14.11.1984
Neðri deild: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

51. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er hreyft merku máli, en óneitanlega vekur það mjög margar spurningar að hlusta á þær upplýsingar sem komið hafa fram í máli frsm. Sérstaklega vekur það athygli að bæði meðal bankamanna og BSRB er meiri hluti hinna starfandi aðila konur. Og samkvæmt rökréttri hugsun er ekkert því til fyrirstöðu að þær stjórni báðum þessum samtökum og skipi þannig annan hópinn við samningaborðið. M.a.s. samkvæmt þeim leikreglum sem nú gilda í verkalýðshreyfingunni, þar sem ekki er um hlutfallskosningar að ræða, gætu þær haft völdin.

Ég hygg að það sé ekki síður verkefni fyrir félagsfræðing að meta það hvers vegna þetta hefur ekki gerst. Hvers vegna hefur það gerst, þrátt fyrir þennan mikla fjölda, að karlmenn eru þarna kosnir til forustu jafnákveðið og raun ber vitni? Er ástæðan e.t.v. sú að það eru ekki hlutfallskosningar, að það eru ekki leyfðar hlutfallskosningar? Er það eitt af því sem þarf að taka upp í stéttarfélögunum, að leyfa þar hlutfallskosningar, til að auðvelda t.d. konum að ná þeirri hlutdeild í stjórnum þessara félaga sem eðlilegt er?

Ég hygg að það sé alveg rétt metið hjá hv. 7. landsk. þm. að það hefur áhrif hverjir skrifa undir kjarasamningana, það hefur áhrif. Og vafalaust er mjög þarft að fá fram þá athugun sem hér er verið að óska eftir. En það breytir ekki þeirri staðreynd að ef aðilar vinnumarkaðarins standa þannig að þessum málum að það leiði til mismununar á þann veg, að ef konur ná meiri hluta í einhverri starfsgrein þá lækki hún sem heild í launum og verði metin sem kvennastarfsgrein, þá hlýtur það að hluta til að vera vegna þess að þeir sem sitja við samningaborðið og skrifa undir samningana hafa þessa afstöðu. Og þá verður öll baráttan til einskis nema konur fylki liði og nái réttlátri hlutdeild í þessum stofnunum. Þar á ég við í verkalýðshreyfingunni. Ég tel það mjög tímabært að þær geri það og vek athygli á þeirri sterku stöðu sem þær hafa hjá þessum stéttarfélögum til að ná þar meiri hluta og stýra þeim.