14.11.1984
Neðri deild: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Eftir að hafa hlustað á hinn langa lista sem lesinn var hér upp í upphafi þingfundar um fjarvistarbeiðnir frá þm. get ég ekki orða bundist að segja hér örfá orð þar sem kvartað hefur verið undan því að nefndir þingsins störfuðu ekki eðlilega. Það tefur nefndarstörf í þinginu verulega að hér skuli ekki vera fullskipað Alþingi og jafnmikið sé um fjarvistir. Ég vil í því sambandi, með leyfi forseta, lesa hér upp 34. gr. fundarskapa:

„Skylt er þm. að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina. Heimilt er forseta að veita þm. brottveruleyfi, þó eigi lengur en tvær nætur að nauðsynjalausu nema deildin samþykki.“

Það sem ólesið er af greininni fjallar um annað efni. 138. gr. kosningalaga, sem ég vil einnig með leyfi forseta fá að lesa hér, hljóðar svo:

„Varamenn þm. í kjördæmi taka þingsæti eftir reglum þeim er greinir í 111. gr. þegar þm. þess lista, sem þeir eru kosnir á, falla frá eða forfallast og án tillits til þess hver þm. listans það er.“

Það er rétt að geta þess að það sem ólesið er af þessari grein fjallar um annað efni.

Nú ber svo til að kosningalögin eru ný, svo til. Þau eru frá árinu 1983 og í þeirri endurskoðun þótti ekki rétt að breyta þessum ákvæðum eða slaka á þeirri kröfu að þingið væri fullskipað. Ég tel að það sé orðið heldur hvimleitt að það virðist vera geðþóttaákvörðun þm., þegar þeir fara burtu og eru m.a. erlendis, hvort þeir kalla inn varamenn eða ekki. Ekki veit ég hvort prófkjörin hafa einhver áhrif á það, en undarlegt má það vera ef menn telja að þetta komi ekki niður á störfum þingsins. Ég vil því eindregið beina því til forseta að hann færi það í tal við forseta Sþ. hvort ekki sé hægt að fá hreinni línur í þeim efnum hvenær eigi að kalla inn varamenn og hvenær ekki og jafnframt að forsetar þingsins geri sér grein fyrir því að þetta hefur veruleg áhrif á störf nefnda hér í þinginu.

(GJG: Herra forseti. Var þessi ræða um láglaunahópa eða utan dagskrár?)

(Forseti: Til upplýsingar fyrir hv. 7. þm. Reykv. var þetta um þingsköp, hvorki utan dagskrár né um láglaunahópa.)