19.11.1984
Efri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

155. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég get tekið undir það með hv. 5. landsk. þm. að svo fágætt sem það er að menn geti fagnað frv. frá hæstv. ríkisstj., þá er sjálfsagt að gera það hér í ræðustól. Og svo enn fágætara sem það er að hægt sé að þakka sérstaklega frv. frá hæstv. ríkisstj., vegna þess að þar sé um virkileg réttlætismál að ræða. þá er það enn skyldara að gera það hér úr þessum ræðustól. Ég geri það hér með og veit reyndar að hæstv. fjmrh. hefur á þessum málum hinn besta skilning eins og ég hef oft tekið fram hér í þinginu og kemur út af fyrir sig ekki á óvart að hann flytji frv. af þessu tagi.

Varðandi það atriði sem hv. 5. landsk. þm. vék að varðandi slys sem valda örkumlum eða fráfall eða eitthvað því um líkt, sem veldur gífurlegri tekjuröskun og breytingum á högum heimila og einstaklinga, veit ég ekki annað en a.m.k. heimildir séu þar um. Og mér segir hv. 7. þm. Reykv. að þar sé um skylduákvæði að ræða nú orðið. Ég veit ekki hvernig með þetta er farið í hinum einstöku skattumdæmum. Ég þekki þetta aðeins úr mínu kjördæmi eystra, frá skattstjóra þar, og ég veit að þar er í öllum tilfellum þannig með þetta farið að þessar tekjur eru felldar niður til skattstofns hjá skattstjóra þar. Því hygg ég. þó að ég hafi það ekki í höndunum. að það sé rétt að við slík tilvik sé þetta þegar skylt í skattalögum.