13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

142. mál, afnám tekjuskatts af almennum launatekjum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil svara nokkrum orðum þeirri fsp. sem hv. þm. Gunnar G. Schram ber fram á þskj. 147. Þetta er mitt svar:

Í forsendum fjárlaga fyrir árið 1985 var gert ráð fyrir að lækka tekjuskatt um 600 millj. kr. frá því sem hann annars yrði miðað við óbreytt skattalög. Sú till. hefur því þegar séð dagsins ljós. Þessi tekjuskattslækkun er hugsuð sem fyrsti áfangi af þremur í afnámi tekjuskatts af almennum launatekjum, sbr. þál. um það efni frá 22. maí s.l. og samþykkt ríkisstj. frá 7. sept. s.l.

Eins og kunnugt er hafa forsendur að baki spám um verðlags- og tekjuþróun milli áranna 1984 og 1985 breyst verulega í kjölfar nýgerðra kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins og hin mikla óvissa sem ríkt hefur um niðurstöður þeirra og þar með áhrif þeirra á tekju- og verðlagsþróun hefur tafið mjög vinnu og undirbúning sem nauðsynleg eru við frágang á nauðsynlegum skattalagabreytingum ef framkvæma á umrædda tekjuskattslækkun. samningar hafa nú tekist um kaup og kjör hjá flestum aðilum vinnumarkaðarins og því er nú hægt að meta áhrif þeirra á tekju- og verðlagsþróunina.

Að mati Þjóðhagsstofnunar hækka tekjur á mann um 25% á milli áranna 1984 og 1985 í stað 11.4% hækkunar eins og ráð var fyrir gert við gerð fjárlagafrv. Þrátt fyrir þetta verður haldið fast við fyrri áform um afnám tekjuskatts í áföngum af almennum launatekjum. Af þessu tilefni verður bráðlega lagt fram hér á Alþingi frv. til l. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, sem nú er unnið að í fjmrn., sem ætlað er að ná því marki sem stefnt er að í þessu efni.