14.11.1984
Efri deild: 14. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 81 frá 31. maí, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Fyrir u.þ.b. einu ári síðan stóðum við eins og oft áður í vandasömum sporum þegar farið var að undirbúa af fullum krafti þá fiskveiðistefnu sem við höfum búið við fyrir árið 1984. Var það sérstaklega eftir að álitsgerð fiskifræðinga um ástand helstu fiskistofna barst, en þar kom fram að stofnarnir væru í mikilli lægð og sérstaklega væri þorskstofninn í mjög verulegri hættu.

Eftir að menn höfðu fjallað um mál þetta alllengi og afgreidd höfðu verið heimildarlög hér á Alþingi í des. s.l. komust menn að þeirri niðurstöðu að rétt væri að gera grundvallarbreytingu á stjórnun veiðanna í ljósi nýrra aðstæðna og yrði sú breyting gerð í tilraunaskyni í eitt ár. Í framhaldi af þessu var skipuð ráðgjafarnefnd til þess að fjalla um reglugerð á grundvelli þeirrar lagaheimildar sem ég áður gat um. Þessi nefnd vann mjög gott starf undir forustu Jóns Sigurðssonar, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, og skilaði ítarlegum niðurstöðum sem síðan urðu grundvöllur að stjórn veiðanna. Í þessari nefnd áttu sæti aðilar sem eru tengdir helstu hagsmunasamtökum í sjávarútvegi eins og fram kemur í grg. með frv. Áður en þessi reglugerð var sett var einnig haft samráð við sjútvn. Alþingis. Þar var fjallað ítarlega um reglugerðardrögin og gerðar voru á þeim nokkrar breytingar eftir þá fundi sem haldnir voru um málið með sjútvn. þingsins.

Eftir þá reynslu, sem við höfum nú öðlast af stjórn veiðanna, er að sjálfsögðu rétt og skylt að reyna að meta það hvort þessi tilraun hefur vel tekist, hverjir eru helstu gallar þess sem fram hefur komið. Við verðum að draga af því sem mestan lærdóm við ákvörðun stefnunnar fyrir næstu ár.

Það var ljóst þegar í upphafi að fram kæmu margvísleg ágreiningsefni varðandi skipan þessara mála. Það var að sjálfsögðu gagnrýnt að reynst gæti vandasamt fyrir sjútvrn. að skera úr þeim ýmsu málum sem þar mundu upp koma og ýmsir gagnrýndu það að rn. skyldi fengið svo mikið vald til að úrskurða um slík mál. Ákveðið var að sérstök nefnd skyldi fjalla um málefni sem slík. Í þá nefnd voru skipaðir Stefán Þórarinsson deildarstjóri í sjútvrn., formaður, Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, af hálfu útgerðarmanna og Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands, af hálfu sjómanna.

Nefnd þessi hefur unnið mjög mikið starf á árinu og hefur úrskurðað um margvísleg vafamál. Þessir úrskurðir hafa verið kveðnir upp eftir mjög ítarlegar umr. og hefur mikil og góð samvinna verið innan nefndarinnar og rn. átt við hana mjög gott samstarf. Tekist hefur að leysa úr þeim málum sem upp hafa komið án ágreinings, ekki þannig að þeir sem við þessa úrskurði áttu að búa væru allir ánægðir, það er langt í frá, en hins vegar hefur tekist að ná um þá samstöðu. Það er að mínu mati mjög til eftirbreytni hvernig ýmsir hagsmunaaðilar hafa verið tilbúnir til að leggja sig fram til að ná samstöðu um þessi erfiðu og viðkvæmu mál.

Ég tel rétt að rifja upp í ljósi reynslunnar þau rök sem voru fyrir því fyrirkomulagi sem ákveðið var við stjórnun veiðanna og þau markmið sem þar voru lögð til grundvallar. Eftir að Hafrannsóknastofnunin lýsti því yfir að þorskstofninn væri í mikilli lægð eftir nokkur aflasæl ár og lagði til að veiðar yrðu mjög verulega takmarkaðar úr stofninum, varð fljótlega ljóst að um tvær meginstjórnunarleiðir væri að velja, annaðhvort sóknartakmarkanir, eins og stuðst hafði verið við á undanförnum árum, eða svokallað aflamarksfyrirkomulag. Aflamarksfyrirkomulagið varð í grundvallaratriðum fyrir valinu og voru fyrst og fremst fjórar ástæður fyrir því að svo varð.

Fyrsta ástæðan var sú að í reynd var ekki hægt að koma við frekari sóknartakmörkunum á þorskveiði en þegar hafði verið gripið til og hætt væri við að slík takmörkun leiddi aðeins til þess að sóknin í aðra botnlæga fiskistofna yrði aukin, t.d. ýsu, karfa, ufsa og grálúðu, en þessir stofnar voru þá þegar taldir fullnýttir. En þegar hið svokallaða skrapdagakerfi var tekið upp á sínum tíma var gengið út frá því að þessir stofnar væru flestir hverjir vannýttir og í reynd ákveðið að greiða sérstakar uppbætur á bæði karfa og ufsa til að auka sóknina í þá. Þessi forsenda var ekki lengur fyrir hendi og því var ekki talið að réttlætanlegt væri að beina sókn úr þorskstofninum frekar í þessa stofna.

Önnur ástæðan var sú að talið var mjög erfitt, eins og fyrri reynsla hafi sýnt, að takmarka þorskveiðina með sóknartakmörkunum við tiltölulega nákvæm aflamörk. Það var álitið mjög mikilvægt gagnvart þorskstofninum að svo yrði á þessu ári vegna þess að talin var hætta á hruni stofnsins og þess vegna væri mikilvægara en nokkru sinni fyrr að veiðar færu ekki verulega fram úr settu marki. Ef litið er til bráðabirgðatalna Fiskifélags Íslands um botnfiskaflann má ráða af því að tekist hafi fram til þessa að takmarka aflann við þau mörk, sem sett voru í upphafi og síðan bætt við, og bendir flest til þess að svo verði það sem eftir er ársins.

Þriðja ástæðan og ekki sú veigaminnsta var sú að aflamarksleiðin tryggði betur en nokkur önnur leið við stjórn fiskveiða að sá afli, sem til skipta væri, dreifðist eins jafnt og réttlátlega á byggðarlög og fiskiskip allt umhverfis landið og kostur yrði. Við vitum að aflahrotur koma á miðum, sem betur fer. En þegar lítið er til skiptanna og stöðva á við ákveðin mörk er mjög hætt við því að aflinn sé fyrst og fremst tekinn á afmörkuðu svæði og síðan verði nánast lítið eða ekkert fyrir aðra aðila til að sækja í. Sóknartakmarkanir á fiskiskipum fela í sér samkeppni um aflann þann tíma sem þau mega vera að veiðum og það má leiða að því sterk rök að þorskaflahrotur þær, sem t.d. komu á Breiðafirði s.l. vetur og Vestfjarðamiðin í sumar, hefðu leitt til ójafnari skiptingar fiskaflans en raun varð á, hefði sóknartakmörkunum verið beitt. Þannig má einnig segja að reynslan hafi verið varðandi smábáta undir tíu lestum en þeir fiska úr sameiginlegu heildarmarki.

Aflasæld þessara báta hefur verið nokkuð misjöfn við landið og því hafa takmarkanir á sókn bitnað harðar á einstökum landshlutum en öðrum. Þessi reynsla hefur einnig verið að því er varðar síldveiðarnar á þessu hausti þótt þar sé notast við aflamark í verulegum mæli. Þar er kapphlaupið með öðrum hætti. Þar er kapphlaupið um það að veiða sem mest áður en söltun er lokið. Nú hefur öðrum verkunaraðferðum lítt eða ekkert verið sinnt fyrr en söltun hefur verið lokið og þeir sem þá hafa lítið veitt sitja nú eftir með sárt ennið.

Ég vil ekki draga úr því að að sjálfsögðu er samkeppni nauðsynleg. En þegar við búum við miklar takmarkanir í okkar auðlindum verður óheft athafnafrelsi í fiskveiðum til þess að auka þjóðfélagslega mismunun og sérstaklega til að ganga á tekjumöguleika komandi kynslóða. Og jafnvel þótt við séum vön því og viljum hafa mikla samkeppni í veiðunum þá hljóta að vera fyrir því takmörk hvað við látum slíkt leiða til mikillar mismununar í þjóðfélaginu eða hvað við látum núverandi kynslóð taka mikið í sinn hlut og það verði þá til þess að þær næstu hafi lítið sem ekkert.

Fjórða ástæðan fyrir því að þessi leið var valin var sú að með henni mætti koma við sparnaði og meiri hagkvæmni í rekstri fiskiskipa en eftir öðrum leiðum, m.a. vegna þess að þá yrði hægt að færa aflakvóta milli skipa og fækka þar með skipum í rekstri og einnig í hefðbundnum veiðum. Um þennan þátt er að sjálfsögðu erfitt að fullyrða en ljóst er að margir hafa reynt að spara og auka hagkvæmni í sínum rekstri, t.d. með því að sameina kvóta skipa og beina öðrum skipum í veiðar á vannýttum fiskistofnum, t.d. úthafsrækju. Veruleg aukning hefur orðið í úthafsrækjuveiðum og er álitið að þær muni allt að tvöfaldast á þessu ári frá því sem áður var sem er veruleg aukning og hefði áreiðanlega verið meiri ef ekki hefði orðið verðfall á rækju. Þessi stofn er ekki nægilega þekktur og við töldum nauðsynlegt að beina fleiri skipum í hann.

Það er enginn vafi á því að skipulag veiðanna hefur orðið til þess í verulegum mæli að hagkvæmni hefur orðið meiri og þar með hefur verðmætasköpunin í þjóðfélaginu aukist af þeim sökum. Við vitum einnig að nýting veiðarfæra varð betri og fiskgæði á vetrarvertíð jukust frá árinu áður samkvæmt þeim gæðaskýrslum sem við höfum fengið frá Fiskifélagi Íslands. Auðvitað má alltaf um það deila hvers vegna svo sé, en það er almennt talið að stjórnun veiðanna eigi þar nokkurn þátt.

Þegar á heildina er litið má segja að fyrrgreindar höfuðástæður fyrir því að aflamarksleiðin var valin hafi staðist í stærstu dráttum og þeim markmiðum sem stefnt var að hafi verið í stórum dráttum náð. Það er því eðlilegt að við spyrjum í ljósi þessarar reynslu hvort við höfum valið rétta kostinn og hvort aðrar leiðir hefðu tryggt okkur betri framtíð og skilað okkur meiri verðmætum í þjóðarbúið. Ég svara því fyrir mitt leyti hiklaust játandi að við höfum valið rétta kostinn á því ári sem nú er að líða.

Við þurfum einnig að spyrja okkur hvort þær forsendur sem voru fyrir hendi á s.l. hausti hafi að einhverju leyti breyst. Fyrsta spurningin í því sambandi er að sjálfsögðu sú hvort það megi búast við því að heimilað verði að veiða meira úr fiskistofnunum á næsta ári en í ár.

Hafrannsóknastofnunin hefur þegar lagt til að hámarksafli 1985 verði 200 þús. tn í þorski, 45 þús. tn í ýsu, 60 þús. tn í ufsa, 90 þús. tn í karfa og 25 þús. tn í grálúðu. Það verður að sjálfsögðu að meta þessar tillögur í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við, en það er ekki hægt að reikna með því að afli á næsta ári verði meiri en hann hefur orðið á þessu ári eða þar er vart hægt að reikna með miklum mun.

Það hefur verið áætlað, eins og kemur fram í fskj. með frv. frá Hafrannsóknastofnun, að stofnstærð þorsks verði 970 þús. tonn í ársbyrjun 1985, en það var áætlað að stofnstærð hans væri 1130 þús. tonn í ársbyrjun 1984 og ákvarðanir voru við það miðaðar þegar þær voru teknar á sínum tíma. Hins vegar hefur það gleðilega gerst að minnkun stofnsins er ekki eins hættuleg og annars hefði verið vegna þess að það hafa komið til mjög bætt skilyrði í hafinu. T.d. hefur hlutfall kynþroska þorsks í aldursflokkunum aukist. Ef þessi bættu skilyrði hefðu ekki nú komið til er áreiðanlegt að það hefði t.d. ekki verið rétt að auka við þorskaflann á s.l. vetri, en þá voru menn þegar farnir að sjá fyrir nokkurn bata varðandi ástandið í sjónum og þess vegna þótti mönnum fært að taka þá ákvörðun.

Það er hins vegar mikil ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að hlutfall fjögurra og fimm ára þorsks er 55% aflans 1984 og það er áætlað að hlutfall fjögurra og fimm ára þorsks verði 67% aflans 1985. Það vantar eldri árgangana inn í. Sjö, átta og níu ára þorskur hefur ekki veiðst í þeim mæli sem reiknað var með á s.l. hausti. Hins vegar hefur veiðin í fjögurra og fimm ára þorski verið mun meiri en gert var ráð fyrir. Það liggur alveg fyrir að það er rétt, ef hægt er, að lofa þessum fiski að vaxa, og þegar vaxtarskilyrðin eru jafngóð og raun ber vitni í sjónum er út frá þeim sjónarmiðum rétt að lofa þessum fiski að vaxa og verða kynþroska. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hvað við getum lagt á okkur efnahagslega til að byggja upp stofninn. En að mínu mati er afar þýðingarmikið að vinna að því að eldri fiskurinn verði stærri hluti í stofninum. Við sjáum af reynslu undanfarinna ára að það hefur nánast lítið sem ekkert af eldri fiski komið á vetrarvertíð. Á s.l. vetri var mjög mikil deyfð í sjónum víða umhverfis landið þó að sem betur fer væru nokkrar undantekningar þar á.

Það er hins vegar okkar helsta von að það gerist að sá árgangur sem hefur verið að alast upp við Grænland frá 1977 komi inn í veiðina á næsta ári, en það gerist oft að nokkur hluti seiðanna fari í þá áttina. T.d. var árgangur frá Grænlandi uppistaðan í vertíðarveiðinni 1981. Það er hins vegar talið að þessi stofn sameinist okkar stofni og þar með hrygningarstofninum. Er að sjálfsögðu einnig mikilvægt að hann aukist nokkuð því að hann er orðinn afar lítill.

Það hefur einnig gerst í ár að hluti af seiðunum hefur farið til Grænlands. Það virðist gerast þannig að kaldur sjór kemur norðan úr höfum og klýfur þá leið sem seiðin ganga um þannig að nokkur hluti þeirra fer til vesturs og annar hluti til austurs. Vitað er að nokkuð mikið af seiðum fór yfir til Grænlands á s.l. vori. Það er þá væntanlega fiskur sem gæti komið aftur á okkar mið eftir 7–8 ár. Það má því segja að ástand stofnanna, þótt þar hafi sem betur fer aðeins birt yfir, gefi ekki mikið tilefni til þess að veruleg breyting verði í stjórnun veiðanna.

Ég ætla ekki að fara yfir það álit sem hér hefur komið frá Hafrannsóknastofnuninni, það er birt hér sem fskj., en að sjálfsögðu mun Hafrannsóknastofnunin þurfa að gefa sjútvn. ítarlegri upplýsingar um þessi mál og afar þýðingarmikið að góður tími gefist til þess þannig að menn fái sem besta innsýn í þá vitneskju sem við höfum um þessi mál.

Það má einnig spyrja hvort við getum treyst því að svipuð stjórn og var beitt við fiskveiðarnar áður fyrr, t.d. með svokölluðu skrapdagakerfi, tryggi að það verði ekki farið fram úr þeim takmörkunum í heildarafla sem sett verða á árinu. Ég get ekki séð að það verði auðvelt. Eins og ég gat um áður eru einnig komnar upp þær aðstæður, sem ekki voru þegar það kerfi var tekið upp, að aðrir stofnar voru taldir vannýttir, en flestir eru um það sammála að karfastofninn sé þegar til lengri tíma er litið í verulegri hættu. Það hefur verið sótt mjög stíft í hann á undanförnum árum, fyrst og fremst vegna þess að þorskafli dróst mjög saman. Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að takmarka sókn í karfastofninn þegar sá dagur kemur að við getum aukið verulega sóknina í þorskinn.

Það má einnig spyrja hvort önnur leið sé fær til þess að tryggja öllum byggðarlögum í landinu og öllum skipum sinn hlut úr þeim tiltölulega litla afla sem er til skiptanna með annarri leið en aflamarksleiðinni. Það er erfitt að sjá að svo sé, en eins og ég gat um áður er meiri hætta á því að tiltölulega lítill hluti eða ákveðinn hluti flotans fái þá mjög mikinn meiri hluta af því sem til skiptanna er.

Það má einnig spyrja hvort einhverjar aðrar leiðir séu betri til að auðvelda hagkvæmni og sparnað í rekstri sjávarútvegsins, en það er að sjálfsögðu mjög þýðingarmikið, ekki bara fyrir sjávarútveginn, heldur einnig þjóðfélagið í heild. Það má einnig spyrja hvort miklar líkur séu á því á næsta ári að hægt verði að auka verulega framboð á okkar fiskmörkuðum. Það var svo t.d. á árinu 1981 að þá var hægt að verka afla í verulegum mæli í skreið og koma honum á Nígeríumarkað. Það eru ekki líkur til þess eins og núna er útlitið að við getum verulega aukið framboð á fiskmörkuðum okkar á næsta ári og það er að sjálfsögðu engum til góðs að við söfnum upp birgðum í landinu, hvort sem það er af frystum fiski eða skreið. Þá er að sjálfsögðu betra að fiskurinn syndi áfram í sjónum þar til aðstæður á mörkuðum leyfa að við sendum meira magn inn á þá. Það er verulega mikið magn til af frystum fiski og við höfum verið að safna þar upp óþarflega miklum birgðum. Að sjálfsögðu þarf fiskveiðistefna okkar að taka verulegt mið af þessum aðstæðum. Fiskur sem ekki selst er einskis virði og þótt aflasæld sé nauðsynleg þarf einnig að hafa það í huga út frá okkar sameiginlegu hagsmunum að markaðirnir geti tekið við því magni sem á land kemur.

Þótt ég hafi með þessum orðum reynt að draga fram nokkur þau helstu atriði sem höfð voru í huga þegar þetta fyrirkomulag var tekið upp til reynslu í eitt ár á að sjálfsögðu ekki að líta fram hjá því að það eru einnig verulegir gallar samfara slíkri stjórnun og nauðsynlegt er að breyta og lagfæra ýmsa ágalla sem fram hafa komið. Ég er þeirrar skoðunar að að ýmsu leyti hafi framkvæmd aflamarksins tekist vel. Útgerðarmenn og sjómenn virðast hafa aðlagað sig nokkuð vel þessari breyttu stjórnun eftir ýmsa eðlilega byrjunarörðugleika. Samskipti rn. við útgerðarmenn og sjómenn hafa verið ágæt þó að ekki sé því að neita að þeir síðarnefndu hafi í mjög mörgum tilvikum rekið mál sín af miklu harðfylgi. Einnig höfum við mjög notið góðs samstarís við Fiskifélag Íslands sem hefur reiknað út allar úthlutanir til einstakra fiskiskipa. Það hefur tekist afar vel í flestum atriðum. Auðvitað hafa komið fyrir ýmiss konar mistök eins og alltaf er, en almennt má segja að Fiskifélagið hafi reynst mjög vel í þessu sambandi.

Það er einn helsti galli þessa svokallaða kvótakerfis að það er ekki nægilega sveigjanlegt í mörgum tilvikum. Það stafar af því að skipin eru bundin af meðaltali afla s.l. þrjú ár. Þetta meðaltalsveiðimynstur, ef svo má kalla, sem þannig hefur myndast, hefur í mörgum tilvikum ekki hentað við þær aðstæður sem skipin búa við. Þetta á t.d. við um minni báta þar sem sveiflur eru tiltölulega miklar á milli ára. Þetta á einnig við um skip sem færast á milli landshluta og svo má lengi telja. Þetta kemur einnig fram í mismunandi aflasamsetningu á milli ára. Má t.d. nefna að mörg skipanna eiga verulegt magn eftir af ýsukvóta sínum, sérstaklega togararnir. En þessir kvótar voru ákvarðaðir á grundvelli reynslunnar þegar ýsuveiðin var mun betri en reyndin hefur orðið í ár, en ýsuveiðin hjá togurunum hefur að nokkru leyti brugðist.

Samtenging allra veiða, bolfiskveiða og sérveiða, var að mörgu leyti erfið á árinu. Það stafar m.a. af því að reglur og fyrirkomulag um sérveiðar voru ekki frá gengnar í meginatriðum um leið og reglurnar voru settar um aflamarkið. Það sama má einnig segja í nokkrum tilvikum varðandi samtengingu veiða og vinnslu. Þar hefur nokkuð skort á. Það bar t.d. á því á s.l. vetrarvertíð og í sumar þegar afli var sem mestur á Vestfjarðamiðum.

Framsal aflakvóta yfir til annarra skipa hefur mælst misjafnlega fyrir. Framkvæmd þessara framsala hefur gengið bærilega. Ég hef áður rakið það hér á Alþingi hve mikið hefur verið fært á milli, en það eru samtals 19 543 tonn. Það er í langmestum mæli framsal milli skipa í eigu sömu úrgerðar og innan viðkomandi verstöðvar, en tiltölulega mjög lítið magn hefur verið flutt á milli verstöðva og hefur það ekki verið gert nema að fengnu samþykki sveitarstjórnar og stjórnar sjómannafélags í viðkomandi verstöð. Ég er ekki í nokkrum vafa um að rétt var að setja þessar hömlur á, eins og kom skýrt fram hér við umr. á Alþingi í fyrra. Þm. lögðu á það mikla áherslu að settar yrðu hömlur á það að færa á milli byggðarlaga og að viðkomandi byggðarlög fjölluðu mjög ítarlega um það áður en það yrði gert. Það hefur orðið til þess að byggðarlögin hafa betur en ella getað nýtt sér þann afla sem komið hefur til viðkomandi byggðarlags. Hitt er svo annað mál að ég er ekki með því að segja að það eigi að útiloka framsal milli byggðarlaga, langt í frá. Ég er aðeins að segja að nauðsynlegt er að um það sé fjallað og hinir ýmsu hagsmunir viðkomandi byggðarlags, sem þessu er tengt, metnir og ræddir.

Heimildir til að framselja aflakvóta á milli skipa voru almennt taldar nauðsynlegar þegar reglur um kvótaskiptingu botnfiskaflans voru settar, fyrst og fremst vegna þess að kvótar einstakra fiskiskipa réðust af veiðum þeirra undangengin þrjú ár, eins og ég gat um áður. Reglurnar binda því einstök fiskiskip talsvert í fortíð sinni og því er svigrúm þeirra til að mæta nýjum kringumstæðum, eins og breyttum útgerðarháttum eða annarri aflasamsetningu, takmarkað. Í slíkum tilvikum hjálpa þessar heimildir verulega upp á sakirnar og gera það kleift að koma á hagræðingu í rekstri skipanna, sérstaklega hjá þeim útgerðum sem eiga mörg skip sem sum hver hafa e.t.v. lítinn aflakvóta. Eftir því sem meiri hömlur eru settar á slík framsöl þeim mun minni verða möguleikarnir að sjálfsögðu. En það eru önnur sjónarmið sem þar verður einnig að hafa í huga og tel ég að þær takmarkanir, sem hafa gilt, hafi orðið til þess að slík sjónarmið hafa fremur verið tekin til umhugsunar.

Það hefur einnig komið í ljós að þessi möguleiki til framsals, eins og ég hef áður sagt, hefur ýtt undir úthafsrækjuveiðar og þar með fækkað skipum á hinum hefðbundnu botnfiskveiðum. Þessar reglur um framsal eru því grundvöllur þess að koma megi við hagræðingu og sparnaði og eru því óhjákvæmilegar í fyrirkomulagi eins og aflamarksleiðinni. Það er hins vegar grundvallaratriði að aflamark sérhvers skips sé sniðið sem best að þörfum þess og að sjálfsögðu nauðsynlegt að leitast við að gera það. T.d. er nauðsynlegt, ef aflamarksfyrirkomulagið verður ákveðið, að endurskoða kvóta skipanna í ljósi reynslunnar. Í nokkrum tilfellum hafa skip fengið meðalkvóta vegna atvika sem upp hafa komið, skipstjóraskipta, eigendaskipta og annarra atriða, og síðan komið í ljós að skipin hafa ekki ráðið við þessa meðalkvóta og hafa þeir verið framseldir að hluta og ekki notaðir af viðkomandi skipum. Einnig hafa rækjuskip og loðnuskip framselt töluvert magn. Það hefur orðið til þess að fleiri skip hafa farið til rækjuveiða og í mörgum tilfellum orðið til þess að loðnuskipin hafa ekki farið á hefðbundnar botnfiskveiðar. Það er að mínu mati mun eðlilegra að endurákvarða ýmsa kvóta í ljósi aðstæðnanna og reglur um skerðingu vegna annarra veiða en að útiloka millifærslu milli skipa og þá möguleika sem slíkt gefur til hagræðingar og sparnaðar.

Það má margt um það segja hvað við eigum að gera í ljósi þessarar reynslu. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að endurskoða reglur um stjórn fiskveiðanna á næsta ári í ljósi þessarar reynslu sem kallar á að nokkrar breytingar verði gerðar. Hægt er að hafa viðmiðun við aflamark fiskiskipanna, sem þau fengu, á árinu 1985 í stórum dráttum. Það þarf hins vegar að endurskoða núverandi meðalkvóta eftir föngum með — (Gripið fram í.) Já, ég hef kannske sagt vitlaust ár. Ég er að tala um það sem gæti orðið á næsta ári í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum orðið fyrir. Ég er að segja að að verulegu leyti mætti miða við þann aflakvóta, sem skipin fengu úthlutað í ár, á næsta ári, þó með ýmsum mikilvægum breytingum, t.d. að endurskoða núverandi meðalkvóta eftir föngum, m.a. með tilliti til þess hvernig þessi svokölluðu meðalkvótaskip hafa aflað í ár.

Ég tel einnig mjög mikilvægt að öllum útgerðum fiskiskipa verði boðið upp á sóknarmark sem annan valkost. Það er nú svo að reynslan af meðalkvótunum er ekki nægilega góð og það hefur einnig komið í ljós að sveigjanleiki kerfis, sem aflamarksfyrirkomulagið er, er ekki nægilega mikill. Það er ekki hægt að binda veiðarnar í því mynstri sem þær hafa verið í á þessum þremur árum sem miðað hefur verið við. Þess vegna verður að finna leið til að þeir, sem telja sig afskipta og hafa farið illa út úr skiptingunni, hafi möguleika til að brjótast út úr því og bæta sinn hag. Með því að heimila öllum að velja svokallað sóknarmark yrði ekki lengur þörf fyrir meðalkvótana. Þeir sem teldu sig afskipta gætu þá sýnt fram á það hvað þeir geta innan ákveðinna sóknarmarka. Það er hins vegar nauðsynlegt að binda þetta sóknarmark ákveðnum hámarksafla í helstu tegundum, t.d. þorski og karfa, eigi að tryggja það að ekki verði farið verulega fram úr þeim heildarmörkum sem sett eru.

Það kemur einnig til álita að ekki verði heimilt að breyta um val og ekki verði heimilt að skipta á kvótum eða sóknardögum milli skipa í sitt hvoru fyrirkomulaginu. Það hefur t.d. komið fram í áliti Fiskiþings að ekki sé rétt að heimila framsal á sóknardögum almennt þannig að ef skip velur þá leið þá verður það með því að sýna fram á hvað það getur.

Það er áreiðanlegt að margt má vera óbreytt í núverandi reglum og getur því reglugerðin verið n.k. beinagrind fyrir reglurnar á næsta ári. Frávikin gætu falist í ýmiss konar útfærslu reglnanna, t.d. að því er varðar ýmsar sérveiðar. Það er ljóst að ýmsar greinar núverandi reglna mega falla út eða breytast verulega, t.d. má nefna ákvæði um frátafir eiganda og skipstjóraskipti o.fl. slíkt. Margt getur verið óbreytt. T.d. má nefna ákvæði um veiðileyfi, flokkun skipa í útgerðarflokka og stærðarflokka, skiptingu aflans milli flokka og skipa, framkvæmd, eftirlit, viðurlög og margt fleira. Það er sérstaklega mikilvægt að þessi endurskoðun á núverandi reglum taki einnig sérstakt mið af gildistíma reglnanna og leyfisveitinganna, t.d. til hve langs tíma veiðileyfin eru gefin út. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að gefa út veiðileyfi til lengri tíma en þess sem lögin gilda. Það er hins vegar afar óheppilegt að vera að gera veigamiklar breytingar á hverju einasta ári og það er einnig mjög óheppilegt að vita lítið eða ekkert um það með hvaða hætti veiðunum verði stjórnað á næsta ári. Það skapar mikla óvissu hjá þeim sem þessa atvinnugrein stunda.

Einnig þarf að huga sem best að því að reglurnar geti auðveldað flutning skipa á milli landshluta og einnig auðveldað það að hægt sé að taka upp breytta útgerðarhætti. Verið er að vinna að því í rn. að útfæra sóknarmarkið betur og endurskoða það með tilliti til veiðarfæra, útgerðarhátta og stærðar skipa. Sú ráðgjafarnefnd, sem var að störfum í fyrra, er einnig að störfum nú. Ég tel það afar mikilvægt að það takist að útfæra sóknarmarkið það vel að það geti verið fýsilegur valkostur fyrir þá sem ekki vilja búa við aflamark, t.d. fyrir þá aðila sem vilja breyta um útgerðarhætti, fyrir þau skip sem hafa verið flutt á milli landshluta, þar sem um eigendaskipti hefur verið að ræða og þar sem nýjar áhafnir hafa komið og vegna annarra atriða sem alltaf koma upp í þessari atvinnugrein. Það getur því verið mjög hættulegt að binda menn í allt of fastar skorður í þessum efnum.

Hins vegar verðum við að hafa það í huga að fiskveiðistefnan verður að gera það kleift að auka gæði fiskaflans og bæta afkomu útgerðar og sjómanna í heild sinni. Við verðum einnig að hafa það í huga að þessi sama fiskveiðistefna tryggi sem best heildarhagsmuni landsmanna. Við verðum að hefja þessa hluti upp fyrir stundarhagsmuni og togstreitu einstakra aðila sem alltaf mun verða fyrir hendi. Þetta er erfitt verk en það verður best leyst með því að menn reyni að hafa sem besta samvinnu um að leysa verketnið en flýja ekki frá því, enda mun það aðeins auka vanda okkar. Það er höfuðskylda stjórnvalda, Alþingis, sjómanna, útgerðarmanna og annarra landsmanna að standa vörð um fiskistofnana og sjá svo til að þeir séu sem best nýttir fyrir okkar þjóðfélag.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa miklu fleiri orð um þetta mikilvæga mál. Hér er lagt fram frv. sem byggir á því frv. sem flutt var á s.l. ári og gerir ráð fyrir því að veittar séu heimildir til að stjórna fiskveiðunum. Það gerir ráð fyrir því að bæði sé heimilt að gera það með því að setja aflamark á einstök skip og einnig að sóknartakmarkanir eða sóknarmark á einstök skip sé notað. Þær breytingar sem hér eru helstar frá frv. á s.l. ári eru að betur koma fram heimildir til að úthluta svokölluðu sóknarmarki. Þá er einnig gert ráð fyrir því að hægt sé að úthluta aflamarki skips sem hverfur úr rekstri af hagkvæmnisástæðum eða vegna sjóskaða til útgerðarfyrirtækis skips eða fiskvinnslufyrirtækis þess sem skipið hefur einkum lagt upp afla hjá. Það er nú svo að skip eru ekki annað en tæki til að afla fólki lífsbjargar og ef eitt byggðarlag missir sitt skip þá er þörfin hin sama fyrir hráefni til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi. Hins vegar setja þau þessum byggðarlögum takmarkanir varðandi stækkun fiskiskipaflotans. Ég tel eðlilegt að einhver slík heimild sé fyrir hendi þó að hún sé vandmeðfarin. Ég tel nauðsynlegt að um það sé fjallað hér á Alþingi hvort slík heimild skuli vera fyrir hendi og með hvaða hætti megi beita henni.

Þá kemur fram í lögunum að settar verði reglur um úthlutun eða framsal á aflamarki og sóknardögum og riftun á þessu sama aflamarki ef talin er ástæða til. Það er nauðsynlegt í ljósi reynslunnar að setja frekari reglur um þetta atriði, ekki með því að útiloka það, eins og ég sagði áður, heldur að þar séu takmarkanir fyrir hendi og það þurfi að fara í gegnum ákveðna vinnslu.

Þá er einnig gert ráð fyrir því að lög þessi gildi frá 1. jan. 1985 til ársloka 1987. Það er einfaldlega lagt til til þess að ekki þurfi á hverju einasta ári að leita nýrra heimilda til stjórnunar veiðanna, m.a. svo að hægt sé að svara því hvað muni gilda á næsta ári og skapa meiri vissu fyrir þá aðila sem við reglurnar eiga að búa. T.d. getum við litlu um það svarað við hvað menn eiga að búa á næsta ári. Jafnvel þótt um það séu ýmsar hugmyndir er engu hægt að svara þeim mönnum sem spyrja slíkra spurninga svo víst geti talist vegna þess að lög þau, er nú gilda, falla úr gildi um n.k. áramót.

Á næstunni munu ýmsir aðilar fjalla um þessi mál. Fiskiþing hefur þegar ályktað um stjórn veiðanna á næsta ári. Einnig hefur þing Sjómannasambands Íslands fjallað nokkuð um þau mál. Sú ráðgjafarnefnd, sem nú er að störfum, mun leggja á það áherslu að ljúka starfi sínu sem fyrst. Hins vegar er eðlilegt að það taki nokkurn tíma og ég vænti þess að hæstv. sjútvn., sem fjallar um þessi mál, fái tækifæri til að kalla á alla þessa aðila og leita upplýsinga um málið.

Það væri afar þýðingarmikið að hægt væri að afgreiða frv. þetta eins fljótt og nokkur kostur er. Því vildi ég mega fara fram á það við sjútvn.-menn og formann n. að leitast sé við að samstarf verði haft við sjútvn. Nd. Ég veit að áreiðanlega er ekkert því til fyrirstöðu, enda mikið tímahagræði að því þegar leita þarf eftir margvíslegum upplýsingum víða að um mál þetta. Það var afar slæmt hversu stuttan tíma sjútvn. höfðu til umfjöllunar á máli þessu fyrir jólaleyfi á s.l. ári þótt verulega væri úr því bætt með fundum um málið eftir áramót. Því vænti ég þess að nú verði betri tími til að fjalla um málið.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.