19.11.1984
Efri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Aðeins eitt eða tvö orð um þær utandagskrárumræður sem fóru hér fram í upphafi fundar. Það eina sem ég vildi um þær segja er það að þeir sem þessara kvóta nutu vissu mætavel að reglurnar voru skýrar og auk þess hafði ráðh. tekið það fram í umr. 16. okt. s.l. Hann tók það fram að nú gerast veður válynd og það er vart við mjög mörgum róðrum að búast hér eftir. Það eina sem ég gæti hugsað mér að breyttist í þessu skyni er það að tekin yrði upp einhvers konar landshlutaskipting við þessar veiðar. En ekki meira um það.

Það hefur verið margítrekað að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er vel kunnugt þm. þar sem það er nær því samhljóða kvótafrv. frá því í fyrra. Þar sem ég átti þá ekki sæti á hv. Alþingi langar mig til að gera hv. þd. grein fyrir afstöðu minni. En fyrst langar mig þó til að víkja nokkrum orðum að því sem fram hefur komið í umr. hingað til.

Ég tel. þvert ofan í álit hv. 4. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Vesturl., að þessi fiskveiðistefna, þ.e. kvótaskiptingin, hafi gengið betur fram en menn óttuðust í fyrra. Þrátt fyrir það að andstæðingarnir 12 væru nokkuð háværir á nýloknu Fiskiþingi voru þeir þó ekki nema 12 af 35 fulltrúum og samþykktir fiskideildanna hvaðanæva af landinu bera vott um yfirgnæfandi meirihlutafylgi við málið. Aðeins þrengst hugsandi eiginhagsmunamenn t.d. á Vestfjörðum og við Breiðafjörð, vildu skrapdagakerfið til þess að geta haldið áfram að moka að sér fiski í hrotum vegna nálægðar við miðin. Það var m.a.s. svo á Snæfellsnesi hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni fiskideildarfulltrúa að þeir heimtuðu kvóta á togarana en ekki á netabátana. Þar var nú ekki mikið verið að hugsa um gæðin eða dýrustu afurðir heldur þrengstu eigin hagsmuni. Og tvisvar á árinu upphófust háværar raddir um skaðsemi kvótakerfisins og óréttlæti og illar afleiðingar. Fyrst var það í aflahrotunni í Breiðafirði í marsmánuði. Þá skildist manni á fjölmiðlum að það yrði almennt atvinnuleysi um allt Snæfellsnes það sem eftir væri ársins. Til gamans má geta þess að heima hjá hv. 4. þm. Vesturl. eða þar í grennd, á Sandi, Ólafsvík og Rifi, var í okt. ekki einn einasti atvinnuleysisdagur. 1. sept. var einn maður atvinnulaus og í ágúst tveir.

Svo í sumar, þegar togarar mokveiddu í einar 2–3 vikur fyrir norðvestan land. var gerð önnur tilraun til að brjóta þetta kerfi á bak aftur. Þá kom t.d. eitt af toppskipum Vestfirðinga með 30 tonn í kös á millidekki. Meira en helmingurinn af því var dæmdur frá vinnslu. Annað skip frá Suðurnesjum ruddist austur á firði með hauga af fiski á millidekki í sól og sumaryl sem þá var. Það var mestallt ónýtt þegar austur kom og sumt af því fór bókstaflega í bræðslu. Það var þessi fágæti dýrmæti þorskur okkar. Svo segja þessir menn að kvótakerfið eigi sök á þessu háttalagi.

Nú er enn nokkur hávaði vegna dágóðs línuafla fyrir vestan land og menn draga af þeim fiskisögum hinar ótrúlegustu ályktanir um stofnstærð þorsks. Það er svo gersamlega út í bláinn þegar menn eru að leggja til 350 þús. tonna þorskafla út frá svona lausafregnum að það tekur engu tali. Eru menn búnir að gleyma því að það náðust ekki nema 294 þús. tonn í fyrra þrátt fyrir að búið var að slaka á öllu skrapdagakerfi, stækka möskva. opna friðuð svæði og hvað eina? Nú um 1. nóv. er búið að landa um 238 þús. tonnum af þorski. Skv. reynslu fyrri ára gætu veiðst 25–30 þús. tonn til áramóta. þó líklega tæplega það. Heildaraflinn gæti m. ö. o. orðið um 265 þús. tonn í stað 257 sem að var stefnt. Það er alveg furðuleg niðurstaða, sem lesin var upp hér úr þessum ræðustól um daginn. að 297 þús. tonn af þorski mundu veiðast. Ellegar þá á innsíðu Morgunblaðsins s.l. laugardag. þar sem því er slegið föstu að 300 þús. tonn af þorski mundi veiðast á árinu. Og þetta á að vera allt saman til þess að sýna fram á galla kvótakerfis. Það voru gerðar vissar tilslakanir og tilhliðranir í sérstökum tilvikum sem ekki virtust óeðlilegar á sínum tíma, en hafa eflaust orkað tvímælis. Sjálfsagt hefur þar verið teflt á tæpasta vað að því er varðar afkomu þorskstofnsins. En það var raunar alltaf við því að búast að þessar tilslakanir þyrfti að gera. Svo má heldur ekki gleyma því að hver einstakur þorskur er nú 15% þyngri en jafnaldrar hans voru í fyrra.

Þá vil ég víkja nokkrum almennum orðum að fiskveiðistjórnun og stjórnunarleiðum almennt. Fiskveiðar hafa mikla sérstöðu meðal atvinnuvega okkar þar sem svo háttar að margir aðilar nýta í sameiningu takmarkaða auðlind. Hagsmunir einstaklinga og heildarinnar fara ekki saman. En hvað gerist svo ef veiðarnar eru látnar afskiptalausar? Fyrr eða síðar kemur að því að heildarafli minnkar og fiskstofnar verða ofnýttir og jafnvel skapast hætta á að þeim verði gersamlega eytt. Sú atburðarás er Íslendingum mætavel kunn og þeir sem vinna við sjávarútveg þekkja hana best af reynslunni. Það hefur því verið gripið til aflatakmarkana og fleiri fiskverndunaraðgerða. Það þarf ekki að rekja dæmin um ofveiði flestra eða allra síldarstofna í Norður-Atlantshafi. En það þarf heldur ekki að rekja mjög góðan árangur friðunaraðgerða á íslensku Suðurlandssíldinni t.d. og Norðursjávarsíldinni-og reyndar skv. nýlegum fréttum á norsk-íslenska síldarstofninum. Þetta eru dæmi um mikilvægar, skynsamlegar friðunarráðstafanir og hagkvæmni þess fyrir fólkið sem greinina stundar til sjós og lands og fyrir þjóðarbúið í heild.

Stjórnleysi mun fyrr eða síðar leiða til ófarnaðar og vesældar meðan skynsamleg fiskveiðistjórnun felur í sér árvissan afrakstur og tekjumöguleika fyrir sjómenn og landverkafólk og bætta afkomu heildarinnar. Nú á tímum má telja það til undantekninga að auðlindir séu nýttar á sameignargrundvelli. Ástæðan er sú að reynslan af því fyrirkomulagi er afar slæm. Það má heita að fiskveiðar séu eina umtalsverða atvinnugreinin í heiminum þar sem þetta fyrirkomulag er enn við lýði þó að það sé á hröðu undanhaldi eftir tilkomu 200 mílnanna. Dæmi um þetta eru úr landbúnaði þar sem beitarlönd eru nýtt sameiginlega. En munurinn er sá að það er mun auðveldara að bæta skaðann á beitilöndum heldur en ef fiskstofnar eyðast.

Ég held því fram að öllum þorra landsmanna sé löngu orðið ljóst að það verður ekki komist hjá því að stjórna fiskveiðum Íslendinga á einn eða annan hátt. Það má rekja það allt til skýrslu frá Nýbyggingarsjóði á árinu 1945 að menn gerðu sér grein fyrir því að auðlindin. þ.e. fiskstofnarnir, er takmörkuð og óheft stækkun flota og sóknaraukning mun leiða til ófarnaðar. Ég held því líka fram að margendurtekið höfuðmarkmið fiskveiðistjórnunar, að veiða hverju sinni æskilegt magn úr hverjum stofni á sem ódýrastan hátt og ná þannig hámarksafrakstri veiðanna en tryggja jafnframt endurnýjun auðlindarinnar, sé óumdeilanlegt markmið. Þetta markmið hefur ekki náðst vegna þess að stjórnunartilraunir hafa mistekist í tveim veigamiklum atriðum. Fiskveiðiflotinn hefur stækkað jafnt og þétt og það ásamt öðru hefur stuðlað að auknum tilkostnaði við veiðarnar. Í öðru lagi hefur ekki tekist að halda aflamagni innan fyrir fram settra marka. Þau hafa þó oftast verið mun rýmri en vísindamenn hafa talið ráðlegt. Eftir þrjú ár minnkandi þorskafla er það held ég endanlega viðurkennt með þjóðinni að tími frjáls og ótakmarkaðs aðgangs að Íslandsmiðum er liðinn þó að deilurnar um stjórnunarleiðir séu enn þá heitar.

Hyggjum þá að því hvaða stjórnunarleiðir koma til greina. Fyrst er rétt að gera sér grein fyrir því hvaða aðferðum hefur hingað til verið beitt til að reyna að stjórna fiskveiðum Íslendinga. Í skýrslu rannsóknaráðs um þróun sjávarútvegs frá 1981 eru taldar upp sjö aðferðir sem með réttu eða röngu mega kallast nokkuð mismunandi í eðli sínu. Það eru svæðalokanir, það eru tímatakmörk, það eru heildarkvótar, það eru reglur um veiðarfæri, fjármögnun skipakaupa, veiðileyfi og svo verðlagning.

Með lokun svæða er átt við samfellda lokun, t.d. fyrir botnvörpu. eða tímabundnar lokanir einstakra svæða. t.d. vegna smáfisksgengdar. Þeirri stjórnun hefur verið beitt í allríkum mæli að banna veiðar ákveðinna fisktegunda. einkum þorsks. yfir ákveðin tímabil og hefur verið kölluð skrapdagar. Þessi bönn hafa eflaust hlíft þorskstofninum nokkuð. Hins vegar eru ýmsir annmarkar á framkvæmd slíks banns. Heildarkvóta eftir tegundum. þ.e. veiði hefur verið bönnuð þegar árskvóta hefur verið náð, hefur ekki verið beitt við botnfisk, en á hinn bóginn hafa skelfisk- og síldveiðar verið takmarkaðar á þennan hátt og enn fremur var svo tekinn upp kvóti á loðnuveiðar.

Hér á landi hefur tæknitakmörkunum og reglum um búnað veiðarfæra einkum verið beitt sem möskvastækkun og reglum um fjölda neta í sjó. Formlegt leyfi hefur aldrei þurft til skipakaupa, en í reynd kemur stjórnun lánveitinga eins út. Frá 1975 hefur verulega verið hamlað gegn lánveitingum, en með undantekningum þó. Þessu stjórntæki var beitt í allríkum mæli án þess þó að um heilsteypta stefnu hafi verið að ræða og undansláttur hefur stundum eyðilagt árangur fyrri ára. Aflakvótum til skipa hefur verið beitt á síldveiðum og að nokkru leyti í skelfiskveiðum. Það hefur ekki orðið ýkjamikil breyting á þessari stjórnunaraðferð frá 1975, nema þegar aflakvóti var tekinn upp við loðnuveiðar árið 1980. Þá hefur í nokkur ár verið reynt að stýra sókn í fisktegundir með verðbótum, einkum á karfa og ufsa.

Þessar reglur höfum við notað. Þær hafa vissulega gert sitt gagn til að vernda fiskistofna, en þó ekki nóg, og þær hafa haft lítið hagrænt gildi. Víðast hvar í heiminum, þar sem fiskveiðar skipta einhverju máli sem atvinnuvegur, hafa stjórnvöld afskipti af veiðum á einn eða annan hátt, stundum með styrkjum frá ríkisvaldinu. En þar sem fiskveiðar eru undirstaða efnahagslífs okkar munum við aldrei hafa efni á að styrkja þær, heldur þvert á móti verðum við að haga öðrum þáttum efnahagslífsins eftir velgengni veiðanna, og þá gengur sú leið ekki hér hjá okkur.

Sköttun er önnur leið til þess að stjórna veiðum. Það eru til menn sem hafa haldið því stíft fram að auðlindaskattur væri sú leið sem fara skyldi og með því móti mætti fækka fiskiskipum. Postulum auðlindaskatts fer nú fækkandi, enda er ekki vitað til þess að neinum meiri háttar fiskveiðiskap í heiminum sé stjórnað með auðlindaskatti. Auðlindaskatti má líka hafna af öðrum orsökum. Aðferðin er nánast ófær um að halda afla innan fyrir fram ákveðinna marka og því gagnslaus til að stjórna veiðum í stofna sem menn óttast að séu í hættu vegna ofveiði. Til þess þarf veiðileyfi fyrir ákveðnu aflamagni og oftast einnig kvótakerfi. Ég þekki að vísu ekki til fiskveiðistjórnar allra meiri háttar fiskveiðiþjóða heimsins en ég veit að eftirtaldar þjóðir hafa komið á hjá sér veiðileyfi og kvótakerfi í einhverri mynd: Norðmenn, Danir, Kanadamenn, Japanir og Færeyingar og nú síðast Grænlendingar. Ég skal ekki segja um það hvort erlendar fyrirmyndir hafa haft nokkur áhrif á bestu manna yfirsýn í okkar sjávarútvegi í fyrra. En niðurstaðan varð sú sama: leyfisbinding allra veiða og kvótaskipting er illskásta stjórnunaraðferðin við þær aðstæður sem við nú búum við.

Það hafa vissulega verið upphugsaðar ýmsar tegundir kvótakerfa. Heildarkvótar. þar sem öll skip veiða þar til leyfilegum hámarksafla er náð, hafa verið reyndir hér en ekki reynst nothæf tilhögun við botnfiskveiðar auk þess sem kapphlaupskostnaðurinn hefur verið gífurlegur. Menn hafa stundum imprað á landfræðilegri kvótaskiptingu eða skiptingu afla á vinnslustöðvar án þess þó að hafa, að því er virðist, hugsað þá hugsun til enda. En það er ekki nóg að menn samþykki að skipta afla á skip. Það er líka hægt að gera það með ýmsu móti. Fyrst verður að gera það upp við sig hvort menn vilja aflakvóta, þ.e. skiptingu eftir fjölda eða þunga, eða einhvers konar sóknarkvóta. þ.e. leyfi til að halda skipum af ákveðinni stærð og ákveðinni gerð úti í ákveðinn tíma með tiltekin veiðarfæri. Á þessu afbrigði kvótaskiptingar, sem vissulega gefur aflamönnum betra færi á að njóta sín, eru nokkrir alvarlegir gallar. Sóknarkvóti gerir það t.d. næstum ómögulegt að halda sig við fyrir fram ákveðinn heildarafla nema aflamarki sé beitt líka. Það mun í gildi nú gagnvart þorski og hugsanlega eiga að gilda á næsta ári líka.

Í öðru lagi þá hafa menn þurft vegna eftirlitsins að segja fyrir fram um það hvenær þeir ætla að vera á sjó samkvæmt sóknarkvóta, hvað sem fiskgengd og gæftum liður. Síðan er svo í þriðja lagi hættan á því að þeim sem fastast vilja sækja sinn rétt finnist þeir verða að fara í öllum veðrum af því að þeir eiga svo fáa veiðidaga. Sóknarmarkið þarf að endurbæta og breyta ef það á að verða til bóta. Sóknarkvótinn gæti allt að því verið hættulegur, eins og hann hefur e.t.v. stundum verið á rækjuveiðum.

Aflakvótanum má líka skipta á fleiri en einn veg. Það er mögulegt að úthluta skipstjóra eða áhöfn. Það er möguleiki á að úthluta útgerðarfyrirtæki aflanum. Það má hugsa sér að binda aflakvótann skipum. Það má hugsa sér að hafa aflamarkið jafnt á öll skip, það má deila eftir stærð og það má deila eftir frammistöðu eða reynslu. þ.e. hlutfallslegu aflamagni skipanna undangengin tímabil eða ár. Þegar um margs konar veiðiskap er að ræða flækir það málið og menn geta talið réttlátt að taka líka tillit til verðmæta kvóta þess sem aflað er í heild.

Það eru eflaust til fleiri möguleikar og það skal fúslega viðurkennt að valið á afbrigði af aflakvótum er erfitt. Ég get t.d. ekki gert það ótvírætt upp við mig hvaða tegund aflakvóta mér mundi falla best við. En við völdum okkur þessa leið í fyrra. Það var aðalleiðin og það var gert á lýðræðislegan og að mínu mati samviskusamlegan hátt. Ég ætla því ekki að fjalla mikið um kosti og galla annarra afbrigða aflakvóta sem hugsanlega hefðu komið til greina. Þó vil ég geta þess að breyttur sóknarkvóti, þar sem mönnum er gefinn kostur á að bæta úr því ef illa hefur gengið á viðmiðunarárunum, hlýtur að vera freistandi t.d. fyrir Norðlendinga sem bjuggu við sjávarkulda og aflaleysi viðmiðunarárin 1981 til 1983. Blönduð leið, þar sem að nokkru leyti er stuðst við frammistöðu eða reynslukvóta eins og nú en að nokkru leyti skipt jafnt á öll skip sömu stærðar. hlýtur líka að koma til greina.

Ef við hyggjum þá að ókostum þess aflakvóta sem við höfum búið við, þá legg ég ekki mikið upp úr því, eins og sumir virðast gera, að aflakóngar fái ekki að njóta sín. Góðir fiskimenn munu halda áfram að njóta virðingar á Íslandi, en í framtíðinni verður vonandi lagt meira upp úr gæðum og hagkvæmni en magni. Auk þess var. hvort sem það var rétt eða rangt. tekið tillit til þessara sjónarmiða í fyrra. Hættan á því að smáfiski og lélegum netafiski verði fleygt er fyrir hendi. En ákvæði í reglugerð í fyrra um smáfisk utan kvóta ættu að hafa dregið úr þessari hættu. Það er auðvitað erfitt að hafa eftirlit með þessu og yfirleitt er erfitt að hafa eftirlit með framkvæmd kvótaskiptingar. En ég kannast ekki við að neitt eitt kvótakerfi sé verra en önnur í því tilliti. Auðvitað hafa verið einhverjar kjaftasögur á kreiki um það að netamorku hafi verið fleygt. Það hefur alltaf verið gert eftir langar landlegur í einhverjum mæli. Það var líka gert í landi áður. Það kannast ég við frá vertíðunum 1961 og 1965 í Vestmannaeyjum. Það var líka gert þegar menn slæddu upp net sem misfarist höfðu. Fiskinum var hent. En að gefa í skyn að að þessu hafi verið mikil brögð í fyrra, það eru a.m.k. ýkjur. Ég hef spurst fyrir um það meðal manna sem reru frá Hellissandi og Ólafsvík í vetur. Og þó menn hafi heyrt þetta nefnt þá er það eins og fjöðrin sem orðið hefur að fimm hænum hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni.

Um smáfiskinn hef ég tölur til 25. sept. Þá hafði verið landað samtals 1665 tonnum af smáfiski af togaraflotanum. Nú hefur smáfiskurinn væntanlega allur komið að landi. Jafnvel gæti verið að eitthvað af stærri fiski hefði verið talinn til smáfisks þó að ekki sé gott að henda reiður á því. En þetta er óvera, ef svo má segja, þetta er um 1.5 til 2% af aflamagni togaranna á þessum tíma. Það skyldi þó aldrei vera að öll upphlaupin undanfarin ár um smáfiskadráp hafi verið af þessari stærðargráðu. 1.5%, og ekki haft við meiri rök að styðjast.

Þeirri fagurfræðilegu þegnréttarspurningu hvort eðlilegt sé að úthluta mönnum sem þennan atvinnurekstur stunda, þ.e. fiskveiðar, einkaleyfum til að gera það áfram get ég ekki svarað. Reyndar sé ég fyrir mér að ýmis vandamál hljóti að koma upp þegar nýjar útgerðir vilja fá kvóta í framtíðinni. Kanadamenn hafa lent í vandræðum vegna þessa og ég reikna með að við lendum það líka. En ég vil skjóta því inn í og ítreka það að tal um atvinnuleysi vegna kvótaskiptingar á fiskafla er út í hött. Aftur á móti hefur atvinna sums staðar dregist saman vegna minnkandi afla. En það er allt annað mál. Kvótinn minnkar ekki heildaraflann. Hitt hef ég svo andstæðinga kvótakerfisins grunaða um, að vilja ekki halda sig við fyrir fram ákveðinn afla, hvort sem það eru fiskifræðingar eða stjórnvöld sem ákveða hann.

Ég vil ekki gerast langorður um rökin sem mæla með þessari skömmtunaraðferð, þ.e. kvótakerfinu, frekar en öðrum. Ég vil aðeins telja nokkur þeirra upp.

Í fyrsta lagi hlýtur tilkostnaður hjá hverri útgerð að minnka ef menn ráða því sjálfir með hvaða hætti þeir taka þann afla sem þeim er ætlaður. Og það er hægt að sýna fram á það að sóknarminnkun hjá togaraflotanum samsvarar a.m.k. fimm til átta togurum á árinu. Það er verra að áætla bátasóknina enn þá sem komið er.

Í öðru lagi mun takmarkað aflamagn hafa stuðlað að betri meðferð afla þar sem tonnafjöldinn er nú gefinn og tekjurnar ráðast af gæðunum. Gæðin hafa batnað þegar á heildina er litið, hvernig sem menn vilja reyna að snúa út úr því. Það er náttúrlega markleysa að vera að telja með flottrollsfiskinn sem ég var að ræða um áðan.

Í þriðja lagi er líklegt að ýmis aukaafli og aukaafurðir verði frekar tekið til handargagns þar sem ekki þarf að nota allar smugur fyrir meiri þorsk núna.

Í fjórða lagi ætti einmitt að verða hægt að koma við betri samræmingu veiða og vinnslu þar sem kappið við að missa ekki af hrotunni ætti nú að vera mikið til úr sögunni. Það er einkennilegt að halda því fram að kvótakerfi trufli samræmingu veiða og vinnslu. Útgerðarmenn og fiskverkendur verða bara að stjórna sínum skipstjórum, skipuleggja veiðarnar, eins og margir hafa gert þetta ár, t.d. Útgerðarfélag Akureyringa og BÚR, svo einhverjir séu nefndir. Ég vil spyrja menn hvort þeir vilji láta tölvustýra sókninni úr Reykjavík ef þeir svo ekki ráða við sína skipstjóra.

Í fimmta lagi munu útvegsmenn og skipstjórar hafa betra næði til að hyggja að öðrum afla þegar hann gefst þar sem þeir fá sinn þorskskammt hvort sem er. Og síðast en ekki síst: með þessu móti helst afli innan þeirra marka sem stjórnvöld ákveða og fiskverkendur og seljendur geta byggt áætlanir sínar á þekktum forsendum. Þetta kalla ég samræmingu veiða og vinnslu. Hvort við veiðum í ár 265 þús. tonn eða 257, það tel ég sömu töluna.

Allt frá því 1979 var mér orðið ljóst að hið svokallaða skrapdagakerfi var orðið gjörsamlega ónýtt og gagnslaust og fyrr eða síðar mundum við þurfa að leyfisbinda allar veiðar og taka upp kvótakerfi í einhverri mynd. Ég vil benda mönnum á grein í Ægi, 5. tbl. 1980 af þessu tilefni. Mér er það nú ljóst að þar þurfti meira en einhver fiskifræðileg eða hagfræðileg tölvurök til þess að þetta kæmist á, enda voru þorskaflaspár frá þessum árum vægast sagt lítið traustvekjandi. Menn urðu að reka sig á aflaleysi sem ekki nægði að afsaka með einhverjum hindurvitnum. Þetta hélt ég líka að hefði verið skoðun hf. þm. Kjartans Jóhannssonar. Ég skildi ekki afstöðu Alþfl. til þessara mála í fyrra. Hvort eitthvað hefur breyst síðan skal ég ekki segja um. Ég býst a.m.k. við að hv. þm. Magnús H. Magnússon hafi kynnt sér vilja Vestmanneyinga í þessum efnum. Það var alla tíð ljóst að það yrði afskaplega óvinsælt að koma þessari skömmtun á, einkum ef aðstæður væru orðnar eins og nú og í fyrra, að verulegur aflasamdráttur var óhjákvæmilegur samhliða breytingunni. Hins vegar kann ég ekki lýðræðislegri framgang á máli heldur en hafður var á.

Það var margtekið fram að kerfið væri aðeins sett upp til reynslu í eitt ár og yrði endurskoðað frá grunni að því loknu. Það verður gert. Þessu trúa sumir ekki og halda að upp sé komið viðvarandi skömmtunarkerfi. Það má vel vera að kvótakerfi á þorsk og annan botnfisk haldi áfram, eins og reyndar er staðreynd við allar aðrar veiðar. En reynslukvóti frá 1981–1983 gengur auðvitað ekki til eilífðar.

Aðrir segja að þetta fyrirkomulag bjóði upp á einræðisvald sjútvrh. sem geti með því móti mismunað gæðingum og samtökum. Þetta tel ég hina mestu firru og það sé einmitt nú fyrst sem lög gera ráðh. skylt að hafa samráð við Alþingi og hagsmunaaðila um mótun fiskveiðistefnu. Fyrir utan það að enginn ráðh. hefur getað né mun geta framkvæmt fiskveiðistefnu í andstöðu við sjómenn og útvegsmenn. En hingað til hafa ráðh. einmitt getað eyðilagt alla vitræna fiskveiðistefnu með lánum til skipakaupa.

Þá vil ég að lokum geta þess, virðulegi forseti, að ýmsir, m.a. sjálfstæðismenn, létu í ljósi vonbrigði með það í fyrra — og gera enn að aðrir flokksmenn og þm. skuli geta samþykkt fiskveiðistjórnarfar sem þeir kalla sósíalisma, jafnvel sósíalisma andskotans. Líklega mun það vera fremur óvanalegt fyrir Kristján Ragnarsson og aðra í stjórn LÍÚ að vera sakaðir um slíkar tilhneigingar. En það er dálítið kaldhæðnislegt að sósíalistar og Alþb.-menn skuli vera hatrömmustu andstæðingar þessa forms á veiðistjórnun. Ég er sannfærður um að þessi viðleitni hagsmunasamtaka sjávarútvegsins til að bjarga því sem bjargað varð af undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar verður til góðs. Og það er lágmarkskrafa til þeirra sem hæst láta í gagnrýni á þessa fiskveiðistjórnun að þeir bendi á aðrar leiðir að sömu markmiðum. Að ætla að lengja jólin og verslunarmannahelgina um nokkra daga er tilgangslaust kák og út í hött.

Ég vík þá aðeins örfáum orðum að þeim atriðum sem breytt hefur verið í því frv. sem nú liggur fyrir. Frv. er að vísu að mestu leyti óbreytt og hefði kannske átt að vera algjörlega óbreytt. Það hefur auðvitað meginþýðingu hvernig reglugerðirnar verða sniðnar eftir lögunum og ég vona að þm. fái að fylgjast grannt með smíði þeirra.

Það ákvæði sem breytt er í 1. gr., að ráðh. er heimilt að úthluta aflamarki skips, sem hverfur úr rekstri af hagkvæmnisástæðum eða vegna sjóskaða, til útgerðarfyrirtækis skips eða fiskvinnslufyrirtækis þess sem skipið hefur einkum lagt upp afla hjá, er betur orðað en í fyrsta uppkasti sem ég sá. Ég er þó ekki viss um að ég sætti mig fyllilega við þetta orðalag.

Við ákvæði um framsal sóknardaga neðar í sömu grein: „Ráðh. getur heimilað framsal úthlutaðs aflamarks og sóknardaga og sett reglur um skilyrði framsals og riftun þess telji hann ástæðu til“ vil ég ekki gera athugasemd í sjálfu sér. En sala á kvótum er vandmeðfarið mál yfirleitt. Það er vandmeðfarið og það gengur auðvitað ekki til lengdar að einstaklingar í útgerðarmannastétt geti fengið ávísun upp á sameiginlega auðlind íslensku þjóðarinnar og sjómannastéttarinnar sér í lagi, að þeir geti fengið ávísun ár eftir ár og selt hana. Það gengur ekki til frambúðar. Mér finnst fyllilega koma til greina að skoða hvert einstakt tilfelli þar sem kvóti hefur verið seldur og hvort það skip eigi að fá hann aftur. Það þarf að skoða það mjög vandlega. Þetta er vandmeðfarið mál.

Í þriðja lagi held ég að 6. gr. geti ekki gengið. Það eru enn margir afskaplega ósáttir við kvótakerfið og ég held að Alþingi og ráðh. verði að taka það á sig að breyta því og endurbæta árlega meðan þarf. Hagræði vinnslunnar og söluaðila er auðvitað nokkuð takmarkað, þó svo að við hefðum þriggja ára kvóta, því að kvóti sá gæti aldrei orðið gefinn út nema sem lágmark vegna óvissunnar í fiskifræðinni. Við gætum t.d. ákveðið að menn skyldu ekki veiða nema 200 þús. tonn í það minnsta næstu þrjú ár og bætt svo við þegar vitað er meira um stofnstærðina. En til hvers væri það fyrir söluaðila og vinnslu?

Virðulegi forseti. Þetta er orðið nokkuð langt mál en ég taldi nauðsynlegt af þeim orsökum sem ég gat um í upphafi að fara um þetta allnokkrum orðum.