13.11.1984
Sameinað þing: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

76. mál, endurreisn Viðeyjarstofu

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir till. til þál. um endurreisn Viðeyjarstofu. Flm. ásamt mér eru þeir hv. alþm. Friðrik Sophusson, Geir Gunnarsson, Guðmundur Einarsson, Gunnar G. Schram, Haraldur Ólafsson, Kjartan Jóhannsson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Stefán Benediktsson og Svavar Gestsson.

Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um endurreisn Viðeyjarstofu og lendingarbætur á eynni í samráði við borgarstjórn Reykjavíkur. Byggingin verði færð í upprunalegt horf en að því stefnt að þar megi stunda veitingarekstur og ráðstefnuhald. Áætlunin verði við það miðuð að verkinu verði að fullu lokið fyrir 18. ágúst 1986. Þá verða tvær aldir liðnar frá því að höfuðborg Íslands fékk kaupstaðarréttindi. Kostnaðaráætlun verksins verði lögð fram í tæka tíð fyrir afgreiðslu fjárlaga 1985.“

Herra forseti. Það er rétt að gera í örstuttu máli eilítið nánari grein fyrir þessu máli og nauðsyn þess.

Upp úr siðaskiptum lagðist af klausturhald í Viðey. Fer eftir það fáum sögum af staðnum í tvær aldir þangað til Skúli landfógeti settist þar að og gerði garðinn frægan á ný. Skúli valdi „Innréttingunum“, sem eru fyrsti vísir atvinnubyltingar á Íslandi á 18. öld, sama stað í „Hólminum“ þar sem nú heitir Reykjavík. Að sögn Jóns Aðils í sögu Skúla fógeta segir: „Var þar eigi önnur bygging fyrir en bæjarhús nokkur og hrörlegir moldarkofar.“ Það er upphaf höfuðborgar Íslands.

„Stofnanir Skúla fógeta voru fyrsti vísir Reykjavíkurbæjar. Mætti því vel telja hann annan höfund Reykjavíkur, sé Ingólfur landnámsmaður talinn fyrstur,“ segir Jón Aðils. Segja má að Viðey sé föðurleifð Reykjavíkurborgar.

Fyrir skömmu eignaðist Reykjavíkurborg bróðurpart eyjarinnar. Í borgarstjórn eru uppi hugmyndir um að gera eyna að fólkvangi og útivistarsvæði borgarbúa. Er það að mati flm. vel til fundið. Viðeyjarfélagið og Snarfari, félag skemmtibátaeigenda, njóta nú þegar nokkurrar aðstöðu í eynni.

Sjálf Viðeyjarstofa og nokkur landspilda umhverfis hana er hins vegar ríkiseign. Viðeyjarstofa er í umsjá þjóðminjavarðar og miðar að sögn hægt endurreisn stofunnar, enda fjárveitingar naumar. Fyrir flm. þessarar till. vakir að hraða þessu endurreisnarstarfi, enda verði veittir til þess nauðsynlegir fjármunir á fjárlögum 1985 og 1986. Eins og fyrr segir verða þann 18. ágúst 1986 tvær aldir liðnar frá því að Reykjavíkurborg fékk kaupstaðarréttindi. Af því tilefni væri við hæfi að mati flm., þótt seinna komi til ákvörðunar, að íslenska ríkið færi höfuðborg sinni að gjöf eignarhluta sinn í Viðey og endurreisi þar Viðeyjarstofu til minningar um Skúla fógeta, föður Reykjavíkur.

Sá gjörningur mætti einnig vera til heiðurs og í minningarskyni um einn stórbrotnasta Íslending, sem uppi hefur verið, sem er Jón biskup Arason á Hólum. Meðal sögufrægra ábóta, sem setið hafa Viðey, má nefna Ögmund Pálsson, seinasta Skálholtsbiskupinn í kaþólskum sið, en þeir fóstbræður stóðu seinastir uppi til andófs gegn ásælni dansks konungsvalds á 16. öld. Frægust er för Jóns biskups til Viðeyjar þegar hann flæmdi þaðan brott hirðstjóra Dana, Laurentius Mule og orti af því tilefni:

Víkur hann sér í Viðeyjarklaustur

— víða trúi ég hann svamli, sá gamli.

Við Dani var hann djarfur og hraustur.

Dreifði hann þeim á flæðarflaustur

með brauki og bramli.

Megi minning Jóns biskups Arasonar lifa meðan land byggist og íslensk tunga er töluð.