19.11.1984
Efri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

Umræður utan dagskrár

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera þetta skeyti að umræðuefni. Það er ekkert stórmál þó að það komi hér inn á borð og við þingmenn Vesturlands höldum fund í þessari hv. deild. Ég ætla ekki að álasa hv. 4. þm. Vesturl. fyrir að ræða skeytið hér.

Ég hafði því miður ekki um málið heyrt fyrr en núna að ég kom í þingið. Það hafði enginn haft samband við mig út af þessu máli. Mér er því málið ókunnugt hvað þetta snertir og ætla ekki að blanda mér í það að öðru leyti en því að við gerðum okkur alltaf ljóst að við hlytum að lenda í ákveðnum vanda með kvótamálin á vissum sviðum. Ég vil minna hv. 4. þm. Vesturl. á að við höfum lagt töluvert á okkur á þessu ári, og í vetur einkum, til að reyna að rétta hlut þeirra sem hafa 10 tonna báta eða stærri, bæði vestur á Snæfellsnesi og á Akranesi. Það var mjög slæmt að geta ekki hjálpað þessum mönnum því að þeir voru órétti beittir. Það er mín sök og annarra. Það er verið að þreifa sig áfram með þessi mál, við hvað skyldi miða bátastærðina. Ég er þess fullviss að rangt er að miða við 10 tonn. Það var ekkert gaman að horfa upp á það á vetrarvertíðinni s.l. vetur að við hlið 10 tonna bátanna, sem fengu meðalkvóta, 37 og upp í 50 tonn með tilfæringum, þá gátu hinir, 9 tonn að stærð eða 9.9, óhindrað verið með netin áfram og veitt óhindrað þegar aðrir voru búnir með sinn kvóta. Þetta var ósanngjarnt. Þess vegna spyr ég: Er réttlætanlegt núna að veita bátum undir 10 tonna markinu aukaskammt þegar þetta er liðið á árið og hinir eru búnir að lifa við sult og seyru í þessum efnum. tveim tonnum eða jafnvel hálfu stærðar tonni fyrir ofan það mark sem sett var?

Þarna verður að fara varlega. Reglur reynast misvel. Þessar reglur um tonnastærð báta eru að mínu mati rangar. Þær þarf að endurskoða verði áfram haldið. Ekkert réttlætir það samt að fara að breyta reglum nú síðast á árinu til að láta vissan hóp hafa þegar búið er að mismuna öðrum. Ég sé á undirskriftum undir þessum skeytum að það eru margir góðir vinir mínir sem skrifa undir. En ég get ekki mælt með því að fara að veita þeim núna aukaskammt þegar búið er að neita hinum mestallt árið sem eru örlitlu tonnabroti umfram mörkin sem eru í reglugerð.

Og svo er það með ýsuna, svo að ég minnist á hana aftur. Það veit hv. 4. þm. Vesturl. einnig-ég vona að hann heyri til mín — að við beittum okkur mjög fyrir því í haust að fá að veiða meira af ýsu. Það liggur fyrir að upp í þann kvóta sem búið er að úthluta veiðist ekki. — Við vildum fá þessu breytt til að bátar gætu veitt ýsuna á línu, bæði á Snæfellsnesi og annars staðar, og nýtt þennan kvóta, en slíki var ekki talið fært vegna mismununar við aðra sem þegar voru búnir með sína kvóta. Þó að þetta sé svona er ég það harður, kannske of harður, í þessu máli að ég segi: Annaðhvort setjum við reglur til að standa við þær eða ekki. Þess vegna verður þetta reglugerðarákvæði að vera óbreytt. Ég tek undir það með hv. þm. Árna Johnsen að sportveiðimennirnir eiga að hafa sérstök leyfi. En það er ákveðinn hópur manna sem hefur atvinnu við þessar smábátaveiðar og þyrfti jafnvel að setja um það reglur og flokka það niður hverjir hefðu það raunverulega að atvinnu, væru alvörufiskimenn. - En ég get ekki mælt með þeim breytingum sem hér er farið fram á.