14.11.1984
Neðri deild: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

139. mál, fæðingarorlof

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 144 höfum við hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson leyft okkur að flytja brtt. við lög nr. 97 frá 1980, um fæðingarorlof, sem var breyting á lögum um almennar tryggingar, nr. 67 frá 1971, með síðari breytingum. Þetta frv. var flutt á 105. löggjafarþinginu. 1. flm. var þá hæstv. félmrh. Alexander Stefánsson, meðflm. þeir sem endurflytja frv. nú.

Ein efnisbreyting er gerð á frv. frá fyrri flutningi þess, sú að í stað þriggja mánaða fæðingarorlofs komi fjórir mánuðir.

Flm. telja mikilvægt að móðir sé ekki neydd til að vinna utan heimilis fyrstu mánuðina eftir barnsburð. Hvað sá tími þarf að vera langur mun vera einstaklingsbundið. Enginn vafi leikur á því að æskilegt er að fæðingarorlof sé a.m.k. 9 mánuðir og að því beri að stefna að ná því marki. Í Svíþjóð er fæðingarorlof t.d. 9 mánuðir og þó fá konur þar, sem þurfa eða vilja vera lengur yfir börnum sínum, viðbótargreiðslu allt að því 1 ár eða 3 mánuði til viðbótar. Flm. er það hins vegar ljóst að því marki verður tæpast náð nema í áföngum, jafnvel þótt efnahagsástandið væri skárra en það er talið vera þessa stundina.

Aðalbreytingin frá gildandi lögum er að allar konur fái sama fæðingarorlof, hvort sem þær vinna aðeins heimilisstörf eða úti á vinnumarkaðinum.

Ef frv. þetta verður að lögum óbreytt þá mun útgjaldaaukningin, sem af því mun leiða, verða rúmar 100 millj. sem skiptast þannig:

Full orlofsgreiðsla 1. nóv. s.l. var 15 866 kr. á mánuði. Tryggingastofnun ríkisins greiddi fæðingarorlof til 4266 kvenna árið 1982 og til 4258 kvenna árið 1983 sem skiptist þannig:

Óskertar þriggja mánaða greiðslur 2401 fæðingar.

Til þeirra sem fengu 2/3 hluta 853 fæðingar.

Til þeirra sem fengu 1/3 hluta (heimavinnandi konur) 1012 fæðingar.

Á árinu 1983 var skiptingin þannig:

Óskertar 3 mánaða greiðslur 2718 fæðingar.

Til þeirra sem fengu 2/3 hluta 778 fæðingar.

Til þeirra sem fengu 1/3 hluta 762 fæðingar.

Ef skiptingin yrði eins og hún var árið 1982 mundi kostnaðaraukinn við það að allar konur fengju sama fæðingarorlof, er Tryggingastofnun ríkisins innti þá af hendi, verða um 47 millj. kr. miðað við þá greiðslu sem nú er, eða 15 866 kr. á mánuði. Ef skiptingin yrði eins og hún var 1983 mundi það kosta tæpar 37 millj. kr.

Að lengja fæðingarorlof um einn mánuð og að allar konur fái sömu greiðslu, eins og frv. gerir ráð fyrir, mundi þá kosta um 68 millj: kr. á ári miðað við greiðslur eins og þær eru í nóvembermánuði nú.

Breyting sú sem gerð var á 16. gr. laganna á síðasta þingi og varðar fleirburafæðingar er tekin óbreytt inn í þetta frv.

Segja má að það sé orðið 30 ára stríð að ná því marki að allar konur í landinu búi við svipaða aðstöðu er fæðingarorlof varðar, þ.e. ef það frv. sem hér er nú til umr. verður samþykkt. Það var árið 1954 sem þeim konum sem starfa hjá hinu opinbera, þ.e. hjá ríkinu og bönkunum, var tryggt þriggja mánaða fæðingarorlof. En það eru 10 ár síðan allar útivinnandi konur öðluðust rétt til fæðingarorlofs, þá líka í þrjá mánuði. Það var gert með því móti að Atvinnuleysistryggingasjóður var látinn standa undir þeim greiðslum fram til 1980 að Tryggingastofnun ríkisins tók við þeim. Allar konur fengu þá fæðingarorlof, en heimavinnandi konur þó í raun og veru aðeins einn mánuð eða 1/3 af fullri mánaðargreiðslu.

Í umr. á Alþingi þegar það frv. var lögfest sem tryggði útivinnandi konum fæðingarorlof kom fram mikill vilji hjá mörgum þm. að stíga skrefið til fulls að tryggja öllum konum í landinu svipuð réttindi varðandi fæðingarorlof. Eftir miklar umr. var sett í þau lög ákvæði til bráðabirgða, sem hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir 1. jan. 1976 skal ríkisstj. láta kanna á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni.“

Síðan þessi lög voru sett fyrir 10 árum hafa þessi mál verið iðulega til umr. hér á Alþingi. Ég sé það í þingtíðindum t.d. að 9. mars 1976 hef ég talað fyrir fsp. á Alþingi, sem hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

„Hvað hefur ríkisstj. gert til þess að framkvæma könnun um það á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu fæðingarorlof sem um ræðir í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 56 frá 1975 um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof)?“

Í umr. út af þessari fsp. spurði ég m.a. hvort þessi könnun hefði farið fram og hvaða valkostir væru fyrir hendi til að allar konur í landinu gætu notið fæðingarorlofs. Ég spurði hvað mikill hluti kvenna byggi við það öryggi að verða þeirra hlunninda aðnjótandi að fá fæðingarorlof og hvað hinn hlutinn væri stór sem fengi það ekki.

Ég spurði enn fremur hvað það mundi kosta fyrir almannatryggingakerfið ef að því yrði horfið að það yrði látið bera kostnað af fæðingarorlofi þeirra kvenna sem engar slíkar greiðslur fengu þá. Ég sagði þá einnig, með leyfi forseta:

„Þó að miklir fjárhagsörðugleikar hrjái okkar þjóðfélag nú, þá réttlætir það ekki að mismuna konum á þennan hátt, því að eins og þessi mál standa nú get ég ekki betur séð en að þær konur, sem eru í mestri þörf fyrir fæðingarorlof, fái það ekki. Það væri líka hægt að hugsa sér að ná þessu marki í áföngum á einhverju árabili, t.d. á þremur árum.“

Þetta kom fram í fsp. minni 1976 og ég held að það sé hægt að undirstrika það nú, ekki síður en þá, að einmitt þær konur sem fá nú minnstar greiðslur, þ.e. heimavinnandi konur sem eru bundnar yfir börnum sínum, séu í mestri þörf fyrir þessar greiðslur. Það er viðurkennt að ekkert veiti af því að báðir foreldrarnir vinni utan heimilis til að afla fjármuna fyrir þörfum fjölskyldunnar og þess vegna sé þörfin mjög brýn að styrkja þær og fjölskyldur þeirra sem hafa ekki möguleika til að vinna utan heimilis og afla tekna.

Ég vil ekki trúa því að hv. alþm. séu ekki sammála um það að úr þessu misrétti verði að bæta nú svo að allar konur fái sama fæðingarorlof. Það er von flm. að þetta frv. verði lögfest á þessu þingi og það fyrir áramót, til þess að árið 1985, en á því ári er 30 ára afmæli þess að konur á Íslandi fengu fyrst fæðingarorlof, geti hafist með því að allar konur standi að þessu leyti jafnt að vígi. Það er nóg af misréttinu hér í þjóðfélaginu þó að þessi leiðrétting eigi sér stað. Það er ekki vansalaust að okkur finnst að draga það lengur. Hitt er annað mál að þó að brýnt sé að lengja fæðingarorlofið, þá teljum við flm. betra að stíga skrefin og reyna að tryggja það að þau fáist stigin heldur en að gera tillögur um það stór stökk í þessu efni að útilokað sé að ná samkomulagi um að stíga slík skref.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.