem Alþfl.-menn höfðu borið fram.

Samþykkt ályktunarinnar var fagnaðarefni og hún markaði tímamót þar sem Alþingi hafði þá ekki í nær aldarfjórðung lýst vilja sínum með slíkri samþykkt í skattamálum, ályktað um afnám tekjuskattsins. Munu önnur þjóðþing raunar aldrei hafa gert svo merka samþykkt svo að vitað sé. Því var það að vonum að menn fögnuðu þessari nýju stefnumótun og skiptu þar flokksböndin engu máli, enda samþykktu þm. allra flokka þessa till.

Ástæðuna til þess er auðvelt að skilja. Tekjuskatturinn er aðeins um 10% af tekjum ríkissjóðs, en hann er sennilega ranglátasti skatturinn sem á landsmenn er lagður. Það er vegna þess að hann er fyrst og fremst launamannaskattur og kemur af þeim sökum mjög misjafnt niður. Á suma leggst hann með fullum þunga, en aðra ekki. Heildarupphæð tekjuskattsins er á þessu ári um 1800 millj. kr. nettó. Verði hann afnuminn í áföngum, eins og till. gerir ráð fyrir, og þá á þremur árum t.d., er hér um jafnvirði 600 millj. kr. að ræða. 600 millj. kr. eru einmitt sú upphæð sem gert er ráð fyrir í forsendum fjárlaga að lækka tekjuskattinn um á næsta ári. Það þarf þó að hafa í huga að tekjutap ríkisins, eins og fram kom raunar í máli síðasta fyrirspyrjanda, er ekki sú tala heldur miklu lægri upphæð þar sem reikna má með að allt að helmingur 600 millj. skili sér aftur í ríkissjóð í mynd ýmissa gjalda fyrir vörur og þjónustu.“

Kjarabótin, sem af afnámi tekjuskattsins mun leiða, er augljós þegar litið er á einstök dæmi. Á þessu ári mun, skv. töflu ríkisskattstjóra, einstaklingur greiða 68 þús. kr. í tekjuskatt af 380 þús. kr. tekjum, sem eru rúmlega meðaltekjur á þessu ári, eða tæp 15%. Ef við tökum dæmi af barnlausum hjónum þar sem fyrirvinnan er ein greiða þau 110 þús. kr. í tekjuskatt á þessu ári af 550 þús. kr. tekjum eða tæp 17%. Prósentin eru vitanlega örlítið lægri af lægri launum.

Af þessu sést hver hagur það er öllu launafólki að tekjuskatturinn sé afnuminn. Ef við lítum á alla skattgreiðendur mundi afnám hans jafngilda 11–12% launahækkun í landinu og það án nokkurra verðbólguáhrifa. Hér er því um mál að ræða sem miklu máli skiptir að nái sem fyrst fram að ganga. Um það bil 80% launþega landsins hafa svokallaðar meðaltekjur og minna. Til þeirra allra nær því þessi till. Hún mun einnig hafa í för með sér að tekjuskatturinn lækkar mjög hjá þeim sem hærri laun hafa en almennar launatekjur.

En það eru ýmis atriði sem líta þarf á þegar hugað er að framkvæmd þessa máls og því var í vor beðið um tillögur fjmrn. í þeim efnum:

1. Hvernig á að veita þeim, sem svo litlar tekjur hafa í dag að þeir greiða engan tekjuskatt, sambærilega kjarabót við aðra? Hag þeirra þarf að tryggja í þessu sambandi og eru til þess ýmsar leiðir.

2. Hvernig er fyrirhugað að framkvæma afnám þessa skatts? Verður það gert með hækkun persónuafsláttar og þá e.t.v. einnig með breytingu eða afnámi neðsta þrepsins í skattstiganum þannig að skattgreiðsla af meðaltekjum verði á þann hátt afnumin?

3. Hvernig er ráð fyrir því gert að ríkissjóður mæti því tekjutapi sem af afnámi tekjuskattsins leiðir, þeim 10% sem hann færir nú í ríkissjóð? Sé miðað við þrjá áfanga sýnist það einboðið að engar nýjar álögur komi í staðinn, heldur standi ríkissjóður undir þessari aðgerð án nokkurra nýrra gjalda.

Um atriði sem þessi þarf að fjalla í tillögum fjmrh. og ég efast ekki um að svo mun verða gert þegar þær sjá dagsins ljós hér í þingsölum.

Að lokum þetta: Flm. þáltill. töldu á síðasta vori að mikilsvert væri að hún næði samþykki Alþingis og kæmist sem fyrst til framkvæmda. á tímabilinu voru á því góðar horfur í samningunum nú í vetur við verkalýðshreyfinguna að tekjuskatturinn yrði afnuminn að 2/3 hlutum, en því miður náði skattalækkunarleiðin svokallaða ekki fram að ganga. Það er þó fullljóst að afnám tekjuskattsins er ekki aðeins stórfelld kjarabót fyrir alla launþega þessa lands, heldur má einnig fullyrða að slík framkvæmd er lykillinn að kjarabótum án verðbólgu og því ein besta leiðin sem við höfum í þessu þjóðfélagi til að tryggja kaupmátt launa.