15.11.1984
Sameinað þing: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

137. mál, fjárframlög til níunda bekkjar grunnskóla

Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á þskj. 142 er till. til þál. um fjárframlög til 9. bekkjar grunnskóla. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að tryggja að ríkissjóður gegni sömu skyldum hvað varðar fjárframlög við 9. bekk grunnskóla og við aðra bekki grunnskólans. án þess þó að skólaskylda komi til.“

Í grg. segir, með leyfi forseta:

„Í þáltill. þessari felst að nemendur 9. bekkjar njóti sömu réttinda og aðrir nemendur grunnskóla. Skólaskylda 9. bekkjar hefur ekki enn komist til framkvæmda, m.a. vegna mjög skiptra skoðana skólamanna og annarra um þau mál. Þrátt fyrir það er hróplegt óréttlæti að nemendur 9. bekkjar skuli ekki sitja við sama borð og aðrir nemendur grunnskóla hvað varðar framlög úr ríkissjóði.

Nú er nám í 9. bekk undanfari alls náms á framhaldsstigi og reynslan sýnir að um 95% nemenda, sem ljúka námi í 8. bekk, halda áfram. Því virðist skólaskylda 9. bekkjar ástæðulaus.

Nú er það svo að unglingar innan 16 ára aldurs teljast ekki fullgildir á vinnumarkaðinum og hafa því lágt kaup. Þrátt fyrir það eru lögð á þá útgjöld umfram aðra grunnskólanema, svo sem námsbókakaup.

Í dreifbýlinu gengur þessi mismunun enn lengra þar sem nemendur þurfa búsetu vegna að vera í heimavistarskólum. Öll börn og unglingar, sem í heimavist eru, greiða hráefniskostnað í mötuneyti. En auk þess er nemendum 9. bekkjar gert að standa straum af launakostnaði starfsfólks í mötuneyti. Má því ljóst vera að útgjaldaaukning heimilanna vegna þessa er umtalsverð.

Till. þessi er því réttlætismál, ekki aðeins til að jafna aðstöðu nemenda innan grunnskólans heldur og að draga úr þeim aðstöðumun sem ríkir milli fólks í dreifbýli og þéttbýli.“

Í grunnskólalögum er gert ráð fyrir 9 ára skólaskyldu. Gildistöku þessa ákvæðis hefur þó hvað eftir annað verið frestað af ýmsum ástæðum, m.a. vegna skiptra skoðana um það mál. Í ljósi þess að um og yfir 95% nemenda 8. bekkjar setjast í 9. bekk og að reynslan hefur einnig sýnt að nokkuð af hinum 5% skilar sér þangað aftur, þótt seinna sé, er tæpast ástæða til að þetta ákvæði sé lögbundið. En með frestun gildistöku 9 ára skólaskyldu hefur ríkissjóður í leiðinni komið sér undan þeirri sjálfsögðu skyldu að taka þátt í kostnaði vegna námsbóka og í launakostnaði starfsfólks í mötuneyti í 9. bekk.

Það fyrirkomulag sem hefur verið á stöðu 9. bekkjar síðan grunnskólalögin tóku gildi veldur mismunun innan grunnskólans sjálfs. 9. bekkjar unglingum, sem litlar sem engar tekjur hafa, er gert að standa undir sama eða svipúðum námskostnaði og nemendum framhaldsskóla. Námsbækur eru dýrar og þær verða nemendur 9. bekkjar að greiða. Fleira kemur til sem kemur harðast niður á nemendum í dreifbýli því þar eru mötuneyti við grunnskólann. Allir grunnskólanemendur greiða fyrir hráefni til matar en ríkissjóður greiðir mestan hluta launa starfsfólks við mötuneytið, eða um 85%, nema fyrir nemendur 9. bekkjar. Þann kostnað verða þeir sjálfir að bera. Og ég fæ ekki séð að slík mismunun á kjörum unglinga innan sama skóla sé réttlætanleg .

Nákvæmar tölur um þennan aukakostnað í 9. bekk liggja ekki fyrir en samkv. upplýsingum frá menntmrn. mun mötuneytiskostnaður 9. bekkjar umfram aðra bekki grunnskólans vera á bilinu 15–16 þús. kr.

Bókakostnaður er 3–4 þús. kr. og þá eru orðabækur ekki taldar með, en orðabækur þær sem 9. bekkjar nemandi við gagnfræðaskóla á Akureyri átti að hafa í höndum í haust kostuðu um 7 þús. kr. Ég tók þá tölu ekki inn í dæmið vegna þess að ætla má að þær bækur nýtist nemandanum við allt það nám sem hann kann að stunda eftir það. En allt um það verður nemandinn á þessu stigi að leggja þetta út.

E.t.v. munu einhverjir segja að þessa kostnaðarliði geti sveitarfélögin sjálf annast. En nú er það svo að kostnaður vegna grunnskóla hefur í æ ríkara mæli færst yfir á herðar sveitarfélaga án þess þó að nýir tekjustofnar komi á móti. Það væri því að bera í bakkafullan lækinn að ætlast til slíks, einkum ef í hlut eiga fámenn sveitarfélög þar sem nú er svo ástatt hjá þeim að næstum öll útsvarsálagning fer til skólamála. Ég get nefnt sem dæmi Svarfaðardalshrepp þar sem 90% útsvarsálagningar fer til skólahalds. Dreifbýlisstyrkurinn, sem er hugsaður sem styrkur vegna ferðalaga til handa þeim sem langt eiga að sækja, jafnar nokkuð aðstöðumun innan 9. bekkjar, þar sem margir þeirra hafa ekki tök á því að stunda það nám í sinni heimabyggð. En eftir stendur mismununin innan grunnskólans sjálfs.

Á hringferð Kvennalistans um landið í sumar kom berlega í ljós hve aðstöðumunur er mikill til náms í dreifbýli og þéttbýli. Menntunarmál barnanna eru meðal þeirra mála sem heitast brenna á foreldrum í dreifbýli. Erfiðleikarnir við að kljúfa kostnaðinn, sem því fylgir að senda unglinga langa vegu til langdvalar, er mörgum eiginlega um megn. Þjóðfélaginu ber skylda til að skapa öllum þegnum sínum sem jafnastan rétt og sem jafnasta aðstöðu til þeirrar grunnmenntunar sem sjálfsagt þykir að allir hafi. En til þess að svo megi verða og til þess að sveitarfélög og heimili sitji við sama borð hvar sem er á landinu hlýtur ríkissjóði að bera skylda til að jafna út eða draga úr þeim kostnaðarmun sem er við mismunandi byggðarlegar og félagslegar aðstæður.

Ég vænti þess að hv. þm. sýni þessu máli skilning og stuðning og leyfi mér að vísa þessari till. til allshn.