14.11.1984
Efri deild: 14. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hér er tæplega ársgamall kunningi á ferð. Rétt fyrir jólin í fyrra 1983 var líkt frv. til umr. hér í hv. efri deild og var þá eins og nú kallað kvótafrv. Þó er í eðli sínu ekki verið að samþykkja einn eða neinn kvóta með því frv. sem hér liggur fyrir, heldur er verið að samþykkja það hverjir skuli stjórna og hvernig skuli stjórna fiskveiðum. Aðalinntak þessa frv. finnst mér vera það að verið er að leita eftir samþykkt til að heimila ráðh. allsherjar fiskveiðistjórnun á miðunum umhverfis Ísland næstu þrjú árin.

Þetta stingur dálítið í stúf við þá umr. sem hæstv. ráðh. hélt uppi á fyrstu mánuðum eða vikum stjórnarferils síns þegar hann fór um landið og hélt fundi með útvegsmönnum og sjómönnum. Þá lét hann í það skina m.a. að frv. þessu líkt hefði verið niðri í skúffu hjá honum þegar hann tók við ráðherraembætti, það hefði verið undirbúið af fyrirrennara hans, hæstv. núv. forsrh., og í því fælist m.a. að fela skyldi ráðh. þessi miklu völd, að hann hefði skipunarvald til þess að segja að svona skyldi fiskað, svona skyldi sótt á sjó næsta árið. Þá var talað um, eins og hér hefur komið fram í umr., að þetta skyldi vera gert í tilraunaskyni til eins árs. Það var mjög undirstrikað hér í umr. í fyrra að þetta skyldi eingöngu vera til eins árs vegna þess að flestallir voru sammála um að hér væri verið að fara inn á mjög hættulega braut, inn á þá braut sem enginn atvinnuvegur mundi geta staðist til lengdar öðruvísi en það hefði mjög neikvæð áhrif á atvinnuveginn.

Nú blasir við að eftir eins árs reynslu af þessari stjórnun og þessu valdi í sjútvrn. þá hefur það orðið ofan á að leggja til að Alþingi samþykki að þetta vald skuli vera ákveðið til þriggja ára. Þau rök eru færð fyrir því að það sé voðalega erfitt fyrir þá sem stunda atvinnugreinina að vita ekki hvað þessi eða hin stjórnunin muni lengi ríkja yfir þeim og það sé miklu æskilegra að fá það fram nú þegar að þessi háttur skuli hafður á, ekki í eitt ár eins og sagt var að mundi nægja í fyrra og þá var reyndar talað um að væri mjög hættulegt, heldur að nú skuli þetta vera ákveðið í þrjú ár.

Ég vil undirstrika það að þetta sé sá þátturinn sem við fyrst og fremst eigum að ræða í sambandi við þetta frv. Umr. um þennan þátt tók þó nokkurn hluta Fiskiþings og ég vil leyfa mér að lesa hér upp hluta úr ræðu eins fiskiþingsfulltrúans, eins af frammámönnum íslensks sjávarútvegs í áraraðir, Þorsteins Jóhannessonar í Garði. Hann sagði um þennan þátt og um það frv. sem hér liggur fyrir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er í undirbúningi frv. um stjórn fiskveiða þar sem sjútvrh. er falið slíkt alræðisvald við stjórnun veiða og ákvörðun hámarksafla að það vantar ekkert á nema hakakrossinn.“

Þetta eru ansi stór orð þekkts sjávarútvegsleiðtoga, en ég er hræddur um að þeir séu margir, jafnvel þeir sem hafa að ýmsu leyti staðið að kvótakerfinu og talið það nauðsynlegt, sem óttast þá þróun að leitað verði lengra og lengra í þá átt að það verði allsherjar stjórnun opinberra aðila á þessum atvinnuvegi. Ég lýsi mig algerlega andvígan þessu. Ef ríkisstj. er á því að halda skuli áfram kvótakerfinu þá er nægilegt að biðja um þetta vald í eitt ár. Það breytir engu í sambandi við stjórnun fiskveiðanna hvort þetta vald er framlengt til eins árs eða þriggja. En þarna er verið að fara inn á braut sem ég tel vera mjög vafasama og neikvæða fyrir atvinnuveginn.

Áður en ég fjalla frekar um frv. vil ég nefna að ég bjóst við því að við 1. umr. hér í deildinni fengjum við að heyra mun ákveðnari skoðun frá hæstv. sjútvrh. um það að hverju yrði stefnt í sambandi við stjórnun fiskveiða en kom fram í ræðu hans áðan. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að svo skyldi ekki hafa verið. En svo virtist vera að allt stefndi að því að þegar væri ákveðið að hverju skyldi stefna um stjórnun fiskveiða næstu árin fyrir nokkrum vikum eða fyrir Fiskiþing. Ráðh. kom á fund suður á Suðurnesjum og hann kom á Fiskiþing og lýsti með ansi ákveðnum orðum eftir því sem eftir honum var haft að hverju skyldi stefnt. En ræða hans hér áðan benti til annars og ég fagna því að það skuli vera umræða um það í rn. að leita annarra leiða en farnar voru á s.l. ári sem að ýmsu leyti hafði verið þannig um rætt að manni virtist að þær væru þegar ákveðnar.

Í grg. frv. er nefnt og ráðh. nefndi það hér í sinni ræðu að sú ákvörðun í fyrra að fara að aflamarksfyrirkomulaginu hefði verið tekin eftir að Hafrannsóknastofnun lýsti því yfir að þorskstofninn væri í mikilli lægð. Ég hafði þá tilfinningu að eftir að Hafrannsóknastofnun lýsti því hvernig þorskstofninn stæði í fyrrahaust hefðu menn verið í nokkrum vafa um hvað gera skyldi og ýmis umr. fór fram í þjóðfélaginu um það hvað nú skyldi til bragðs taka. Þing LÍÚ kom saman og þeim tókst ekki að taka þar neina ákvörðun um hvað gera skyldi, hvernig mæta skyldi þeim vanda sem við blasti og það kom ekki nein sérstök ábending frá rn. fyrr en allt í einu eftir að Fiskiþing hafði verið haldið. En á síðasta fiskiþingi var samþykkt með meginþorra atkv. fiskiþingsmanna að fara út í aflakvóta. Mér hefur því alltaf fundist að ákvörðunartekt í sambandi við það hvernig fiskveiðum var stjórnað á s.l. ári hafi fyrst og fremst farið eftir till. Fiskiþings og þaðan hafi komið fyrst og fremst sá hvati sem varð til að þessi leið var valin. Eftir að Fiskiþing hafði samþykkt þessa leið komu reyndar samþykktir frá öðrum samtökum bæði útvegsmanna og sjómanna hlynntar því að þessi leið yrði farin. Bak við það hefur sjálfsagt verið sá spádómur Hafrannsóknastofnunar að þorskstofninn væri jafnilla kominn og þeir höfðu upplýst.

Fram kemur í grg. að aflamarksfyrirkomulagið varð fyrir valinu og þar hafi fyrst og fremst fjórar ástæður vegið þyngst. Sú fyrsta var sú að frekari sóknartakmörkun á þorskveiði en þegar hefði verið gripið til yrði ekki komið við þar sem slíkt leiddi aðeins til aukinnar sóknar í aðra botnlæga fiskistofna, svo sem ýsu, karfa, ufsa og grálúðu, sem þegar voru taldir fullnýttir að mati Hafrannsóknastofnunar. Ég hef aldrei og get ekki enn þá fundið fullkomin rök fyrir því að ekki hefði verið hægt að einhverju leyti að draga úr sókn í þessa stofna án þess að beita því aflatakmarksfyrirkomulagi sem beitt var á s.l. ári. Það fyrirkomulag veldur því nú að svo virðist sem það takist ekki að veiða þann fiskistofninn sem er dýrmætastur af þeim stofnum sem hér eru upp taldir, þ.e. ýsuna. En eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan virðist sem svo að togararnir hafi ekki getað náð ýsunni eins og þeirra kvóti gefur tilefni til.

Það eru ýmsar raddir uppi um karfann. Það má vel vera að þar sé allt á ystu mörkum og þar hafi verið sótt ógætilega á síðustu árum. En ýmislegt bendir þó til að á karfastofninn t.d. hér suður með landinu, á Reykjaneshrygg og Rockallsvæði, mætti ekki leggja aukinn þunga í sókn. Og í sambandi við ufsann þá var varla búið að setja kvótann á fyrr en allt í einu var undanþegin sókn í ufsann hér fyrir Suðurlandi. Rökin fyrir þessum þætti finnst mér því vera ansi léttvæg.

Önnur ástæða, sem hér er tilgreind er sú að mjög erfitt sé talið, eins og fyrri reynsla hefur sýnt, að takmarka þorskveiðina með kvótatakmörkun við nákvæm mörk. Það var nú svo. Hv. 4. þm. Vestf. lýsti því hér áðan í ræðu sinni hvernig sú takmörkun hefur raunverulega farið og að hverju stefnir með þorskveiðina. Það virðist sem svo að sú takmörkun, sem um var rætt, hafi farið langt fram úr þeirri takmörkun. Til viðbótar býður þessi leið þeirri hættu heim að afli, sem dreginn hefur verið á skip, komi alls ekki að landi. Því miður hefur þetta átt sér stað í allt of mörgum tilfellum og í ótrúlega stórum mæli. Ég hef heyrt þessu mótmælt. M.a. hefur hæstv. ráðh. sagt: Ég trúi því ekki að íslenskir sjómenn geri slíkt. Þar er vísað til þess að íslenskir sjómenn viti hvað okkar fiskur er dýrmætur og það megi ekki eiga sér stað að þessu dýrmæta hráefni okkar sé kastað. En þegar fiskimaðurinn stendur frammi fyrir því að ef hann kemur með lélegan afla að landi er hann að skerða þann möguleika að hann geti við aðrar aðstæður komið með góðan afla og kannske líka að stuðla að því að hann þurfi að kaupa sér kvóta til þess að koma með góðan afla á landi síðar á árinu og halda áfram veiðum, er það þá ekki neyðin, bæði varðandi rekstrargrundvöll hans eigin skips og atvinnu skipshafnar hans. sem kallar á þessa ákvörðun? Ég fullyrði að þetta hefur því miður átt sér stað í allt of mörgum tilfellum.

Ég held þess vegna að betur hafi tekist að setja sóknartakmörkuninni ákveðin mörk með skrapdagakerfinu. Við vissum þá nokkurn veginn upp á hár hvað fiskað var og sú hætta að við fiskuðum of mikið og það yrði ekki mælt inn í kvótann, eins og hv. 4. þm. Vestf. benti á áðan, var ekki fyrir hendi. Við nálgumst miklu frekar hættu á hruni stofnsins með þeirri leið sem við völdum í ár en með þeirri aðferð sem við notuðum áður.

Þriðja ástæðan, sem hér er tilnefnd, er sú að aflamarksfyrirkomulagið tryggi betur en nokkur önnur leið við stjórn fiskveiða að sá afli, sem til skipta er, dreifist eins jafnt og réttlátlega á byggðarlög og fiskiskip og kostur er á. Það er nú svo. Eins og hv. alþm. er kunnugt var aflamarkið metið út frá þriggja ára reynslu og sjálfsagt var ekki hægt að finna aðra leið til að búa til aflamark en þá sem valin var. En eins og við sem höfum fengist við sjávarútveg og flestir Íslendingar þekkja getur afli á þriggja ára tímabili á ákveðnu svæði á Íslandi verið tregur og meðaltal þessara þriggja ára komið illa út á heilu landssvæði. Það er því af og frá að kvótaleiðin hafi tryggt eitthvert réttlæti í skiptingu á milli landshluta eða á milli báta.

Við segjum það t.d., Breiðfirðingar, að við höfum komið mjög illa út úr kvótaskiptingunni, m.a. vegna þess að hin miklu aflaár 1981 og 1982 sótti þorskurinn ekki mjög mikið á mið Breiðfirðinga. Þar af leiðandi fórum við illa út úr kvótanum þegar farið var að reikna út meðaltal. Við fórum reyndar ekki aðeins illa út úr kvótanum vegna þess heldur líka vegna þess að landssvæðin eru breytileg gagnvart þessum ákveðnu fiskistofnum sem verið er að skipa upp. Kvótinn var jafn ranglátur gagnvart þessum þætti sem öðrum.

Fjórða ástæðan er sú að með aflamarksfyrirkomulaginu megi koma við sparnaði og hagkvæmni í rekstri fiskiskipa, m.a. vegna þess að hægt sé að færa aflakvóta á milli skipa, fækka þar með skipum í rekstri og fleira er hér talið upp. Þetta var eitt af aðalatriðunum. Nú skyldi koma á hagkvæmni í rekstri. Okkur var sagt það hér í umr. og okkur var sagt í umr. úti í þjóðfélaginu að nú gætu duglegir skipstjórar og þeir sem vildu haga rekstri sínum vel bara kippt aflanum upp, ef hann býðst, á nokkrum dögum. Maður heyrði það jafnvel eftir frammámönnum í sjávarútveginum. Og svo væri bara hægt að leggja flotanum.

En þegar liður fram á sumarið fara að heyrast raddir um að kvótinn sé búinn, þetta skipið og hitt skipið sé búið með kvótann sinn og í þessu eða hinu byggðarlaginu blasi við atvinnuleysi o.s.frv. Þá kom allt í einu annað hljóð í strokkinn. Þá var talað um ábyrgðarleysi þeirra skipstjóra og útgerðarmanna, sem hefðu leyft sér að moka upp fiskinum og notfæra sér þetta sjálfsagða kerfi sem hafði verið búið til. Þá voru þeir fyrirhyggjulausir menn. Þessi röksemd fellur því líka um sjálfa sig. Reynslan af þessari röksemd kom fram um mitt sumarið í sumar. Það hefur lítið verið nefnt núna undanfarið. Hún var túlkuð á þann veg að það ætti ekki að beita henni.

Þá er að nefna þá skoðun að kvótakerfið leiði til sparnaðar eins og fullyrt er hér í grg.: „Þá kom einnig á daginn að nokkuð dró úr veiðarfæranotkun á vetrarvertíð því að bátar réru með færri net en áður.“ Það mun satt vera að bátar réru með færri net. Og ég ætla að bæta því við að á vetrarvertíð í vetur var nokkuð um það sem mun ekki hafa tíðkast mikið fyrr en þá, og ég er alveg hissa að það skuli ekki koma fram hér í grg., að bátar tóku upp net um helgar. Þeir gerðu þó nokkuð af því að taka upp net um helgar og forða því þar með að fiskur yrði tveggja nátta. En hvað hafði gerst samhliða því að bátar höfðu fækkað netum? Það hafði gerst að skipstjórar og útvegsmenn höfðu fækkað mönnum um borð í bátunum. Hvað þýðir þetta? Tíðarfarið s.l. vetur var með eindæmum gott. Það féll ekki úr einn einasti róðrardagur á Breiðafjarðarmiðum á stærri bátum og svipað er að segja um Suðurlandsmið. En ef tíðarfar hefði verið í einhverri líkingu við það sem var á vetrarvertíð 1983 hefði fækkun fólks um borð í bátunum þýtt það að eftir landlegu hefði verið nær ómögulegt að draga þau net sem í sjó voru. Þetta hefði ekki aðeins þýtt aukna veiðarfæranotkun heldur hefði komið verri afli að landi eða þau ósköp hefðu skeð að meiri fiskur hefði farið í sjóinn aftur. Þessi röksemd hefur því ekki staðist dóm reynslunnar frekar en flestar aðrar í sambandi við kvótann.

Það er sagt hér í grg.: „Nýting veiðarfæra varð betri og fiskgæði á vetrarvertíð jukust frá árinu áður skv. gæðaskýrslu Fiskifélags Íslands.“ Ég veit að þetta er rétt og það hefði verið ómögulegt annað en svo hefði orðið vegna tíðarfarsins á s.l. vertíð miðað við tíðarfarið á vetrarvertíð 1983. En sagan er reyndar ekki öll sögð með því heldur hinu, sem ég hef nefnt áður, að kvótinn kom því til leiðar að menn pössuðu sig um helgar. Það er ljós punktur í sambandi við kvótann. Ég efast um að það sé beinlínis hægt að eigna kvótanum það, heldur hafa sjómenn og útvegsmenn gert sér grein fyrir því að það er þörf á því að sækja sjó á þann máta eða taka veiðarfæri úr sjó yfir helgar. En ég er ekki frá því að kvótinn hafi ýtt á það að sú þróun komst af stað.

Það kom fram í ræðu hv. 4. þm. Vestf. að það er ekki alveg víst að þó að gæði aflans hafi orðið betri á vetrarvertíð þá hafi farið eins á sumarvertíð. Þar skeðu þau ósköp að afli á viðkvæmasta tímabilinu, þ.e. í júlí og ágúst, stórjókst frá fyrra ári. Ég held að það hafi verið viðurkennt að þó að margt hafi farið öðruvísi á vetrarvertíð og þó nokkuð hafi farið úrskeiðis og fiskur hafi verið lélegur á vetrarvertíð, þá hafi ekki átt sér stað eins mikill skaði og yfir miðsumarið, vegna þess að á vetrarvertíðinni hefur verið og er enn hægt að koma aflanum í aðrar verkunaraðferðir. Skreiðin hefur þar bjargað miklu, hún gerði það líka á s.l. vetri, en þó munar mest um saltfiskinn. Það er verið að veiða annan fisk. Yfirleitt er það miklu stærri fiskur og betri til vinnslu í saltfisk en sá togarafiskur sem aðallega er veiddur yfir sumarið. Ef kvótinn hefur því komið einhverju góðu til leiðar yfir vetrarvertíðarmánuðina í sambandi við gæði þá hefur það því miður farið á hinn veginn yfir sumarið, að meira hefur farið úrskeiðis í sambandi við gæðin þá en áður vegna kvótans.

Skv. því sem haldið er fram í grg. hefur þeim markmiðum verið náð í stórum dráttum sem stefnt var að í upphafi. Eins og ég hef sagt hér á undan er það mín skoðun að þeim markmiðum sem stefnt skyldi að með kvótanum hafi ekki verið náð að meginhluta til. Það kemur hér fram í grg. að hagsmunasamtök sjávarútvegsins hafa tekið þátt í mótun og stutt þá stefnu sem fylgt var. Ég gat þess hér í upphafi að svo var. Það hefur farið mikil umr. fram meðal útvegsmanna og sjómanna um þessi mál. Ég geri ráð fyrir því að á næstu vikum verði haldin þing Landssambands ísl. útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Þegar hefur verið haldið Fiskiþing og Sjómannasambandsþing. Við megum vænta þess að öll þessi félagasamtök sendi frá sér álitsgerð um stjórnun fiskveiða, bæði um liðið ár og komandi ár. Það fór svo á Fiskiþingi að tillaga um áframhaldandi kvótaskiptingu, eins og var á s.l. ári, var reyndar samþykki, en á mjög merkilegan hátt. Hún var samþykki þar með 14 atkv. af 35 manna þingi. Ég ætla ekkert að fullyrða um það hve margir fulltrúar hafa verið á móti, en mér býður í grun — (ÞK: Var það lokaatkvgr.?) Það var önnur atkvgr., en ég hef grun um að meiri hluti Fiskiþings hafi ekki treyst sér til þess að samþykkja till. (Forseti: Ég verð að vekja athygli hv. 4. þm. Vesturl. á því að við erum að komast í tímaþröng, þannig að ef hann hefur hugsað sér að tala öllu lengur þyrfti ég að fresta umr. nú í miðri ræðu hans.) Já, virðulegi forseti. Ég mun stytta mál mitt, enda kemur þetta frv. fyrir þá nefnd sem ég á sæti í og, eins og formaður n. hefur tekið hér fram, verður þetta frv. skoðað þar.

En ég vil nefna ákvæði 5. gr., þ.e. að opna ákveðin svæði til veiða á vannýttum fiskitegundum. Sjálfsagt er þetta góðra gjalda vert, en þarna þarf að fara með ansi mikilli varúð. Sú opnun, sem átti sér stað á Breiðafirði í haust til þess að ná þar kola, var gerð á þann máta sem ég held að sé ekki til fyrirmyndar, þ.e. hún var auglýst og Breiðfirðingar fundu þar fyrst og fremst fyrir valdinu. En með því að opna svæðið svo að togararnir hefðu möguleika til að komast að kolanum var um leið verið að loka svæði þar sem línubátar hefðu getað náð afla eins og þeim dýrmæta fiski ýsu. Verið var að loka svæðum þar sem heimabátar við Breiðafjörð höfðu í áraraðir stundað línuveiðar á þessum sama tíma. Ég vil bara vekja sérstaka athygli á þessu ákvæði. Ég vil koma mótmælum Breiðfirðinga, a.m.k. við utanvert Snæfellsnes, gegn þessari breytingu á framfæri.

Ég mun ekki orðlengja þetta frekar. Ýmislegt fleira hefði ég getað sagt við þessa umr. en ég sé ekki ástæðu til að lengja hana frekar en orðið er.