19.11.1984
Neðri deild: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

136. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég fagna því að við fáum hér tækifæri til að ræða málefni þessarar fyrirhuguðu atvinnugreinar. Hún hefur blessunarlega komið nokkuð oft til tals síðustu tólf mánuðina á hæstv. Alþingi og það horfir til bóta ásamt þeim vaxandi áhuga sem menn sýna nýsköpun í atvinnuháttum og framtíðinni.

Ég hef vissar efasemdir um að stofnunar sé þörf í þessum efnum, a.m.k. fyrsta kastið. Líftækni má kalla þvergrein. Hún sækir efni til mjög margra og ólíkra greina. Hún er samsett af þekkingu úr eðlis- og efna- og tæknifræði. Hún er samsett af þekkingu úr líffræði, lífefnafræði, lífeðlisfræði og ótal ólíkum greinum. Þegar fyrstu spor líftækni voru stigin erlendis varð hennar fyrst vart á hinum ólíkustu stöðum í ýmiss konar grundvallarrannsóknum sem voru í ákveðnu sambandi við deildir eða stofnanir sem þá þegar voru fyrir hendi. Það er á þeim margþætta grunni sem líftæknin hefur vaxið síðan. Síðan hefur raunin orðið sú að þegar hún hefur eflst og magnast og ákveðin verkefni hafa verið tekin fyrir hafa bæði verið stofnuð utan um líftækni sérstök fyrirtæki og sömuleiðis hafa verið stofnaðar sérstakar deildir. En það eru að mínu mati skref sem menn ættu að stíga síðar á þróunarferlinum en við erum komin.

Líftækninnar hefur orðið vart hér á Íslandi á þennan sama hátt. Það eru rannsóknarmenn t.d. á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, það eru rannsóknarmenn á Keldum, á veirustofu Háskóla Íslands, frá Líffræðistofnun Háskólans, frá Raunvísindastofnun Háskólans og víðar sem hver frá sínu sjónarhorni hafa fengið áhuga á þessum málum. Á þessum grunni hafa þeir byggt sínar tillögur og stigið sín fyrstu spor. Ef þessum mönnum væri steypt saman í eina stofnun er á vissan hátt verið að breyta því umhverfi sem verið hefur undirrótin. Á þessum stofnunum er nú þegar ýmiss konar aðstaða. Þar eru bækur, bókasöfn og gagnasöfn, þar er tækjabúnaður, þar er ýmiss konar þekking og ýmiss konar reynsla fyrir hendi. Slíks þarf ekki að afla eða kaupa að nýju þó að ákveðnir aðilar hneigist meira og meira að líftæknirannsóknum.

Það sem hefur gerst blessunarlega á allra síðustu misserum í sambandi við líftækni hér á Íslandi er nákvæmlega það að menn frá þessum ólíku stofnunum hafa komið sér saman um og skipulagt rannsóknarverkefni. Nýjasta dæmið er skýrsla sem er nýlega búið að taka saman af nokkrum aðstandendum líftækninnar. Það hefur myndast vísir að samráði og samstjórn varðandi fjármögnun, fjáröflun og skipulagningu rannsóknanna. En eftir sem áður vinnur hver á sínum stað. Menn vinna áfram þar sem þeir hafa tæki, gögn, aðstoðarfólk og aðgang að upplýsingum og þekkingu. Það er því ekki rétt að mynda sérstaka stofnun á þessu stigi líftækniþróunar á Íslandi.

Hins vegar, eins og ég lýsti í upphafi máls míns, má vel vera að það komi að því síðar, ef verkefni verða stærri og öflugri og ef fólkinu fjölgar sem við þau vinnur. E.t.v. kemur sú stund að mönnum þyki skynsamlegt að koma á laggirnar sérstakri stofnun eða deild. Þá tel ég að Akureyri geti mjög vel komið til greina. Við vitum að þekkingarmiðlun nú til dags er auðveld og möguleikar til að hafa samband sín á milli með tölvum og ýmiss konar nýjustu tækjum eru miklir. Mönnum er því ekkert til fyrirstöðu að hafa nána samvinnu eða miðla upplýsingum á milli landshluta. Ég geri því engar aths. við staðarvalið út af fyrir sig, en ég tel að í augnablikinu sé stofnunin sjálf ekki tímabær og legg áherslu á þær fjölþættu rætur sem líftæknin á í tækni og þekkingu.

Ég held að það sé kannske brýnna verkefni á þessum misserum að fjármagna þá viðleitni sem þegar er hafin. Á þeim stofnunum sem ég vísaði til áðan er fyrir þekking, fólk í vinnu, tækjabúnaður, húsnæði. Ég held að ástæða sé til að verja þeim peningum sem menn vilja verja til líftækninnar á einhvern hátt til að styrkja þá viðleitni sem þegar er hafin og láta stofnunarmyndunina sjálfa bíða enn um sinn.

En ég ítreka að það er gott og kærkomið að fá tækifæri til að ræða þessi mál, ekki síst þar sem ég veit að hv. fjvn. hafa verið afhent gögn um ákveðin þróunarverkefni í líftækni og að ýmsir eru um þessar mundir vongóðir um að við megnum e.t.v. á allra næstu misserum að stíga þar djarfleg spor.