14.11.1984
Neðri deild: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

32. mál, stjórnarskipunarlög

Kristófer Már Kristinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Guðmundi Einarssyni að flytja á þskj. 32 frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að 39. gr. stjórnarskrárinnar hljóði svo, með leyfi forseta:

„Hvor þingdeild getur skipað nefndir innandeildarþingmanna til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Fastanefndir Alþingis hafa eftirlit með framkvæmd laga.

Nefndir Alþingis hafa rétt til að heimta hvers konar skýrslur bæði af embættismönnum og einstaklingum. Fundi nefnda Alþingis skal halda í heyranda hljóði.“

Þessi frvgr. er að því leyti frábrugðin tillögum stjskrn. að hún kveður á um eftirlitsskyldu fastanefnda Alþingis með framkvæmd laga og að fundir nefnda Alþingis skuli vera opnir öllum.

Herra forseti. Bandalag jafnaðarmanna hefur haldið því fram og lagt á það áherslu að orsakir margra af stærstu og alvarlegustu vandamálum íslensku þjóðarinnar sé að finna í meingallaðri útfærslu á stjórnkerfinu. Til þess að leggja áherslu á þær breytingar sem BJ telur óhjákvæmilegar hafa þm. þess flutt tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum lýðveldisins. Það er rétt að ítreka það að þm. BJ munu ekkert draga í land með þennan tillöguflutning á komandi þingum. Þeir munu halda áfram að flytja þessar tillögur og aðrar sem stuðla að þeirri valddreifingu, nýsköpun og virkni, sem stjórnkerfi okkar þarfnast svo brýnt, á meðan tilefni gefst til, sem að öllum líkindum verður lengi enn. Það er skoðun okkar að hv. þm. sé hollt að ræða ekki bara við og við heldur nánast daglega grundvallaratriði sem snerta valdsvið einstakra þátta ríkisvaldsins, hlutverk löggjafans og möguleika hans á að gegna hlutverki sínu af trúmennsku og reisn.

Herra forseti. Við höfum lagt á það áherslu að réttur til útgáfu brbl. og þingrofs sé úreltur í nútíma samfélagi og hafi verið gróflega misnotaður af stjórnmálaflokkum hérlendis. Við teljum hv. þm. kjörna til löggjafarstarfa og að kjörbréf þeirra eigi ekki að vera ávísun á bankastjóra- eða kommissaraembætti úti í bæ. Það eru líka rök í þessu máli að okkar mati að hv. þm. eigi ekki að þvælast fyrir framkvæmdavaldinu með setu í stjórnum og ráðum sem eru á þess vegum. Glíman við atgervislítið og steinrunnið embættismannakerfi er ærið verkefni fyrir metnaðarfullar ríkisstjórnir.

Við leggjum áherslu á að kjósendum séu sköpuð skilyrði til þess að velja á milli einstaklinga á mismunandi framboðslistum í kosningum í kosningum en ekki einungis á milli lista. Jafnframt leggjum við áherslu á að hv. þm. eru eða eiga að vera fulltrúar fólks en ekki fermetra.

Herra forseti. Það kemur okkur engan veginn á óvart að tillöguflutningur okkar vekur hvorki almennan áhuga né hrifningu hér í þessari virðulegu stofnun. Okkur er ljóst að við erum að þessu leyti talsmenn breyttra viðhorfa, annars gildismats en tíðkast innan dyra hjá stjórnmálaflokkum hérlendis. Þegar verið er að gagnrýna störf hins háa Alþingis verður ekki fram hjá því gengið að aðstæður hv. þm. til að sinna hlutverki sínu eru á flestan hátt óviðunandi. sama gildir um starfsaðstöðu þess fólks sem ætlað er að létta hv. þm. störf þeirra: Þetta réttlætir þó alls ekki að hv. þm. leiti útrásar fyrir starfslöngun sína og vilja til góðra verka úti í bæ. Verðugra viðfangsefni væri að skapa hér á hinu háa Alþingi þau starfsskilyrði sem gerðu hv. þm. kleift að sinna löggjöf og eftirliti með henni á viðunandi hátt, að veita framkvæmdavaldinu það aðhald sem dygði og það þarfnast svo brýnt.

Herra forseti. Það frv. sem hér er talað fyrir miðar að því að taka af öll tvímæli um eftirlitsskyldu þingnefnda með framkvæmd laga. Það er ljóst, að þetta er vandasamt og tímafrekt hlutverk. En flm. telja þetta mikilvægasta verkefni löggjafans næst á eftir lagasetningu. Valdaafsal hv. þm. til embættismanna í ráðuneytum er ástæðulaust og niðurlægjandi. Það er óviðunandi að sömu aðilarnir semji lagafrv., geri við þær athugasemdir, veiti umsagnir og sjái síðan um framkvæmd þeirra. Þessu verður að breyta og því verður ekki breytt annars staðar en hér á hinu háa Alþingi.

Það er skoðun flm. að með virku eftirliti með framkvæmd laga muni skapast þær aðstæður að hv. þm. veiti ríkisstjórn og sjálfum sér aðhald og að frumkvæði verði til í nefndum bæði til lagabreytinga og setningar nýrra laga. Það er jafnframt skoðun flm. að með því að halda fundi þingnefnda fyrir opnum tjöldum sé verið að veita þegnunum þau sjálfsögðu lýðréttindi að fylgjast með störfum löggjafans enn frekar en núverandi aðstæður gera ráð fyrir. sömuleiðis er ekki ósennilegt að eitthvað dragi úr þrugli og óþarfa málþófi og málæði á nefndarfundum.

Herra forseti. Þetta frv. til breytingar á stjórnarskipunarlögum flytjum við eins og aðrar breytingar á sömu lögum vegna þess.að við trúum því að stjórnkerfið sé á villigötum og að forsenda betra og göfugra mannlífs með þessari þjóð sé að gera grundvallarbreytingar á því. Við þm. BJ höfnum þeirri 19. aldar skoðun að í pólitík séu einungis tvö sérleyfi, annað á vinstri kanti og hitt á hægri kanti í gagnstæða átt. Við áskiljum okkur rétt til ferðafrelsis í pólitík, eftir því sem samviska okkar og skynsemi býður, án þess að vera til vinstri eða hægri eða þá vinstra eða hægra megin við miðju. Við teljum gömlu öfgasérleyfin úrhelt og höfnum einstefnu, hvort sem er á vinstri eða hægri kanti, en tökum undir allar hugmyndir og tillögur sem stuðla að betra mannlífi þar sem reisn einstaklingsins, réttur hans til lífsgæða og hamingju er í fyrirrúmi.

Herra forseti. Við teljum að þetta frv., verði það að lögum, muni þumlunga okkur í rétta átt. Að lokum geri ég það að till. minni að málinu verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.