19.11.1984
Efri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

Umræður utan dagskrár

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár í tilefni af því að í fjölmiðlum s.l. laugardag birtist tilkynning frá sjútvrn. þar sem tilkynnt var að frá og með næsta miðvikudegi, 21. nóv., væru veiðar á smábátum, þ.e. bátum undir 10 tonnum, stöðvaðar. Þetta var samkvæmt tilkynningu rn. gert af því að þessir bátar hefðu þegar aflað upp í það aflamark sem þeim hefði verið ákveðið samkvæmt þeirri reglugerð og þeim lögum sem samþykki voru um kvóta á s.l. vetri.

Þessi ákvörðun rn. er að mínu mati ansi sérstök. Hún er í fyrsta lagi sérstök vegna þess að þeir smábátaeigendur, sem höfðu leitað til rn. á undanförnum dögum og spurst fyrir um hvort að því stefndi að kvóti þeirra væri að verða búinn og þeir mættu búast við því að róðrar þeirra yrðu stöðvaðir, fengu yfirleitt þau svör að það stæði ekki til. það væri ekkert vitað a.m.k. um að svo væri komið.

Í annan stað gefur þessi fréttatilkynning aðeins fjögurra daga frest. Hvað skyldi nú vera um aðrar atvinnustéttir á landinu? Hvað ef þeim væri sagt upp vinnu með fjögurra daga fyrirvara?

Þessi vinnubrögð eru að mínu mati mjög vafasöm og ég kem hér upp til að mótmæla þeim. Ég lít svo á að ef grípa átti til ráðstafana á borð við þessar hefði verið nauðsynlegt að gefa mun lengri frest en hér hefur verið gefinn. Hér er aðeins um fjögurra daga frest að ræða. Það gefur auga leið að þeir sem hafa stundað veiðar á þessum litlu bátum hafa enga möguleika til að breyta rekstraráætlunum sínum eða atvinnuáætlunum í einu eða neinu og standa þar af leiðandi frammi fyrir atvinnuleysi og hafa litla möguleika til þess að breyta þar neinu um.

Eins og hv. þm. er kunnugt voru þessum bátum ákveðnar veiðar úr sameiginlegum kvóta. Þorskveiðikvóti þeirra var um 8300 tonn og kvótanum skipt niður í fjögur tímabil, þ.e. í janúar — apríl þar sem voru 1350 tonn, maí og júní 2500 tonn. júlí og ágúst 3230 tonn og september — desember 1220 tonn. Þessi skipting sýnir að þeir fáu sem raunverulega hafa þetta sem atvinnugrein sækja ekki mikinn afla í sjó. Tímabilið janúar — apríl er kvóti þeirra 1350 tonn og tímabilið sept. — des. er kvóti þeirra 1220 tonn.

Ég geri ráð fyrir því að þessi kvóti hafi verið áætlaður á nákvæmlega sama máta og annar kvóti út frá reynslu síðastliðinna þriggja ára. Hvað segir þetta þá? Það segir að meiri hluti kvótans fer til þeirra sem ekki hafa smábátaútgerð sem aðalatvinnuveg. Aðalkvótanum er úthlutað yfir mitt sumarið. Í þeim hópi eru sjálfsagt ansi margir sportveiðimenn eða frístundaveiðimenn sem stunda þennan veiðiskap yfir sumarið. Ég ætla ekki að fara að mótmæla slíkum veiðiskap, en hann er annars eðlis en sá veiðiskapur sem stundaður er allt árið. Mér býður í grun að mikið af þeim afla sem dreginn var að landi á miðsumarstímabilunum. maí — júní, júlí — ágúst, hafi ekki verið skráð eins og skyldi og þar af leiðandi sé nú að koma í ljós að afli smábáta sé meiri en gert var ráð fyrir fyrr á árinu. Það bitnar á þeim mönnum sem hafa smábátaútgerð sem aðalatvinnuveg að meira var sótt í aflann í sumar en upp hefur komið þar til nú.

Það var stoppað tvisvar í sumar til að draga úr sókn í þennan kvóta og að vísu komu upp nokkrar óánægjuraddir vegna þess, en að mínu mati var það að öllu leyti réttlætanlegt. Það hefði þó verið eðlilegra að hafa lengri kvótatímabil en aflastopp þegar þessi floti sækir minnstan afla og fyrst og fremst þeir sem stunda þetta sem aðalatvinnuveg. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh.: Er nú verið að stöðva sóknina vegna óeðlilega mikilla veiða á tímabilinu sept.— des. eða er verið að stöðva veiðar vegna þess að í ljós hefur komið að sókn hefur verið meiri á öðrum tímabilum en vitað var áður? Ég vil bæta því við: Ef í ljós kemur í svari hæstv. ráðh. að það sé vegna þess að afli sé meiri á yfirstandandi tímabili en áður var, vil ég benda á að ég geri ekki ráð fyrir að það sé vegna þess að það sé verið að sækja á fleiri bátum, heldur vegna þess að meiri aflasæld sé á þeim miðum sem þessir bátar sækja á, og fer nú ýmislegt öðruvísi en ætla mætti. Í öðru lagi: Hyggst ráðh. halda við þessa ákvörðun sína gagnvart þeim smábátum sem nú stunda veiðar og afla nær eingöngu ýsu eða að meginhluta til ýsu? Mér er kunnugt um að t.d. er afli þeirra báta sem nú sækja sjó frá Akranesi svo gott sem hrein ýsa. Eins og okkur er kunnugt um blasir við að ýsukvótinn verði ekki nýttur eða því aflamarki sem gert var ráð fyrir að sótt yrði verður ekki náð.

Í þriðja lagi: Verður staðið við það að trillukarlar fái ekki að kaupa kvóta og bjarga sér á þann máta sem aðrir hafa gert þar sem kvóti hefur klárast? Fá þeir ekki að njóta þessa góða þáttar markaðarins sem svo mikið hefur verið um talað? Fyndist mér það stinga nokkuð í stúf ef svo verður ekki, ef „ágæti“ markaðarins á ekki að fá að ganga jafnt yfir trillukarlana sem aðra í sjávarútvegi.

Þetta eru þær spurningar sem ég hef áhuga fyrir að hæstv. ráðh. svari og jafnframt hvort hann muni ekki endurskoða þessa afstöðu og hvort honum finnist ekki stórt í ráðist eða það mætti kannske frekar orða það á hinn veginn, lítið í ráðist. að fara að gera að engu atvinnu þessara fáu trillukarla sem stunda sjósókn árið um kring. Er slíkt ekki misráðið?

Ég vil svo upplýsa það að hv. 1. þm. Vesturl. hafa borist tvö símskeyti af Vesturlandi í sambandi við þetta mál og ég vil leyfa mér. með leyfi virðulegs forseta, að lesa skeytin upp. Það er þá í fyrsta lagi hraðskeyti til Friðjóns Þórðarsonar, 1. þm. Vesturl., Alþingi, frá Hellissandi:

„Við undirritaðir óskum þess að þú komir á framfæri mótmælum okkar gegn óskynsamlegum vinnubrögðum sjútvrh. þar sem hann með stoppi sínu þann 21. kippir undan fjölda manns atvinnu og lífsviðurværi með aðeins fjögurra daga fyrirvara. Við óskum einnig eftir því að fá að útskýra okkar sjónarmið betur.“

Undir þetta skrifa 22 menn. (Gripið fram í: Þar á meðal þú.) Það er nú ekki svo gott að ég sé trillukarl heima. (Gripið fram í: Þú sendir bara skeytið.) Ég sendi ekki skeytið. hæstv. ráðh.

Í öðru lagi er svohljóðandi símskeyti frá Akranesi: „Við leitum aðstoðar þingmanna kjördæmisins til að koma í veg fyrir stöðvun veiða báta undir 10 tonnum.“ Undir þetta skrifa tíu Akurnesingar.