13.11.1984
Sameinað þing: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

64. mál, málefni aldraðra

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um umbætur í málefnum aldraðra, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Eiður Guðnason, Karl steinar Guðnason, Jón Baldvin Hannibalsson, Kjartan Jóhannsson og Karvel Pálmason.

Meginmarkmið þessarar till. er að fram fari ítarleg úttekt á fjárhagslegri og félagslegri stöðu aldraðra hér á landi og slík úttekt yrði síðan grundvöllur að skipulagðri áætlanagerð um umbætur í hagsmunamálum aldraðra á næstu árum. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar fara fram ítarlega úttekt á fjárhagslegri og félagslegri stöðu aldraðra og nái hún a.m.k. til eftirtalinna þátta:

1. húsnæðis- og vistunarmála,

2. félagslegrar stöðu,

3. framfærslukostnaðar og fjárhagslegrar afkomu,

4. atvinnu með tilliti til hlutastarfa.

Niðurstöður skulu lagðar fyrir Alþingi eins fljótt og auðið er. Á grundvelli þeirra skal ríkisstj. í samráði við samstarfsnefnd um málefni aldraðra leggja fram heildaráætlun um skipulegt átak og forgangsverkefni í hagsmunamálum aldraðra á næstu árum sem tryggi betur en nú er félagslegt öryggi og fjárhagsafkomu aldraðra, sem og húsnæðisaðstöðu og atvinnu við hæfi aldraðra sem þess óska.“

Ég tel, herra forseti, að engum blandist hugur um að stór hópur aldraðra býr við mjög slæma fjárhagslega afkomu og ótrúlega stór hópur aldraðra hefur ekki úr neinu að spila nema lífeyri almannatrygginga. Kannske sést það best á þeim upplýsingum sem fram koma í grg. með þessari þáltill., en þar kemur fram að á landinu öllu voru 1. sept. 8200 ellilífeyrisþegar sem fengu óskerta tekjutryggingu. Þetta þýðir að tæplega 40% aldraðra 67 ára og eldri á Íslandi hafa einungis sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga. Hér er því um að ræða mjög stóran hóp aldraðra sem býr við mjög þröngan kost og hefur lítið sem ekkert annað sér til framfærslu en þann litla lífeyri sem hann fær frá almannatryggingum.

Engin úttekt hefur verið gerð á félagslegri stöðu þessa fólks, til að mynda húsnæðisaðstöðu, hve stór hluti þessara 8200 ellilífeyrisþega býr í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði eða hvernig afkomu þeirra eða framfærslumöguleikum sé að öðru leyti háttað. Nefna má sem dæmi að til að aldraðir fái óskerta tekjutryggingu mega þeir ekki hafa aðrar tekjur, hvorki úr lífeyrissjóði né launatekjur, hærri en samtals 42 þús. kr. á ári. Tryggingastofnun ríkisins hefur engar upplýsingar um hve margir af þessum 8200 einstaklingum hafi tekjur upp að þessu frítekjumarki eða þá hvernig sú skipting er innbyrðis milli þessara hópa.

Þó telja megi víst að stór hópur aldraðra búi við mjög erfiða fjárhagslega og félagslega stöðu er ekki hér um hópa að ræða sem bera erfiðleika sína á torg. Aldraðir hafa eins og aðrir þurft að bera sinn hluta af byrðinni á undanförnum mánuðum og árum í þeim efnahagsaðgerðum sem gerðar hafa verið. Lífeyri elli- og örorkulífeyrisþega hefur því ekki verið hlíft og hefur hann sætt mikilli skerðingu ekki síður en kjör launþega. Til marks um það má geta þess að skv. upplýsingum Kjararannsóknarnefndar er hækkun framfærslukostnaðar 1. jan. 1983 til 1. sept. 1984 82.8%, en á sama tíma hefur grunnlífeyrir almannatrygginga einungis hækkað úr um 44.9%, en grunnlífeyrir almannatrygginga að viðbættri tekjutryggingu hefur á þessu tímabili hækkað um 60.3%. svo mikil skerðing, sem orðið hefur á framfærslueyri þeirra öldruðu sem við verst kjör búa, getur vissulega haft víðtæk áhrif á hag og afkomu aldraðra.

Ég beindi þeirri fsp. til hæstv. heilbrmrh. fyrir 10 dögum hvað hæstv. ríkisstj. hygðist gera varðandi lífeyri aldraðra, hvort þeir mættu vænta þess að lífeyrir þeirra tæki eigi minni hækkun en um hefur samist á vinnumarkaðinum. Hæstv. heilbrmrh. hefur enn ekki svarað þeirri fsp. þó langt sé hér um liðið, en ég vænti þess að hæstv. fjmrh., sem hér situr í hliðarsal og ég veit að ber hag aldraðra fyrir brjósti og hefur mikið unnið að þeim málum, upplýsi þingheim um hvort ríkisstj. hafi rætt um hvort hækka eigi lífeyri ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega til samræmis við eða eigi um lægri upphæð en samist hefur um á vinnumarkaðinum. Ég tel mikilvægt að fá þetta upplýst og þar sem hæstv. heilbrmrh. hefur ekki verið til svara þegar þessi fsp. hefur verið lögð fram vænti ég þess að hæstv. fjmrh. geti upplýst um hvort þessi mál hafi verið rædd í ríkisstj. og hvenær, og það er mikilvægt, ellilífeyrisþegar megi vænta þess að fá hækkun á sínum lífeyri.

Ég tel vissulega tímabært að fram fari sú könnun, sem hér er gert ráð fyrir með þessari þáltill., á framfærslu kostnaði og fjárhagslegri afkomu aldraðra, en það er einn liður þessarar till. Ekki síður er ástæða til þess að úttekt verði gerð á húsnæðis- og vistunarmálum aldraðra.

Ég vil, herra forseti, lesa þann stutta kafla sem fylgir sem grg. með þessari þáltill. og fjallar um vistunarmál aldraðra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Óhætt er að fullyrða að neyðarástand ríki í vistunarmálum aldraðra einkum á höfuðborgarsvæðinu. Það segir sína sögu að á sama tíma og 900 umsóknir liggja fyrir hjá Reykjavíkurborg um vistunarrými fyrir aldraða skuli aðeins vera í byggingu eitt vistheimili í Hjallaseli sem áætlað er að taka í notkun á árinu 1985 eða 1986. Það veitir aðeins 70–80 öldruðum úrlausn. Talið er að af 900 öldruðum, sem bíða eftir vistunarrými á höfuðborgarsvæðinu, séu 300 þeirra í mjög brýnni þörf fyrir úrræði og þoli enga bið. Athyglisvert er einnig að tæplega 150 þeirra, sem á biðlista eru eftir vistunarrými, eru 86 ára og eldri.

Í grein, sem Þórir S. Guðbergsson, ellimálafulltrúi Reykjavíkurborgar, ritar í Morgunblaðið 31. maí 1984, kemur fram að um 320 þeirra, sem á biðlista eru, búi enn í leiguhúsnæði á almennum markaði og tugir manna í þessum aldurshópi eigi sífellt á hættu á hverju ári að verða sagt upp húsnæði og búi því við stöðugt öryggisleysi. Að auki má ætla að húsaleigan vegi þungt í framfærslubyrði aldraðra, ekki síst á almenna markaðinum, og ekki er óvarlegt að áætla að 50–70% af lífeyri aldraðra úr almannatryggingum fari í húsnæðiskostnað.

Í sömu grein Þóris S. Guðbergssonar kemur einnig fram að margir, sem á biðlista eru, eigi sínar eigin íbúðir eða sitji í óskiptu búi en geti nánast ekki lengur verið heima vegna lasleika eða öryggisleysis.“

Af þessu má sjá, herra forseti, að það ríkir mikið neyðarástand í vistunarmálum aldraðra. E.t.v. er það eitt af brýnustu verkefnum að því er varðar umbætur í málefnum aldraðra að á vistunarmálunum sé tekið. En það er ekki að sjá að nein viðunandi lausn sé í sjónmáli eða gerðar hafi verið heildaráætlanir til lengri tíma um það hvernig mæta eigi vistunarþörfinni.

4. liður þessarar till. fjallar um að fram fari úttekt á atvinnumöguleikum aldraðra með tilliti til hlutastarfa. Ég held að ef vilji væri fyrir hendi væri vissulega möguleiki til þess á vinnumarkaðinum að skapa öldruðum skilyrði til að vera lengur á vinnumarkaðinum ef þeir þess óska.

Í könnun Jóns Björnssonar sálfræðings á vinnugetu og atvinnumöguleikum aldraðra hér í Reykjavík á árunum 1974–1975 eru settar fram tillögur um úrbætur í atvinnumálum aldraðra. Þar kemur fram að af fjölmörgum tillögum sem settar hafa verið fram til úrbóta muni trúlega engin gagnast eins stórum hluta aldraðra í atvinnuvanda eins og ein sú kostnaðarminnsta sem þar er talin, þ.e. sú að skipta heilsdagsstörfum í hálfsdagsstörf þar sem því verður með góðu móti við komið.

Ég vil, herra forseti, einnig vitna í orð Jóns Björnssonar þar sem hann dregur upp mynd af viðhorfum eldra fólks til starfsloka. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá kom fram í áðurnefndri könnun að flestir virðast hætta að stunda launavinnu af illri nauðsyn en ekki samkvæmt eigin ósk. Eldra fólk heldur í vinnuna dauðahaldi af ýmsum ástæðum. Bætur almannatrygginga duga ekki til lífsframfæris nema við bestu aðstæður svo að margt eldra fólk er beinlínis nauðbeygt til þess að halda í nokkrar vinnutekjur. Tekjuskattur knýr marga til að halda áfram vinnu. Ýmsar félagslegar og sálrænar aðstæður eru þó síst léttvægari heldur en hinar fjárhagslegu. Eldra fólki, sem vissulega er af mjög vinnusamri kynslóð, sem lítið hefur þekkt til tómstunda, finnst að drjúgur hluti manngildisins felist í því að geta séð fyrir sér sjálfur og vera ekki upp á aðra kominn. Margir óttast einangrunina þegar litið er á vinnuna o.s.frv., sakna vinnufélaganna, tilbreytingarinnar og þeirrar lífsfyllingar sem vinnan gefur.“

Í þessum orðum felst örugglega mikill sannleikur sem stjórnvöldum ber skylda til að gefa gaum. Hvaða áhrif hefur það á aldrað fólk við sæmilega heilsu og með löngun til að stunda vinnu við sitt hæfi þegar það skyndilega er rifið burt af vinnumarkaðinum vegna laga og reglna sem sveitarfélög eða einstök fyrirtæki hafa sett? Á því hefur engin könnun verið gerð.

Herra forseti. Út af fyrir sig er hægt að hafa langt mál um efni þessarar till. og nauðsyn þess að sú úttekt fari fram sem hér er lögð til og í framhaldi af því verði gert skipulegt átak til að koma á umbótum í málefnum aldraðra. Það er skoðun flm. þáltill. að fallist Alþingi á að fela ríkisstj. ítarlega úttekt á fjárhagsstöðu, afkomu og félagslegri stöðu aldraðra mundi slík úttekt auðvelda allar ákvarðanir og stuðla að aukinni velferð aldraðra í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Í máli mínu beindi ég ákveðinni fsp. til hæstv. fjmrh. sem nú virðist flúinn úr salnum. — Þarna mætir hæstv. fjmrh. í salinn. Ég trúði því varla að hann væri flúinn þegar slík spurning væri lögð fyrir hann. Honum ætti að vera ljúft að svara þeirri spurningu sem ég ber fram. (Fjmrh.: Hver er spurningin, hv. þm.?) Spurningin er sú hvort elli- og örorkulífeyrisþegar megi vænta þess að lífeyrir þeirra, sem þeir fá úr almannatryggingum, verði hækkaður um eigi lægri fjárhæð en um hefur verið samið á almenna vinnumarkaðinum og hvenær þeir megi þá vænta þess að lífeyrir þeirra taki slíkum hækkunum. Um er spurt hvort þessi mál hafi verið rædd í ríkisstj.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn.